20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (3127)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Bjarni Jónsson:

Frsm. þessa máls (SvÓ) virtist í dag byggja svo mikið á hag Íslandsbanka, að á honum ylti, hvernig gengið væri í landi hjer. Jeg hygg ofmælt, þó að Íslandsbanki sje að vísu stór og mikil stofnun á vora vísu, að hann ráði öllu um gengið. Annars hefir hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) tekið þetta svo skýrt fram, að jeg þarf engu við að bæta.

Jeg vil leyfa mjer að gera athugasemd við eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), sem kom ekki málinu við. Jeg tel hv. þm. hafa verið of harðorðan í garð sumra af flutningsmönnum þessarar tillögu, er hann kvað ummæli hv. frsm. (SvÓ) geta átt við þá sjálfa. Jeg hygg, að þau orð geti ekki átt við marga, og hafi hv. þm. (JÞ) talað þau í garð þess manns, sem mjer hefir flogið í hug, get jeg skýrt hv. þm. frá því, að þau eru algerlega ómakleg. Þessi maður hefir að vísu orðið fyrir stórtjóni, en þar er öðrum um að kenna, fremur en honum. Hefði hann mátt ráða, mundi hagur hans standa nú með miklum blóma. Annars hafa umræðurnar verið mjög hógværar, nema af hendi þeirra manna, er hafa tekið að sjer að sýna oss smámennunum, að vjer skyldum ekki hreykja oss hátt.

Mjer þótti vænt um að heyra, að hv. 1. þm. Ám. (EE) afsakaði, að hann skyldi hafa gerst meðflutningsmaður þessarar tillögu, sem von var, þegar hann sá, að aðrir flutningsmenn hennar lögðu frekari skilning í hana en hann hafði gert. Hv. þm. (EE) talaði um orðróm, er berja þyrfti niður. En þá er að gæta að, hvort þetta sje rjetta ráðið til þess. Jeg hygg og, að hv. þm. hafi ekki aðgætt, hvaðan orðrómur þessi stafar og hverjir hafa gengið best fram í að breiða hann út. Jeg get þá bent hv. þm. (EE) á það, að orðrómur þessi er runninn frá 2 blöðum, er standa mjög nálægt þeim flokki, er flytur tillöguna. En þetta er ekki í fyrsta sinn, að menn vekja upp draug, er þeir hafa ekki mátt til að kara. Og áður fyr var sú raunin á, að þegar galdramenn vöktu upp draug, sem þeir gátu ekki kveðið niður aftur, snerist draugurinn gegn þeim sjálfum.

Jeg skil ekki, við hvað hv. þm. (EE) hefir átt með samanburði sínum við sjúkrahús, nema hann hafi hugsað til þess reginrógs, er var látinn dynja á Vífilsstaðahælinu. Sá rógur hefir nú orðið sjer til skammar við rannsóknina á hælinu, og hafa kunnugir menn sagt, að fáar svipaðar stofnanir mundu hafa getað sýnt jafnhreinan skjöld við þvílíka rannsókn. Hv. þm. (EE) telur ef til vill, að þessar árásir og rannsóknir muni hafa bætt stofnunina, en það á alls ekki við um banka. Og styrktarmönnum stjórnarinnar er síst ástæða til að vefengja, að hún hafi gætt hagsmuna landsins gagnvart bankanum og sjeð um, að hann setti nægar tryggingar fyrir því fje, sem honum er trúað fyrir. Auk þess hefir hæstv. forsrh. (SE) skýrt frá, að tryggingin fyrir enska láninu hefði verið aukin, og væri nú hálfu meiri heldur en þegar lánið var veitt.

Þá sagði sami hv. þm. (EE), er mjer þótti skemtilega mælt, og sjálfsagt rjettilega, að ekki mundi verða auðið að komast að nokkurri niðurstöðu um hag slíkrar stofnunar, því að jafnan mundi það orka tvímælis, hve mikils virði tryggingarnar væru, hverjir skuldunautar gætu greitt skuldir sínar og hverjir ekki. Þetta mun vera rjett; reynslan ein verður að skera úr, hvers virði hver og ein skuld er. En þó komst hv. þm. (EE) að þeirri niðurstöðu síðar í ræðu sinni, að einhverri niðurstöðu yrði að ná, þó að óhugsandi væri að komast að nokkurri niðurstöðu. Þetta kalla jeg hreystisvar, en það kemur ekki alveg heim við það, er hann sagði áður.

Þá gat hv. þm. (EE) þess, að talsverður hiti væri kominn í umræðurnar. Jeg veit ekki, hvernig hv. þm. metur þennan hita. Mjer virðast allir ræðumenn hafa verið svo einstaklega spakir, sumir hafa meira að segja verið svo vænir að segja mjer til siðanna, og hafa sjálfsagt ætlað að gera það ókeypis. Og þó að jeg kunni að borga þeim eitthvað lítillega fyrir það áður en jeg sest niður, er það meira en þeir væntu og hafa mælst til.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. Reykv. (JB), er var bæði skemtilegur, fyndinn og yfirlætislaus, eins og allir þekkja. Það er svo sem munur eða gikkirnir. Hann var að vefengja, að tryggingarnar væru góðar. Það væri annars nógu gaman og fróðlegt fyrir hann að lesa síðustu lög Alþingis um þessar tryggingar. Þar er ekki heimtuð nein trygging; hún er því umfram það, sem lögin krefjast.

Auk þess hefir bankinn þessa víxla og kröfur til tryggingar ásamt veði í eignum manna, fasteignum, svo sem húsum, lóðum og skipum. Er jeg þess fullviss, að þetta myndi, ef til kæmi, reynast nóg fyrir lánunum.

þá sagði hv. þm. (JB), og bar sannleikanum vitni, að drátturinn, sem væri orðinn á máli þessu, væri okkur að kenna, sem erum á móti till. Þetta sýnir best sjaldgæfa sanngirni þessa manns og óvenjulegt yfirlætisleysi, að hann skuli ekki, úr því hann lítur svo á þetta, fyrir löngu vera búinn að krefjast þess, að við þegðum, en hann einn talaði í málinu. Slík hógværð er sannarlega launaverð.

Þá gat jeg ekki annað en dáðst að nákvæmni hv. þm. (JB), er hann tók að tala um Tofte bankastjóra. Hann komst þar að þeirri niðurstöðu, að hann þyrfti að spyrja sjálfan sig um það, sem hann vissi áður. Njáll ljet segja sjer þrisvar það, sem honum þótti ótrúlegt, en hv. þm. vill heyra tvisvar frá sjálfum sjer það, sem hann veit áður, og verður hann því fremri Njáli í nákvæmninni. Má vera, að jeg víki frekar að því síðar, af hverju þessi nákvæmni hv. þm. (JB) stafar.

það kom fram í svörum hv. þm. (JB) til hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að hann lítur svo á, að það fje, sem lagt er inn á hlaupareikning, sje lán til bankans. Því sje þó ekki þannig varið, ef það er jeg eða hann, sem legg inn fjeð, heldur aðeins ef það er Landsbankinn, sem á hlut að máli. Ekki gat hann neitt um það, hvort þessu væri eins farið um alla aðra banka, og bætir hann það vonandi upp síðar og lofar okkur að njóta hjer frekar bankavisku sinnar.

Þá flutti þessi hv. þm. (JB) þá nýstárlegu kenningu, að samþykki eins manns sje sama og ábyrgð hans. Lítur hann svo á, að samþykki landsstjórnarinnar sje sama og ábyrgð hennar á því fje, sem Íslandsbanki fekk hjá Landsbankanum. Það er tilhlökkunarefni, er þessi hv. þm. (JB) er orðinn bankastjóri, hversu þessi nýja lánsaðferð hans hlýtur að ljetta á mörgum vafstri og óþægindum. Þá getur manni nægt, er maður ætlar að taka lán hjá þeim nýja bankastjóra, að fá samþykki einhvers góðs manns og óþrætugjarns um, að rjett sje að taka lánið. Hinn víðsýni bankastjóri myndi taka það sem ábyrgð, en hins vegar ólíkt auðveldara að fá menn til að láta samþykki sitt í tje en ábyrgð sína.

Þá talaði hv. þm. (JB) um það, að þegar bankinn hætti að leysa inn seðla sína erlendis, þá hefðu menn hlaupið til og tekið út í einu kasti um 200 þúsund krónur, áður en hann og hans fræga blað fengi færi á að leggja sitt til málanna. Lá hann bankanum mjög á hálsi fyrir þetta, og kvað hann með því hafa valdið hinu mesta tjóni. Hjer var þó um mjög eðlilegan hlut að ræða. Bankinn hlaut að hætta að yfirfæra af þeirri ein földu ástæðu, að miklu meira fje var flutt á milli en hann gat annað. Annars ætti þessum tilvonandi bankastjóra að vera það kunnugt, að bankar eru yfir höfuð ekki vanir að hafa þetta fyrirkomulag. Seðlar þeirra eru yfirleitt keyptir eins og hver önnur vara.

Skakt er það hjá hv. þm. (JB), að menn hefðu hætt um stund að hefja inneignir sínar í bankanum, af því, að ekki væri til neins að senda út seðlana. En hitt er jafnvíst, að þegar hann, þessi fjármálavitringur, fór að skrifa í sitt þjóðnýta blað um málið, þá tóku margir að hefja þar inneign sína og flytja hana yfir í Landsbankann. Þá fól bankaráð Íslandsbanka mjer að semja skýrslu um hag bankans. Þegar hún kom út, og það varð augljóst, hve miklu hafði verið logið í blaðinu, kiptu menn þegar að sjer hendinni. Hefir helsti maðurinn og ráðvandasti í flokki hv. þm. metið þessa skýrslu mína 600 þúsund króna virði fyrir bankann. Gerði hann þetta á fundi nú nýlega, og tel jeg mjer það til gildis, að hafa getað komið svo góðu til leiðar, bara með því að segja satt um hag bankans. því ekki gerði jeg annað en að segja eftir bestu vitund frá því, sem var, og því, sem unt var að geta sjer til með mestum sanni.

Þá kvartaði hv. þm. (JB) undan því, að jeg og skoðanabræður mínir í þessu máli vildum hvorki að hagur bankans yrði rannsakaður opinberlega nje í kyrþey. Það kemur hjer ljóslega fram, að menn geta svo títt iðkað eina vissa andlega íþrótt, að þeir að lokum viti ekki sjálfir, hve nær þeir eru að fremja hana. Þessi athugasemd þm. er svo fjarri, sem nokkur hlutur getur verið, að jeg eða aðrir hjer sjeu á móti því, að hv. þm. kynni sjer hag bankans. Bankinn hefir sjálfur lýst yfir því, að þm. sje velkomið að kynna sjer hag hans, og skuli þeim látin í tje öll þau plögg, sem þeir æskja. Mun hann hafa gert þetta í því skyni að sefa þessa miklu óró hv. þm. Hitt verð jeg einnig að fullyrða, að hvorki jeg nje hinir bankaráðsmennirnir hafa lagt neinn stein í götu hv. þm. í því efni. Veit jeg ekki, hvernig þessi hv. þm. treystir sjer til að kvarta um mótstöðu okkar í þessu tilliti, þar sem honum hefir ekki til þessa hugkvæmst það, að snúa sjer til bankaráðsins og leita fróunar sinni óttaslegnu fjármálasálu. Að því er jeg veit best til, hefir hann ekki enn mælst til þess, að bankaráðið gæfi nokkra skýrslu um hag bankans. Jeg efast jafnvel um, að hann hafi nokkurntíma spurt fyrverandi fjrh. (MagnJ) um, hve traustar myndu tryggingamar fyrir láninu. Þar var þó ráðherra, sem hv. þm. studdi, og átti hann greiðan aðgang að honum. Nei; hv. þm. (JB) kaus heldur þessa leiðina. Og af hverju? Af því, að hann langaði til að láta ljós sitt skína nú rjett fyrir kosningamar og sýna landsmönnum, hvað hann, af landsföðurlegri umhyggju sinni, hefði gert til að bjarga landinu.

Hv. þm. (JB) vitnaði í fundargerð þingmálafundar, sem nýlega hefði verið haldinn. Kvað hann hana bera vitni um það, að almenningi væri ekki rótt að vita ekki nánar um hag bankans. En af hverju er það? Af því, að þessi hv. þm. og aðrir honum jafnsnjallir stjórnmálaspekingar, hafa þyrlað upp þessu moldviðri í málgögnum sínum. Og þessi till., sem hjer er komin fram, er bara afleiðing þeirra óhljóða, sem þessir menn hafa fylt loftið með upp á síðkastið. Moldviðrið er nú komið inn í þingið, á þann hátt, að þessir hv. þm. hafa að lokum orðið hræddir við sitt eigið bergmál — bergmálið af hrafnagargi sínu í eyru kjósendanna um fjárhagslegt hrun bankanna og landsins.

Hv. þm. (JB) sagði, að það værum við, sem sköðuðum bankann með þeirri leynd, sem við vildum halda yfir honum. Það sætir undrum, hve vel honum láta öfugmælin, þessum hv. þm. (JB). Það sanna er, að enginn banki mun finnast á þessum hnetti, sem er eins opinskár um hagi sína og Íslandsbanki. Því svo lítur út, sem hver maður telji sig eiga hann og hafa tilkall til að stjórna honum að sinni vild.

Fyndnistilraun háttv. þm. (JB) og orð hans hvað snerti fúsleik minn og formanns bankaráðsins til að gefa út aðra skýrslu nýja, svara jeg aðeins því, að jeg er fús að gefa aftur skýrslu, ef þess verður beiðst. Annars ráðlegg jeg þessum hv. þm. (JB) að hætta sjer ekki út á hina hálu braut fyndninnar á hrossleggjum sínum. Og á rangar skýrslur ætti hann síst að minnast, því líklegra tel jeg, að hans skýrslur um æfina verði vænlegri til vefengingar en mínar.

Þá var hv. þm. (JB) eitthvað að þvarga um, að fje það, sem bankinn hafi tapað, hafi að mestu lent í höndum erlendra manna. það má náttúrlega teygja hvert mál og skekkja, alt eftir því, sem hverjum manni endist til vitleysa eða samviskuleysi. En það sanna í þessu máli er, að þetta tapaða fje bankans hefir að mestu leyti lent í vösum landsmanna sjálfra. Ættu þeir því ekki að æpa að bankanum sem argandi kríur fyrir þá sök.

Jeg veit annars ekki, hvort þessi hv. þm. (JB) hefir skilið það, sem jeg hefi sagt honum áður, að skaðinn, sem landsmenn hafa beðið, er miklu meiri en tap bankans. Ef ekki væri um annað tap að ræða en tap Íslandsbanka, þá mætti með meiri líkum segja, að hann einn væri sök í gengishruninu. En svo er ekki. En orsakir eru til gengishrunsins, og fleiri en ein. Ber þar ekki síðast að telja þennan hv. þm. (JB) og aðra menn jafnsnjalla honum, sem hófu þessar árásir á bankann og ljetu bergmála um alt landið þessi náhljóð sín. Það eru þessir menn, sem hófu þennan fjárhagslega harmagrát á versta tíma, það eru þessar „pólitísku“ grátkonur í karlmannsbuxum, sem hafa fyrst og fremst felt gengi íslensku krónunnar. Harmakvein þeirra hafa náð eyrum útlendinga, því nú er eigi lengur svo sem áður var, að hægt sje að tala hjer og skrifa eins og menn lystir, án þess að umheimurinn fái vitneskju um það. Nú skilja margir erlendis íslenska tungu, sem minna var um áður. Blöðin þar verða einnig stundum gripin af málsníkjunni og eru engu síður sólgin í hneykslissögur en blöð vor. Þessum þjóðnýtu mönnum hefir því gengið vonum betur að grafa ræturnar undan tiltrú Íslands meðal erlendra þjóða. Það er ekki furða, þótt slíkir menn hreykist og þykist góðir af starfi sínu fyrir föðurlandið. Þessi viðleitni þeirra hefir sannarlega borið sýnilegan ávöxt. Annars mætti margur, sem hlýddi á ræðu þessa hv. þm. (JB) í dag, ætla, að hann sje annaðhvort ekki jafnvitur og hann heldur, eða jafnsannleikselskur. Og ekki kæmi mjer á óvart, þótt einhver kynni að ímynda sjer, að hann væri hvorugt.

Þá kem jeg að samanburði hv. þm. (JB) á Íslandsbanka og Landmandsbankanum. Þarf jeg í rauninni ekki að árjetta aftur neitt í því efni, því hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir nú nýlega tekið til máls og hnekt með fullum rökum staðleysuorðum hv. þm. (JB). Hann þóttist verða hart úti, er jeg kallaði það ósvífni að bera hjer á bankastjórn Íslandsbanka, að hún ofsæki einstaka menn hjer í bænum. En sjálfur leyfir hann sjer að fullyrða, að bankastjórnir og fulltrúaráð bankans hafi falsað reikninga hans. Ef þetta heitir ekki að nota sjer þinghelgina, þá veit jeg ekki, hvað má kallast því nafni. Og ef hv. þm. (JB) segði þetta annarsstaðar en hjer, og það væri látið ganga hæstarjettarleiðina, þá leið, sem honum og sumum flokksbræðrum hans er fremur lítið um, þá kynni hann að komast að raun um, að tungan getur orðið dýr limur.

Og hvernig er nú þessu tvennu farið, sem hv. þm. (JB) jafnar saman? Í Landmandsbankanum var settur inn nýr liður til þess að hylja það, sem þurfti að hylja. Íslandsbanki, segir hv. þm. (JB), hefir tapað miklu árið 1920, en þó standi ekki neitt tap í reikningum þess árs. Og þessu jafnar hann saman, þessi Kvásir fjármálanna. þyrfti ekki að rjettu lagi að gera einhverjar öryggisráðstafanir til að forða því, að slíkir menn kafni í bankaviti sínu eða logi upp af sannleiksást? Hvernig mátti Íslandsbanki færa skuldir manna sem tap inn í reikninga sína, fyr en hann var viss um, að þær borguðust ekki? Slíkt væri sannarlega að falsa reikningana, ef hann hefði þetta á hinn veginn. Eða heldur hv. þm. (JB), að sjeð verði á einum degi, hvort stærðar framleiðslufyrirtæki geta staðið í skilum eða ekki? Nei, það var ekki sökum fölsunar, heldur af mjög eðlilegum ástæðum, að tapið 1920 kom ekki til reiknings fyr en síðar.

Þá sópaði ekki lítið að hv. þm. (JB), er hann var að sýna fram á það, að eðlilegt og sjálfsagt hefði verið, að menn tækju peninga sína úr stofnun, sem væri að hrynja, og flytti þá yfir í bankastofnun landsins. En um leið sagði hann þó, að seðlarnir væru einskis virði. Búhnykkurinn var þá í því fólginn, að landsmenn svíkja einskisverða seðla inn á sína eigin stofnun. Það, sem helst bregður skugga á þessa fögru hugsjón hv. þm. (JB), er það, að honum hefir hjer orðið það á, að gera sig sekan í „hringavitleysu“, sem á latnesku máli heitir „circulus vitiosus“. Er það óneitanlega skaði um svo veglega björgunarráðstöfun, að hún skuli bíta í skottið á sjálfri sjer. En af þessu má marka, hve miklu góðu þessi hv. þm. (JB) myndi koma til leiðar, ef hann hefði lítið eitt meira vit. Hjer hefir hann bara reist sjer hurðarás um öxl, og því mist tökin á hugsjónarbákninu. Þegar hann vildi svo breiða yfir mistökin með sinni venjulegu orðaflækju, þá varð netið of stórriðið, eins og önnur heilavinna hv. þm. (JB), svo skein á hringavitleysumar í gegnum götin.

Þá kom hv. þm. (JB) aftur að skýrslu minni um hag Íslandsbanka. Kvaðst hann nú virða mjer það til vorkunnar, að jeg hefði haldið, að að hún væri rjett. Jeg held því fram, að hún sje rjett. Talsverður hluti hennar hlaut að vera nokkurskonar framtíðaráætlun, en um það veit enginn með neinni vissu, hvað framtíðin kann að bera í skauti sjer. Jeg gerði allar áætlanir mínar þar eftir bestu vitund, en fór bara eins og öðrum á þeim tímum, að giska ekki rjett á í öllum greinum. Og jeg verð að halda því fram, að framtíðaráætlanir þessa hv. þm. (JB) í þeim efnum hafi ekki staðið fastari fótum en annara. En það má vera, að þetta sje gikksháttur og hroki af mjer, að ganga svo langt, að bera slíkan mann saman við aðra, þótt honum hafi þóknast að bera upp á mig svik. Sjálfsagt er, að minni háttar maður sem jeg eigi að þola þeim manni nokkuð, sem lýstur sjálfan hæstarjett með sínu orði og segir, að hann kveði upp ranga dóma. Ekki er það þá heldur tiltökumál, þótt slíkum manni leyfist að bera hjer upp á menn, sem ekki eiga völ á að verja sig, að þeir gefi út falska reikninga. Um alla aðra myndi sjálfsagt vera sagt, að hjer væri þinghelgin notuð í frekara lagi. En öðru máli er að gegna, er það er slíkur maður, sem hlut á að máli.

Þá er það hv. þm. Ak. (MK), sem jeg vildi svara nokkrum orðum.*)

*) Niðurlag ræðunnar hefir fallið niður hjá skrifurunum.