20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3115)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Forsætisráðherra (SE):

Mín afstaða til þáltill. þeirrar, sem hjer liggur fyrir til umræðu, er þessi:

Jeg greini fyrst á milli hinnar almennu rannsóknar á bankanum, sem tillagan fer fram á, og svo hinnar sjerstöku rannsóknar á veði ríkissjóðs. Mun jeg þá fyrst víkja að fyrri rannsókninni og fara nokkrum orðum um hana.

Á þingi 1922 var gert ráð fyrir því, að bankinn yrði ef til vill keyptur, og var þá jafnframt ákveðið að skipa nefnd til að rannsaka, hvers virði hlutabrjef bankans væru. Þingið tilnefndi 2 menn í nefnd þessa, hæstirjettur 1 og bankinn 2. Niðurstaða nefndarinnar varð sú, að 100 kr. hlutabrjef í bankanum væru þá 91 kr. virði. þáverandi bankastjórn var mjög óánægð með þetta mat, taldi það of lágt og mótmælti því, að enska lánið væri tilfært bankanum til útgjalda með 27 kr. gengi á sterlingspundinu.

Nú fer þessi tillaga fram á, að sama þingið, sem fyrirskipaði rannsókn á bankanum 1922, rannsaki hann á ný og skili niðurstöðunni af þeirri rannsókn fyrir þinglok í ár. En almenn rannsókn á bankanum að tilhlutun þingsins er svo óvenjuleg ráðstöfun, sjerstaklega þar sem sama þing hefir áður nýlega látið rannsaka hann, að þeir, sem fara fram á slíkt, verða að færa mjög alvarlegar ástæður fyrir þessari ráðstöfun, og það ekki síst vegna þess, að það er vitanlegt, að ómurinn einn af þessari rannsókn getur haft mjög óhagstæð áhrif á lánstraust vort, á gengi íslensku krónunnar og á fjárhagslega aðstöðu vora yfirleitt. Þó mættu ástæðurnar fyrir þeirri ráðstöfun vera svo ríkar, að taka yrði tillit til þeirra.

Hið fyrsta, sem verður því að spyrja um, er þetta: Hvaða ástæður eru til þessarar rannsóknar? Og ástæðurnar gætu þá tæplega verið aðrar en þær, að reynslan hefði sýnt, að hagur bankans væri annar og margfalt verri en nefndin ætlaði. Nú er sú breyting, sem orðin er á hag bankans síðan rannsóknin var ger, þessi, sem hjer segir:

Nefndin gerði tap bankans, það, sem óafskrifað var þegar rannsóknin fór fram, ca. 6600000 kr. Nú hafa verið afskrifaðar af því tapi og lagðar til hliðar 5 miljónir króna, og eru þá taldar þar með 1200000 kr. af gróða bankans frá fyrra ári, sem gert er ráð fyrir, að lagt verði til hliðar í þessu skyni. Varasjóður bankans er 2300000 kr. Afgangs eru þá 700000 kr., og þegar hlutafjenu er bætt við, á bankinn 5200000 kr. til þess að hlaupa upp á. Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) gerði auk þessa ráð fyrir gengiságóða af gullforða bankans, en þar sem það atriði er enn óútkljáð, og ágreiningur um það milli bankans og stjórnarinnar, hvernig gullforðann skuli reikna, tek jeg það ekki með.

Bankastjórar Íslandsbanka telja, að þegar miðað sje við niðurstöðu nefndarinnar, þá hafi hagur bankans batnað síðan um 25%, svo að hlutirnir ættu nú að standa í 116 kr. Bankanum hefir farið það fram síðan rannsóknin var gerð, en ekki aftur. Það þarf því að tilgreina aðrar og ríkari ástæður fyrir því, að rannsókn þessi skuli hafin.

Því hefir verið haldið fram, að sumir af fyrverandi bankastjórum Íslandsbanka hafi stjórnað honum mjög ógætilega. Jeg ætla nú að haga orðum mínum eins gætilega og manni í minni stöðu jafnan ber að gera, og ætla því ekki að dæma um þetta. Jeg skal ekki dæma um, hve mikinn þátt hinir óhagstæðu tímar eigi í tapi bankans, tímar, sem velt hafa hverjum bankanum á fætur öðrum hjá nágrannaþjóðum vorum, og jeg dæmi ekki heldur neitt um það, hvort eða að hve miklu leyti fyrverandi bankastjórar hafa með óaðgætni sinni bakað bankanum tap. En þó skal jeg í þessu sambandi minna menn á, að nú er gamla bankastjórnin farin frá og nýir bankastjórar teknir við. Og jeg get ekki sjeð, að þessi nýja stjórn geti haft nokkra hugsanlega ástæðu til þess að dylja fyrir landsstjórninni, ef hún hefði orðið vör við tap í bankanum, sem rannsóknarnefndinni hefði sjest yfir. Jeg hefi margspurt bankastjórnina um það, hvort hún hafi orðið vör við nokkuð það í bankanum, sem benti á, að meira mundi tapast en nefndin hefði gert ráð fyrir. Og þessu hefir bankastjórnin svarað neitandi. Nú á landið 2 trúnaðarmenn í bankanum, og er annar þeirra auk þess skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, og því tvöfaldur trúnaðarmaður stjórnarinnar. Þessum mönnum ber skylda til þess að skýra stjórninni frá því, ef þeir verða varir við einhverjar misfellur, og í þeirra þágu getur því ekki verið að taka á sig syndir annara. Þessir menn eru því í raun og veru daglega að rannsaka bankann. — Þetta tvent, að nýir bankastjórar stjórna nú bankanum — og það tveir þeirra trúnaðarmenn stjórnarinnar, en sá þriðji maður, sem hingað til hefir þótt gætinn í fjármálum —, þetta krefur enn þá sterkari röksemda fyrir því, að rjett sje að fara að rannsaka bankann enn á ný.

Eftir þann hreinsunareld, sem bankinn fór í gegnum 1922, hefir hann nú fengið lánstraust erlendis, sem fer vaxandi. Einnig þetta gerir það, að þingið má ekki veikja aðstöðu bankans með slíkri rannsókn, nema því að eins, að knýjandi ástæður sjeu fyrir hendi.

Nú spyr jeg: Hver er þá ástæðan til þess, að menn vilja endilega fara að rannsaka bankann að nýju? Jeg fæ ekki betur sjeð en að hana vanti gersamlega. Að vísu hefir verið ráðist á bankann í blöðum hjer á landi, og þær árásir hafa vakið nokkra tortrygni á bankanum meðal sumra landsmanna. En eru þessar blaðagreinar þá svo þrungnar af rökum, að þinginu beri að fara eftir þeim? það get jeg að minsta kosti ekki sjeð.

Sumir segjast með þessu vilja skapa frið um bankann — og sannarlega vanhagar bankann mjög átakanlega einmitt um þetta. En þótt gengið væri nú inn á þessa rannsókn, sem hv. flm. till. stinga upp á, hvernig mætti samt slík rannsókn skapa þann frið, sem bankann vantar?

Rannsókninni á að vera lokið fyrir þinglok. Jafnframt má gera ráð fyrir því, að þingi verði slitið fyrri hluta maímánaðar. Þessi rannsóknarnefnd hefði því aðeins fáa daga til umráða, og auk þess má búast við, að í hana yrðu kosnir menn, sem hlaðnir eru öðrum þingstörfum frá morgni til kvölds. Hvernig mættu þá þessir menn anna því að rannsaka bankann svo í fáeinum frístundum, að þeir með þeirri rannsókn gætu felt dóm um hag bankans, sem nokkuð yrði bygt á? Jeg vil biðja hv. þm. að athuga, hvílíkt feiknastarf það er að rannsaka slíka stofnun sem Íslandsbanka. Hugsum oss bara eitt einasta togaralán. Hvílíkan tíma tekur að rannsaka það! Fyrir láninu standa ef til vill 12–20 menn, og öryggi trygginganna fer eftir því, hvernig þessir menn eru staddir. Rannsókn þessa eina láns getur tekið feiknatíma. Til samanburðar má geta þess, að fyrri rannsóknarnefndin var í marga mánuði að rannsaka bankann.

Fyrir því getur hver einasti maður, sem komið hefir nálægt bönkum, skilið, að 10–15 daga rannsókn er engin rannsókn. Og svo mjög þykist jeg þekkja samviskusemi þeirra manna, sem þetta þing skipa, að jeg þori að fullyrða, að þeir yrðu fáir hjer af hv. þm., sem eftir 10–15 daga rannsókn treystu sjer til að kveða upp dóm um hag bankans. Af þessari einu ástæðu er því þegar fyrir það sjeð, að þingið getur ekki fallist á slíka rannsókn.

Af þessu má enginn draga þá ályktun, að jeg vilji ekki, að eftirlit sje haft með bönkunum. Síður en svo. Jeg er aðeins mótfallinn því, að ráðstafanir sjeu gerðar viðvíkjandi bönkunum, sem í eðli sínu eru þannig, að þær fela í sjer fyrirfram vantraust á þeim. Það er mjög vont fyrir slíkar stofnanir sem banka að vera að ástæðulausu gerðir að umtalsefni og á þá ráðist í blöðum, sem tekið er tillit til í landinu, en hvað er það nema hjegóminn einn hjá því, ef Alþingi, sjálf fulltrúasamkoma þjóðarinnar, kveður upp dóm, sem fyrirfram felur í sjer vantraust? Í þessu er hættan fólgin. Sjálf ákvörðun rannsóknarinnar myndi hlaupa eins og eldur í sinu út um öll lönd. Og hve dýr gæti sá eldur orðið þessari þjóð? Hve miklu verðmæti gæti hann brent upp?

Enginn skilji orð mín svo, að jeg ætli, að þeir hv. þm., sem að þessari till. standa, hafi borið hana fram í illu skyni. Slíkt munu þeir hvorki heyra frá mjer innan nje utan þings. En kapp þeirra, að komast að niðurstöðu um, hvað satt kunni að vera í ýmsum þeim kviksögum, sem um bankann hafa farið um bygðir landsins, hefir orðið að ofurkappi, sem mjer virðist hafa falið fyrir þeim, hve tvíeggjað það sverð er, sem þeir hafa nú brugðið hjer í hv. deild.

Því verður tæplega neitað, að margt hefir oft og einatt orðið til að fela okkur rjetta sýn í bankamálum okkar. Liggja til þess ýmsir þræðir. Fyrst er á það að líta, að bankamálasaga okkar er svo stutt, að ekki hafa af þeim ástæðum getað skapast neinir framúrskarandi fagmenn á þessu sviði. Hins vegar eru þessi mál öll mjög flókin og mörg atriði mjög vafasöm. Sjer maður þetta best með því að kíkja dálítið í bankafræði og kynna sjer umbrotin í ýmsum skoðunum á bankamálum. Um Íslandsbanka er því ekki heldur að neita, að þjóðernistilfinning eða tilfinning fyrir því, að erlendir menn eigi mikið af hlutafjenu, grípur eða hefir gripið nokkuð fast í strenginn. En nú finst mjer, að þetta ætti ekki að þurfa að raska neinu framar, þar sem allir bankastjórarnir eru nú íslenskir menn, þar sem bankaráðið eða meiri hluti þess er íslenskur, þar sem málin, praktiskt tekið, snúa svoleiðis að oss nú, að vjer höfum hjer erlent hlutafje undir yfirráðum vorum og greiðum aðeins af því mjög hóflega vexti. En aðalatriðið í málinu er þetta, að bankinn er nú orðinn sá liður í viðskiftum vorum, að velgengni hans er velgengni þjóðarinnar, styrkur hans er að nokkru leyti okkar styrkur. Af þessu leiðir það, að vjer verðum að taka með skilningi á málum bankans og hugsa okkur tvisvar um áður en vjer beitum hann mjög hörðum tökum.

En er þá ekki hægt að finna leið, þar sem við getum allir mæst? En áður en jeg vík frekar að því, vil jeg enn minna á eitt atriði, sem við ef til vill allir saman munum helst til sjaldan eftir. Þetta atriði eru sparisjóðir vorir. Árið 1921 námu innieignir í sparisjóðum utan Reykjavíkur 7646685 kr. Sparisjóðirnir voru 49 að tölu og innstæðueigendur 20735. Þessir sparisjóðir eru smábankar víðs vegar um landið. En hvar er eftirlitið með þeim bönkum? Praktiskt tekið er það ekki neitt. Býst jeg við, að ýmsir verði sammála mjer um það, að svo búið megi ekki lengur standa. Tel jeg knýjandi nauðsyn á að skipa einhvern opinberan starfsmann til að hafa eftirlit með þeim, og er þar tækifæri til að láta sama manninn vera umsjónarmann með bönkunum. Ráðstöfun eins og þessi gæti með engu móti veikt lánstraust vort, heldur þvert á móti. Hún yrði þessi venjulegi liður í þeim tryggingarráðstöfunum, sem víða annarsstaðar eru gerðar til þess að vekja traust á þessum stofnunum. Mun stjórnin annaðhvort fá einhverja nefnd þingsins til að flytja frv. þessa efnis nú á þinginu, eða þá að öðrum kosti gera það sjálf. Hefir mjer dottið í hug, hvort þessi leið gæti ekki fullnægt þeim, sem grípa vilja til þingrannsóknanna á hag bankans alment.

Eftir því sem jeg hefi komist næst, er nú byrjuð mjög góð samvinna með bönkunum sjálfum, og er það mikils virði. Hygg jeg, að því myndi og fylgja mikil gifta, ef samkomulag gæti náðst um þetta mál og þetta umsjónarembætti stofnað. Auðvitað skal jeg játa það, að alt er undir því komið, að vel takist með valið á þeim bankaeftirlitsmanni, en þar myndi stjórnin, ef til kæmi, gera sitt ítrasta til þess, að þetta færi vel úr hendi, og reyna að velja þann mann í stöðuna, sem öll þjóðin gæti borið fylsta traust til.

Þá hefi jeg drepið á hina almennu rannsókn á hag bankans, og skal nú víkja með nokkrum orðum að rannsókninni á veðinu fyrir enska láninu. Lít jeg svo á, að það ætti að vera eitt af því, sem þingið treysti stjórninni til að rannsaka. Efast jeg ekki um, að fjármálaráðherra myndi gera alt, sem í hans valdi stendur, til þess að gefa þinginu bráðabirgðaskýrslu um þetta veð. Annars mun fyrverandi fjrh. (MagnJ) hafa gefið viðskiftamálanefndinni á fyrra ári nokkra skýrslu um þetta veð. En að sjálfsögðu ber stjórninni skylda til að hafa fult og tryggilegt eftirlit með þessu veði.

Að svo mæltu get jeg lokið máli mínu að þessu sinni.