20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Magnús Kristjánsson:

Nú er liðin nálega ein vika síðan þessi umræða byrjaði, og er slíkur dráttur á meðferð mála víst einsdæmi, enda vel til þess fallinn að gera tillöguna áhrifalausa, þótt fram gengi. Hins vegar má vera, að þessi dráttur verði til þess, að umræðurnar verði hóflegri en til var stofnað síðastliðinn laugardag af hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Eins og kunnugt er, þá er þessum þm. jafnan teflt fram af flokksmönnum hans, þegar mikils þykir við þurfa. Enda er þá venjulega allra vopna neytt, og ekki mun það vera fjarri að álíta, að trúarjátning hans sje sú, að tilgangurinn helgi meðalið.

Jeg skal ekki að svo komnu fara lengra út í þessa sálma, en vil snúa mjer að nokkrum atriðum í ræðu þessa hv. þm. sem mig furðaði á. Ræðan var merkileg fyrir tvent: Í fyrsta lagi fyrir þá alvarlegu tilraun, sem gerð var til þess að villa mönnum sýn í málinu, og í öðru lagi af því, að hún var svæsin árás á flutningsmenn tillögunnar og Framsóknarflokkinn í heild sinni.

Hann byrjaði á að slá því föstu, að tillagan væri ákveðin tilraun til þess að rýra traust bankans, og er synd að segja, að það sje góðgjarnleg tilgáta í garð flutningsmanna. Satt að segja er það undarlegt, að svona ósvífin ummæli skuli koma fram frá nokkrum þingmanni, því að engum getur verið hagur að því að spilla áliti bankans. En öllum hlýtur að vera ant um að tryggja álit bankans og tiltrú, og það er tilgangurinn fyrir okkur flutningsmönnum tillögunnar. Jeg verð því að ætla, að hv. þm. (JÞ) hafi haldið þessu fram á móti betri vitund.

Annað atriði, sem raunar er ekki þýðingarmikið í sjálfu sjer, en sýnir þó ljóslega, hversu langt er gengið í því að reyna að villa mönnum sýn, er það, að sami þm. (JÞ) hjelt því fram, að fjárkreppan stafaði aðallega af óhæfilega miklum skipakaupum. Ef öll rök eru jafnmikils virði sem þessi, þá verð jeg að segja, að það er ekki mikið á þeim byggjandi. Nei! Skipakaupin geta aðeins að litlu leyti hafa haft áhrif á fjárkreppuna. Ef skilningur þm. (JÞ) væri rjettur, þá ætti að rjettu lagi Eimskipafjelag Íslands, landsstjórnin og togaraeigendur að vera valdir að fjárkreppunni. En því vil jeg fastlega mótmæla. Sannleikurinn er sá, að mikið af þessum skipum er keypt fyrir lánsfje í útlöndum, sem greiðist með samningsbundnum afborgunum á löngum tíma, og getur því aðeins að mjög litlu leyti haft áhrif á hag bankanna. En eins og jeg tók áður fram, þá er þetta ekkert aðalatriði í þessu máli.

Þá var það eitt enn, sem kom mjer furðulega fyrir. Hann sagði, að bönkunum væri í lófa lagið að raka fje saman eftir vild úr vösum almúgans, og gat þess jafnframt, að bankamir, Íslandsbanki og Landsbankinn, hefðu skilið rjett þetta hlutverk sitt. Það liggur þá nærri að álita, að með þessum ummælum hafi þm. viljað lýsa velþóknun sinni á okurvöxtum og óhæfilegu afskiftaleysi á gengishruni hinnar íslensku krónu. Þetta gefur oss tillögumönnum tilefni til að halda, að bankamir hafi ekki skilið vel hlutverk sitt, ef þeir hafa haldið, að það væri í því einu fólgið að græða fje. Þótt það verði ekki umflúið, að almúginn greiði nokkum hluta af tapi bankans, þá verður að fara mjög gætilega í þær sakir og dreifa þeim rangláta skatti á sem lengst tímabil.

Það þýðir ekkert að endurtaka það, að þessar svokölluðu árásir geti haft óþægileg áhrif á hag bankans og lánstraust. Það er varla hætt við, að mikið verði lagt upp úr því, að í þessu liggi vantraustsyfirlýsing á bankann, heldur verður mönnum að skiljast, að það, sem vjer viljum fá fram, er einmitt það, að bankinn sje svo stæður, að ekkert sje að óttast. Vjer teljum misráðið að slá svo skjaldborg um bankann, að ekkert megi vitnast um hag hans, eins og verið hefir að undanförnu. En auðvitað vonum við, að alt sje í sem bestu lagi. Að slík rannsókn sem þessi, sem hjer er farið fram á, muni stíga útlendum fjesýslumönnum mjög til höfuðs, þarf varla að óttast. Þeir hafa hvort sem er Móses og spámennina, skýrslur nefndar og rannsóknarmanna, eins og Bjarna Jónssonar frá Vogi og Björns Kristjánssonar, fyrverandi bankastjóra, og er þess að vænta, að þær máttarstoðir sjeu svo styrkar, að traust bankans verði ekki rýrt, þótt einhverjar skýrslur verði gefnar nú, svo alþingismenn, er þeir koma heim, geti minkað óvissuna, sem er um þessi efni hjá alþýðu manna úti um landið.

Ekki er það heldur rjett, að umtalið um bankann og það, sem um hann hefir verið ritað, hafi getað spilt fyrir honum svo mjög, heldur það, að hann hefir orðið að draga úr og stöðva yfirfærslurnar, sem hann átti að annast, og einmitt í því liggja þær sönnu orsakir fyrir verðfalli peninganna og tapinu, sem orðið hefir á undanförnum árum.

Þá er komin fram brtt. frá hv. þm. (JÞ), að fjárhagsnefnd gefist kostur á að fá allar upplýsingar um þessi efni. Jeg ætti nú síst að vera mótfallinn því, þar sem jeg er einn úr þeirri nefnd, en hins vegar sje jeg fram á, að þótt þessi till. yrði samþykt, þá er svo liðið á þingtímann, að það mundi tæplega koma að gagni. En ekki hvað síst þetta sannar það, að hjer, í hinu háa Alþingi, er nokkurskonar samábyrgð um það að halda öllu leyndu í lengstu lög, og verð jeg þó að álíta það mjög óheppilegt.

Jeg býst við, að það geti varla talist hættulegt, þótt jeg láti í ljós álit mitt um það, hvernig hagur bankans standi. Hins vegar álít jeg ekki, að reikningar bankans sjeu svo glöggir, að hægt sje nákvæmlega að sjá, hvernig einstökum liðum er varið. Jeg geng út frá því, að þó að bankinn reikni 31. jan. skuldir sínar við erlenda banka ekki meira en 3409000 kr., þá sje ekki ofreiknað hjá mjer, að þær hafi um síðustu áramót numið um 6 milj. kr. En þetta bendir á, að ástandið sje að batna. Þá geri jeg ráð fyrir, að skuldir við erlend verslunarhús á sama tíma sjeu um 4 miljónir og skuld við ríkissjóð Dana um 5 miljónir. Þetta er ekki svo átakanlega mikið, en það getur líka verið talsvert meira.

Mjög erfitt er að átta sig á ýmsum liðum, eins og t. d. „ýmsum skuldheimtumönnum“, 7 milj. kr. Er ekki gott að segja, hvort þeir eru íslenskir eða erlendir.

Þá eru innstæður á hlaupareikningi 11 milj., og er ómögulegt að sjá, hvort það er innlend eða erlend eign.

Loks kemur svo enska lánið. Jeg hefi í þessum áætlunum gert mjer að reglu að reikna með því lægsta, sem gat átt sjer stað, og geri samkvæmt því þennan lið 5 milj. Þá má telja lánsfje frá Landsbankanum, 2 milj., seðla í umferð um 7 milj. og innstæðufje kringum 6 milj. Þetta kann nú alt að virðast eðlilegur hlutur, en þegar þess er gætt, að um 20 milj. af þessu er fje, sem ríkið hefir allan veg og vanda af, þá ætti það að vera næg ástæða til þess, að oss tillögumönnum væri ekki legið á hálsi fyrir það, að vjer viljum knýja fram, hvernig ástatt er með þetta, svo vjer verðum ekki lengur duldir þess, sem allir þurfa að vita. Upphæðirnar samanlagðar nema æðimörgum miljónum, og getur því tæplega talist óeðlilegt eða ósanngjarnt, þótt þm. eða almenningur óski þess að fá sem besta vitneskju um það, að eignir bankans sjeu svo tryggar, að fjárhag hans sje borgið.

Að það sje rógburður eða árás á bankann, tel jeg næsta óviðurkvæmileg ummæli.

Jeg vil í þessu sambandi minna á orð, sem hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) ljet falla um þetta. Hann sagði, að tillagan sannaði það, að tillögumennirnir væru í alla staði ófærir um að fjalla um þessi mál, og þá auðvitað um fjárhag landsins. Jeg bið menn að taka eftir því, að þetta voru hans óbreytt orð. Hinu verð jeg að biðja hv. þm. afsökunar á, þótt þessar athugasemdir sjeu nokkuð ófullkomnar og ekki skemtilegar, því jeg verð að reyna að fylgja þeim slitrótta hugsanabláþræði, sem hann var að spinna úr sínum óþrjótandi ósannindalopa.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. forsrh. (SE). Það virtist svo, sem hann væri nálega sömu skoðunar og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), því hann sagði, að þessar tilraunir frá þingsins hálfu um að fá nokkra vitneskju um þessi efni, væru mjög óeðlilegar. Hann sagði einnig, að ómurinn af slíkri rannsókn sem þessari hlyti að berast mjög víða, og skildist mjer helst á honum, að það gæti bakað landinu ómetanlegt tjón. Raunar var þetta heldur óljóst og fremur torskilið, en það er hryggilegt, að hann, sem á að vera forystumaður þjóðarinnar, skuli hafa svona óheilbrigða skoðun á þessu máli.

Ekki er því að leyna, að vjer tillögumenn höfum þráfaldlega leitað til hæstv. forsætisráðherra (SE) á kurteisan og vel viðeigandi hátt, til að fá skilmerkileg svör og skýringar viðvíkjandi þessu máli. En því miður hefir árangurinn orðið lítill eða enginn, því þótt við hefðum stundum getað gert okkur von um, að upplýsingarnar kæmu, þá hefir það jafnan brugðist.

Hæstv. forsrh. (SE) tók það fram, að hlutabrjef Íslandsbanka hafi staðið í 91 kr. hundraðið um áramótin 1921, og hann gat þess einnig, að síðan hefði hagur bankans batnað svo, að nú væru þau líklega 116 kr. virði. Auðvitað gleddi þetta víst alla, ef á því mætti byggja, og er eitthvað í áttina til þess, sem vjer tillögumenn vildum fá sannað, að hagur bankana sje góður. Raunar skal jeg játa, að fyrir mjer skyggir það dálítið á gleðina, að jeg er þess fullviss, að enginn maður muni vilja kaupa brjefin fyrir þetta verð, og máske tæplega fyrir helming þess, er hann nefndi.

Þá kom enn annað atriði fram í ræðu forsætisráðherra (SE), að nú væri stjórnin búin að setja tvo trúnaðarmenn landsins í bankastjórastöðurnar. Síst vil jeg bera brigður á góða hæfileika þessara manna eða vilja þeirra til að bjarga bankanum við, en jeg hygg þess þó tæplega að vænta, að þeir muni eins geta notið sín, þar sem þeir aðeins eru settir um óákveðinn tíma, eða geti komið eins fram gagnvart stjórn og þingi eins og ef skipaðir væru menn til frambúðar með fullri ábyrgð. Sú ábyrgð, sem á stjórninni hvílir í þessu efni, hefir verið vanrækt hingað til, en nú hefir forsætisráðherra (SE) gefið yfirlýsingu um það, að þessir settu bankastjórar fullyrði, að ekkert tap þurfi að verða á rekstri bankans framvegis. Það væri æskilegt, að þetta reyndist rjett, en hætt er við, að hæstv. forsrh. (SE) hafi nú talað heldur djarft um þetta; en reynslan verður að skera úr því.

Forsætisráðherra (SE) taldi tillögu þessa, ef samþykt yrði, sama sem að þingið kvæði upp dauðadóm yfir þessari stofnun. Jeg býst við, að varla yrði neinn endanlegur dómur upp kveðinn yfir bankanum fyr en þá, að þessari rannsókn, sem hjer ræðir um, væri lokið.

Jeg býst ekki við, að forsætisráðherra (SE) hafi, meðan hann var dómari, kveðið upp dóma áður en hann rannsakaði málin, og verða því ummæli hans um þetta efni ekki tekin alvarlega, heldur sem mishepnuð tilraun til að verja miður góðan málstað.

Jeg hefi nú drepið á helstu fjarstæðurnar í ræðu hæstv. forsrh. (SE) og hv 3. þm. Reykv. (JÞ), og öðrum er ekki að svara enn sem komið er. Jeg álít samt, að miklu lengra hefði mátt fara inn á þetta mál en gert hefir verið. En það er búið að tefja það og spilla því með óþörfum drætti, og jeg býst við, að búið sje að mynda samtök til þess, að tillagan nái ekki fram að ganga. En samt eru umr. nú þegar orðnar til nokkurs gagns, þar sem ýmsar upplýsingar hafa komið fram, sem að gagni mega verða. Jeg vil svo að lokum vísa á bug öllum aðdróttunum í þá átt, að till. sje til þess fram borin að spilla áliti bankans. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um málið að þessu sinni.