20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (3132)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal ekki verða mjög langorður, til þess að verða þess ekki valdandi, að umræðurnar dragist langt fram á nótt. Enda eru umræður þegar orðnar alllangar og málið skýrt frá ýmsum hliðum.

Jeg verð að játa, að jeg varð mjög hissa, er jeg sá, að þessi tillaga hv. flm. var fram komin. Tilætlunin gat engum dulist. Hjer átti gagngerð rannsókn fram að fara á hag bankans. Og því meir undraðist jeg, er jeg sá, að meðal flutningsmannanna var einn bankamaður. Honum hefði þó átt að vera fullljóst, að það var allsómögulegt fyrir þingnefnd að framkvæma slíka rannsókn á þeim stutta tíma, sem eftir var þings, þegar till. kom fram, og það þótt sú nefnd hefði ekkert unnið að þingstörfum á meðan.

Hins vegar skil jeg vel, að hv. flm. hafi þótt ástæða til að flytja tillögu um einhverskonar rannsókn, eftir að jeg hefi heyrt yfirlýsingu hv. þm. V.-Sk. (LH) um, að fjármálaráðherrann hefði skýrt Framsóknarflokknum frá, að hann hefði engan aðgang að bankanum, til að rannsaka hag hans eða tryggingar ríkissjóðs fyrir enska láninu. Það er því afsakanlegt og skiljanlegt, að slík tillaga kæmi fram, þegar slík yfirlýsing var gefin af þeim ráðherra, sem átti að hafa eftirlit með tryggingunum fyrir láni ríkissjóðs til bankans. En nú hefir það komið í ljós, að sumir hv. flm., og þar á meðal hv. frsm. (SvÓ), hafa fengið aðrar upplýsingar eftir að till. kom fram. í fyrri ræðu sinni gaf hv. frsm. (SvÓ) fulla ástæðu til að ætla, að hjer væri um raunverulega rannsókn að ræða, en nú hefir hann dregið í land, eftir að hann sá, að forsendur þær, sem fjármálaráðherra gaf flokknum, voru ekki rjettar og að rannsókn, eins og till. fer fram á, er óframkvæmanleg. Nú vill hann taka gildar allar yfirlýsingar, sem hinir stjórnskipuðu bankastjórar vilja gefa stjórn og þingi.

Það mætti ef til vill gera ráð fyrir, að svo væri litið á, að það hefði einhver áhrif á skoðun mína í þessu máli, að jeg er starfsmaður við eina deild Landsbankans. En svo er ekki, og skal jeg taka það fram, að stjórnendur Landsbankans hafa aldrei reynt að hafa áhrif á framkomu mína í stjórnmálum. Hinu skal jeg lýsa yfir frá eigin sjónarmiði, að jeg álít, að það yrði til ógagns, einnig fyrir Landsbankann, ef þessi till. verður samþykt. Kæmi það fyrir, að traustið á Íslandsbanka væri veikt svo mjög, að hluthafarnir óskuðu að láta bankann hætta að starfa, þá væri það sama og að loka öðrum lánsstofnunum. Það er hætt við, að lánstraust ríkisins reyndist ekki svo mikið, sem þyrfti, til að halda öllum viðskiftum áfram, að minsta kosti ekki nú sem stendur, þó að vonandi sje, að það verði betra í framtíðinni. Þeir menn, sem virðast hafa það að markmiði að koma Íslandsbanka fyrir kattarnef, hafa bersýnilega ekki gert sjer grein fyrir afleiðingunum. En þær virðast auðsæjar, því að þá yrði alment hrun. Færi svo, að eignir viðskiftamanna bankans væra yfirleitt settar á uppboð, þá er fyrirsjáanlegt, að innieigendur í Landsbankanum og öðrum peningastofnunum, tækju út sparifje sitt, til þess að kaupa við sárlitlu verði eignir hinna ógæfusömu viðskiftamanna Íslandsbanka, auk alls annars fjárhagsböls og atvinnuleysis, sem af lokun bankans leiddi.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) vildi gera samanburð á ástandinu í Íslandsbanka og í Landsmandsbanken. Hv. þm. Dala. (BJ) hefir nú bent á, að það sje ekki sambærilegt, og vil jeg undirstrika, að það er mjög ólíkt, sem betur fer. Bankastjórarnir í Landmandsbanken „spekúleruðu“ með fje bankans, að því er virðist í eigin hagsmuna skyni, en slíku er ekki til að dreifa með bankastjóra Íslandsbanka.

Jeg vil nú leyfa mjer, út af ummælum blaðs eins hjer í bænum, að fara nokkrum orðum um tap, sem varð við útibú Landsbankans á Ísafirði 1919. Blaðið virðist hafa reiðst út af því, að jeg varð nokkuð harðorður í eldhúsdagsumræðunum við þáverandi fjármálaráðherra (MagnJ), og segir, að jeg ætti fyrst að gera hreint fyrir mínum dyrum og borga tap, sem orðið hafi við útibúið, áður en jeg vítti aðra.

Jeg skal nú skýra hv. deild frá orsökunum til síldartapsins á Ísafirði 1919.

Í stríðslok var það álit allra, að mjög mikill feitmetisskortur yrði hjer í álfunni, og því myndu allar feitmetisvörur hækka mjög í verði, enda hafði síld og lýsi stöðugt haldið áfram að hækka. Sjerstaklega var vitanlegt, að í Þýskalandi og Rússlandi var lítið um feitmetisvöru. Því var það, að margir menn, fleiri en áður, gerðu nú út á síld, og aflinn varð óvenjumikill. Þegar kom fram í september, fer að koma í ljós, að vafasamt væri, hvort Þýskaland og Rússland gætu keypt síld, vegna skorts á erlendum gjaldeyri. Þar við bættist, að Finnar bönnuðu innflutning á síld, vegna þess að þeir vildu nota ljelegri vöru, veidda af landsmönnum sjálfum, til að losna við að þurfa að greiða erlendan gjaldeyri og til að hjálpa innlendum síldveiðum. Alt þetta kom í svo skjótri svipan, að þeir, sem seldu ekki í ágústmánuði, gátu alls ekki selt.

Svíar, sem eru ein hin mesta síldarneytenda- og síldarsöluþjóð, höfðu þá þegar keypt mikið af íslenskri síld, svo mikið, að óhugsandi var, að hún yrði öll notuð í landinu. Þeir sáu því fyrir stórskaða á kaupunum og reyndu með öllu móti — má óhætt segja með rjettu og röngu — að losna við gerð kaup, og því miður voru „Slutseðlar“, sem gerðir voru í Kaupmannahöfn af miðlarafirma þar, svo rúmir, að þeim tókst það í mörgum tilfellum. T. d. fóru þangað frá Ísafirði 3000 tunnur, sem seldar voru til firma í Gautaborg, og minna en ekkert fekst fyrir.

Þetta var gersamlega ófyrirsjáanlegt, og má meðal annars marka það á því, að öll hin gömlu síldarsölufirmu í Svíþjóð töpuðu stórfje á íslensku síldinni, flest þeirra svo, að þau hafa ekki rjett við síðan.

Þeir menn, sem útibú Landsbankans á Ísafirði tapaði stórlega hjá á síldinni 1919, voru í ársbyrjun mjög vel efnum búnir og dugandi útgerðarmenn. Það eina tilboð, sem þeir höfðu, var um sölu á ca. 1200 tunnum af reknetasíld, en þar sem það var besti hluti síldarinnar, þótti viðsjárvert að selja þessa bestu síld út úr heildinni, ca. 10000 tunnum, því álitið var, að reknetasíldina væri altaf auðvelt að selja.

Það má nú ef til vill kenna mjer um, að þessar 1200 tunnur voru ekki seldar, því jeg var þess ekki hvetjandi. En jeg neita því fastlega, að hjer hafi verið um nokkra „spekúlation“ að ræða frá minni hendi. Þessir menn veiddu með eigin skipum og keyptu ekki síld af öðrum. Þeir seldu 3000 tunnur með tapi, svo þær hefðu betur verið óseldar; en jeg skal gjarnan taka á mig, ásamt þeim. ábyrgðina á því, að þeir seldu ekki þessar 1200 tunnur, þegar þeir gátu það. Meðstjórnendur mínir við útibúið eru lausir við alla ábyrgð í því efni.

Hins vegar setti jeg öllum, sem

„spekúleruðu“ í síld 1919, þ. e. keyptu síld af öðrum til verkunar og útflutnings, það skilyrði, að selja fyrir ágústmánaðarlok, því að víxlana átti að greiða 15. september.

Að jeg setti ekki þessum áminstu útgerðarmönnum sömu skilyrði, kom af tvennu:

1. Þeir voru vel efnaðir menn og útgerðin gekk ágætlega. En það var, því miður til stórskaða, því ef þeir hefðu aflað lítið, þá hefði skaðinn ekki orðið þeim tilfinnanlegur; en af því að aflinn varð um 12000 tunnur hjá þessum tveimur mönnum, varð 1 milj. kr. tap.

2. Jeg sá enga hættu á því, að síldin seldist ekki, og jeg hafði áður, á fyrri árum, látið þessa menn selja strax og útgerðarkostnaður fekst greiddur, en stórgróði hefði þeim orðið þá að bíða nokkru lengur. En meðan þeir voru lítt efnaðir, vildi jeg, að gætt væri frekustu varúðar.

Af þessu, sem jeg nú hefi sagt, vona jeg, að hv. þm. geti felt sinn dóm um tapið hjá bönkunum á síldveiðinni, því að líkt mun ástatt hjá öðrum bönkum.

En um það tilfelli, sem jeg hefi gert hjer að umtalsefni, skal jeg að lokum geta þess, að jeg vil ekki, að alt þetta umrædda tap útibúsins sje reiknað því til skuldar, þó að svo sje gert reikningslega, því að þar eiga aðrir líka talsverða sök á. Og það er ósatt, að jeg hafi gefið eftir 500 þús. kr. af skuldum útibúsins.

Jeg hefi komið með þessa skýringu af því, að sum blöðin hafa kallað þetta síldar-„spekúlation“.

Nú gætu sumir álitið, að jeg væri að bera hönd fyrir höfuð Íslandsbanka, af því að jeg væri sekur um það sama og hann, eða máske líka af því, að jeg er hluthafi í Íslandsbanka. En þegar fyrirspurnin um hlutafjáreign þingmanna í Íslandsbanka kom fram, sendi jeg hæstv. forsætisráðherra skýrslu um eign mína í honum. Eru það 1500 kr., sem jeg á þar, og er ólíklegt, að nokkur maður trúi því, að jeg sje hlutdrægur vegna þeirra.

Jeg óska, að samvinna og samkomulag haldist milli bankanna. Það er meir en nóg verkefni handa þeim báðum að vinna að viðreisn atvinnuveganna. Ef menn skiftast í flokka og fylkja sjer með harðvítugheitum á móti öðrumhvorum bankanna, þá mun það áreiðanlega hefna sín, ekki einungis á bönkunum, heldur fyrst og fremst á þjóðinni. þetta er ekki meint til hv. flutningsmanna, þótt vitanlega hafi ýms orð fallið hjer í deildinni, sem hefðu mátt vera ósögð.