20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (3124)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Baldvinsson:

Fyrst ætla jeg að minnast á brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Mjer virðist, eftir því sem hún er orðuð, að hún muni ekki koma að miklu haldi, þar sem talað er um, að fjhn. eigi að taka við skýrslunni, og þá líst mjer hún muni bundin þagnarheiti og megi ekki gefa þinginu neinar upplýsingar um það, sem hún kann að verða vísari. Enda er þetta alls ekki heppilegt, er nefnd þessi er ekki skipuð svo, að allir flokkar eigi þar fulltrúa. Sýnist mjer því brtt. vera hrein og bein vitleysa Á síðasta þingi vaf fjárhagsnefnd Nd. sýnd einhver skýrsla um þessar tryggingar enska lánsins, og voru það eintómir víxlar, fyrir sömu eða mjög líkri upphæð og lánið nam. Sjá allir, hversu lítil trygging þetta er, og er óvenjulegt, að veð skuli ekki nema meiru að nafnverði en skuldin; og allir vita, hvernig þeir meta tryggingarnar, bankastjórarnir, þegar þeir eru að veita lán. Sjerstaklega þegar um smærri lán er að ræða. Þessi skýrsla var ekki heldur mikils virði; þó að nafngreindir væru þeir menn, sem á víxlunum standa, gat nefndin harla lítið ráðið í það, hversu gildar þessar tryggingar voru.

Um till. er þó sýnu nær, og mætti vænta einhvers frekari gagns af henni, þar sem er þó ætlast til, að alt þingið fái þessa vitneskju, svo menn geti þá sjeð og heyrt, hvað um er að vera.

Jeg vil segja það, að það er greinilegt hjá meiri hluta þingsins, að hann gerir tilraun til að draga þetta mál svo ú langinn, að ekki verði hægt að rannsaka þetta mál til hlítar. (JakM: Hvaða meiri hluti?). Meiri hluti hv. deildar

Hæstv. forsrh. (SE) drap á Toftemálið, og þóttist geta útvegað vitneskju um það, ef hann spyrði bankaráðið leyfis um það. Jeg er hissa á því, að hann skuli ekki hafa gert það fyr, þar sem svo langt er umliðið síðan till. kom fram. Hann sagði, að það hefði verið gert upp við hr. Tofte á „vissan máta“. Jeg veit nú, að honum voru greiddar 70 þús. danskar krónur. Þótt þetta heiti kanske ekki eftirlaun, þá er þetta þó gert með samþykki bankaráðsins. Jeg álít, að þetta hafi alls ekki verið rjett gert, því að hann bar að miklum hluta ábyrgðina á óförum bankans og öllu þessu ólagi, og jeg efast stórkostlega um, að hæstv. forsætisráðherra geti forsvarað allar gerðir sínar í þessu máli. (Forsrh. SE: Jú, áreiðanlega!).

Hann sagði, að stjórnin hefði ekki gengið í ábyrgð fyrir láni Landsbankans til Íslandsbanka. Þó kom fram hjá honum, að stjórnin mundi hafa komið þar allnærri. Enn fremur, að stjórnin hefði gefið loforð um nýja seðlaútgáfu. þetta var nú hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) búinn að upplýsa um áður, svo þess var nú vart þörf aftur. Jeg skil ekki, hvernig eigi að fara að skýra það, að ekki hafi með þessu verið gerð skipun á seðlaútgáfunni, og skil ekki heldur, að þess hafi þurft með. En verði seðlar gefnir út undir slíkum kringumstæðum, þá er seðlaútgáfan óbeinlínis í höndum Íslandsbanka.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) dró inn seglin og hefir verið á undanhaldi síðan um daginn. Hann gat um samninginn milli bankanna og taldi það ekki hafa verið lán, sem Íslandsbanki fjekk hjá Landsbankanum, og tilfærði dæmi um sparisjóðsfje. Það heitir nú og innlán, en Íslandsbanki má alls ekki taka við sparisjóðsfje, og er ekki sambærilegt við samning þennan milli bankanna. Það er ekki það sama, þó að jeg eða hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) færum að leggja þar inn fje. Um það verður enginn sjerstakur samningur gerður. Hjer var gerður samningur milli bankanna með vilja og samþykki stjórnarinnar. Þetta er því lán, og er það þá annað stóra lánið, sem Íslandsbanki fær hjá ríkinu. Þetta getur hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) ekki hrakið, þótt hann hins vegar reyni að verja þessir gerðir stjórnarinnar.

Annað atriði var það í ræðu sama hv. þm. (JÞ), að honum þótti það ósennilegt, að þegar Íslandsbanki hætti að innleysa seðla sína erlendis, þá hafi það haft áhrif á úttekt úr bankanum. Jeg vil leyfa mjer að staðhæfa, að þegar þetta frjettist hingað, þá hafi þegar verið teknar út 2 milj. kr. úr bankanum, og það nokkru áður en greinar fóru að birtast um þetta í blöðunum.

Hann sagði, að Landsbankinn hefði áður gert það sama, og ekki orðið að meini. Þetta er alls ekki sambærilegt. Landsbankinn hefir seðla í umferð um 3/4 milj., en Íslandsbanki um 10 milj. kr., og sjá allir, hversu sá samanburður er rangur og villandi. Eða hvaða áhrif ætli 3/4 milj. kr. geti haft á móts við 10 milj. kr.?

Þá neitar hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) því, að bankinn hafi á uppgangstímunum gerst djarfari til þess að lána. En þóttist hafa aðeins sagt, að menn hefðu gerst djarfari í því að taka verslunina í sínar hendur, einkum útflutningsverslunina. En hann sagði líka, að bankarnir hefðu verið miklu djarfari að lána einmitt í því sambandi, og er það rjett. En ekki var alt það fje lánað íslenskum mönnum, og mun líka hæsta tap Íslandsbanka vera hjá einum útlendum manni.

Þá sagði hann, að flm. hefðu lýst yfir því, að þeir vildu ekki veikja traust bankans, en skaut þó þar inn í, að það ætti ekki við mig. Sagði hann, að jeg hefði verið brosleitur, er jeg var að líkja Íslandsbanka saman við Landmandsbankann danska. Hann var nú heldur ekkert óánægður sjálfur hjer um daginn, þegar hann flutti varnarræðu sína fyrir Íslandsbanka og neri saman höndunum af ánægju. En mjer láðist þá að spyrja hann, hvort hann væri hluthafi í bankanum.

Hv. þm. Dala. (BJ) var með mikinn reiðilestur yfir mjer. En það kom ljóst fram hjá honum, eins og líka áður hjá hæstv. forsrh. (SE) og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að þeir vilja alls ekki leyfa þm., hvorki opinberlega eða leynilega, að athuga hag Íslandsbanka. Þeir hafa áður komið í veg fyrir, að þetta yrði gert leynilega, sem þeir nú vilja banna opinberlega.

Það er eðlilegt, að þm. sje áhugamál að fá að vita eitthvað um þessa hluti, er margsinnis hefir verið skorað á þá á þingmálafundum víðs vegar úti um landið að láta athuga þessar tryggingar frá hendi bankans, og það er orðin almenningskrafa um alt land. Skyldi þá ekki þessum sömu þm. verða það mikil ánægja að koma svo heim í sín kjördæmi, og verða að segja: Við fengum ekkert að sjá?

Það eru einmitt þeir þm. Dala. (BJ). 3. þm. Reykv. (JÞ) og hæstv. forsrh. (SE), sem auka ófriðinn um bankann. með allri þessari miklu leynd á öllu, sem honum við kemur, og með því að koma í veg fyrir rannsókn.

Hv. þm. Dala. (BJ) segir, að enginn hafi beðið forsætisráðherra um skýrslu. Jeg veit ekkert um, hvað rjett er í því, en þó má þetta vel vera.

Þá var hv. þm. Dala. (BJ) svo hæverskur að láta á sjer skilja, að hann væri ekki ófús að vinna að einhverri skýrslu, og trúa allir, er hann þekkja, að svo muni og vera.

Jeg sagði, að tap bankans hefði runnið mest til útlanda. Þessu hefir hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) játað, en þm. Dala. (BJ) neitað, og taldi það alt runnið til innlendra manna og fjelaga.

Skipafjelagið „Levanta“ mun nú ekki algerlega hafa verið innlent, og alt tap þess rann til útlendra manna. Þá má líka minna á Copland, og ef ætti að fara að skilgreina alt, sem til innlendra manna hefir runnið, og hvernig, þá mætti vel líkja þessu við tap Landmandsbankans danska; þar var tapið mest á innlendum mönnum, en rann til útlanda.

Þá voru það eftirlaunin, sem hv. þm. (BJ) talaði um og kallaði smáráðstöfun, sem þingið varðaði ekkert um og gæti ekki krafist skýrslna um, þótt stungið væri um 100 Þús. kr. í vasa hins fráfarna bankastjóra. En þá er skörin farin að færast upp í bekkinn, ef þingið varðar ekkert um slíkar ráðstafanir sem þessar. Hv. þm. Dala. (BJ) mistókst fyndnin, þegar hann í þessu sambandi var að líkja mjer við hænu, sem altaf væri að unga út eggjum. En mjer finst miklu nær að segja, að bankaráð Íslandsbanka sje hæna, sem liggur á hinum óttalegu leyndardómum Íslandsbanka, og sem líklegast eru tóm fúlegg.

Þá sagði hv. þm. Dala. (BJ), að jeg hefði farið rangt með, er jeg gerði samanburð á Íslandsbanka og Landmandsbankanum. En jeg færði full rök fyrir máli mínu, og treysti hann sjer ekki til að hrekja þau á neinn hátt. Það komst upp með Landmandsbankann, að reikningarnir voru látnir sýna annan hag en var í raun og veru. Það var víst eitthvað í svipaða átt með reikninga Íslandsbanka. Nú hefir einn bankastjóri Íslandsbanka lýst því yfir á opinberum fundi, að bankinn hafi engu tapað síðan 1920. En á því ári báru reikningarnir ekki með sjer neitt því líkt tap, sem síðan hefir komið fram, að þá hafi verið orðið. Ætli þetta sje ekki svipað og um Landmandsbankann, og ef reikningar hans hafa verið falsaðir, þá veit jeg ekki, hvað jeg á að segja um reikninga Íslandsbanka.

Þá var þessi hv. þm. (BJ) að víta það, að menn hefðu verið hjer á árunum að telja fólk á að taka fje sitt út úr Íslandsbanka og leggja það inn í Landsbankann. En þar sem Landsbankinn er af ríkinu viðurkend trygg stofnun, þar sem ákveðið er, að þar skuli ávaxta sjóði opinberra stofnana, og að sá banki á auk þess að hafa sparisjóðsfje, þá er það fyllilega rjettmætt, þótt fólk væri heldur eggjað á að hafa fje sitt þar. Auk þess er það algerlega bannað, að Íslandsbanki taki sparisjóðsfje.

Næst kom hv. þm. (BJ) að því, að það væri traustsyfirlýsing á Íslandsbanka, að Landsbankinn hefði lánað honum fje. En þetta fer alveg í öfuga átt, því Landsbankinn setti skilyrði fyrir láninu; og að hann vildi ekki lána skilyrðislaust, sýnir og sannar, að hann telur Íslandsbanka ekki tryggan. Hefir Landsbankinn áður lánað Íslandsbanka fje án þess að setja þetta skilyrði um tryggingu, svo að ætla má, að álitið hafi versnað síðan.

Hv. þm. Dala. (BJ) fullyrti, að nóg veð væri fyrir öllum lánum Íslandsbanka. En ef svo er, sem óskandi er að sje satt, hvers vegna er þá þessi múr utan um bankann, svo að þm. mega ekki fá neina vitneskju frá bankanum? Það er þetta, sem einna mest bendir á, að ekki sje alt með feldu.

Þá er jeg kominn að þeim kafla í ræðu hv. þm. (BJ), er hann tók að fara ýmsum vel völdum orðum bæði um mig og aðra, sem ekki vildu taka skýrslu hans trúanlega. Mjer þykir nú að vísu engin furða, þótt hv. þm. (BJ) sje sár út af þessu, því þeir, sem kunnugastir honum eru, segja, að hann trúi því enn sjálfur, að skýrslan sje góð og gild. En þótt hann yrði nú beinskyrtur, sem oft vill henda hann, þá var óþarfi af honum að álasa mjer, því að mín orð voru mjög svo hógværleg. Til þess að fá þessi málblóm hans á sama stað, skal jeg telja upp nokkur þau helstu, svo sem: óskammfeilni, svigurmæli, falskar skýrslur, vísvitandi rógburður, og fleira líkt þessu.

Það er ekki í fyrsta sinn, sem þessi hv. þm. (BJ) notar rangfærslur og ókvæðisorð í ræðum sínum, enda eru það helstu rökin, sem þessi hrokafulli þinggikkur hefir fram að bera.