20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3133)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jakob Möller:

Umræður um þetta mál hafa nú staðið 12 klukkustundir, og jeg verð að segja, að þetta þing hefir ekki varið tíma sínum ver í annað skifti. Jeg hefi hlustað gaumgæfilega á umr., og jeg verð að segja það, að þegar forseti hafði nærri slitið umræðum áðan, þá vissi jeg ekki, um hvað jeg átti að greiða atkvæði.

Jeg skildi till. svo, er hún kom fram, að ætlast væri til, að þingið framkvæmdi sjálfstæða rannsókn á hag Íslandsbanka. En hv. frsm. (SvÓ) gaf þá skýringu, að till. væri aðeins komin fram til að fá skýrslu frá bankastjórninni um hag bankans.

Jeg hefði nú ekkert verið hræddur við að greiða atkv. mitt með því, að skipuð væri nefnd til þess að rannsaka hag Íslandsbanka. Jeg held einmitt, að það væri eina ráðið til að koma á friði um þetta mál. Hins vegar skil jeg þó afstöðu þeirra manna, sem eru þessu mótfallnir. Þeir óttast það, að slík rannsókn kynni að verða hættuleg lánstrausti bankans erlendis. En tillaga þessi er komin fram fyrir hálfum mánuði, og vika liðin síðan byrjað var að ræða hana. Ef hún gæti haft einhver skelfileg áhrif á lánstraust bankans, þá væru þau áreiðanlega farin að koma í ljós.

Jeg held, að skipun nefndar hafi engar afleiðingar, hvorki út á við nje inn á við, nema þá að friða hugi manna. Jeg tel óþarft að óttast, að það gæti eyðilagt lánstraust landsins erlendis. Þó að lánstraust bankanna megi að vísu telja allmikið, eftir atvikum, þá er því þó þannig varið, að það mundi varla raskast við þetta. það er alkunna, að bankar flestra þjóða hafa við erfiðleika að stríða á þessum tímum, svo að enga mun undra, þótt hjer sje um hið sama ástand að ræða. Enda er það alkunna, bæði innanlands og utan, að Íslandsbanki hefir átt við slíka erfiðleika að stríða nú árum saman.

Það er von, að menn amist við rannsókn, ef þeir álíta, að það spilli fyrir bankanum. En ef rannsóknin leiddi það í ljós, að bankinn stæði tiltölulega vel og ekkert væri að óttast. Þá ætti rannsóknin ekki að spilla fyrir honum, heldur þvert á móti. Og jeg er sannfærður um það, að nefnd, sem nú væri látin athuga hag bankans, gæti ekki að loknu starfi látið unni annað álit en að hagur bankans væri tiltölulega góður.

En nú fara þinglausnir að nálgast, og á einum hálfum mánuði er ekki mikið hægt að gera. Það er ekki hægt nema með löngum tíma og ítarlegri rannsókn, að komast að alveg óyggjandi niðurstöðu í slíku máli. Og þó aldrei hægt til hlítar, vegna þess, hve tímarnir breytast.

það var undirstrikað hjá hv. þm. Ak. (MK), að skýrslur þeirra Bjarna Jónssonar og nefndarinnar 1921 hefðu aðeins verið miðaðar við yfirstandandi tíma. Þetta er alveg rjett. Og jeg vil undirstrika það enn frekar, að skýrsla Bjarna hafi verið alveg eins ábyggileg á sínum tíma eins og skýrsla nefndarinnar á þeim tíma, sem hún var gerð Bjarni gerði að vísu ekki ráð fyrir neinu tapi. Nefndin gerði aftur á móti ráð fyrir talsverðu tapi, en eins og það kom í ljós síðar, að bankinn hlaut að tapa, þó að ekki væri komið neitt í ljós um það 1920, þá getur það og komið í ljós síðar, að tap bankans verði meira en nefndin frá 1921 áætlaði, því segja má, að kringumstæðurnar breytist frá degi til dags, auk heldur frá ári til árs. Og margt hefir breyst síðan árið 1921. Hagur bankans fer auðvitað eftir því, hvernig fer með hag landsins í heild sinni. Er því hætt við litlum árangri af rannsókn nú, því slíkt sjest ekki fyrir með neinni vissu.

En það gæti verið mikið unnið við það, ef slík skoðun gæti orðið til þess, að allir landsmenn gætu orðið ásáttir um að efla hag bankans. Og ef sú hefði orðið lausn þessa máls, þegar um það var rætt á lokuðum fundi hjer í byrjun þings, að slík athugun færi fram í kyrþey, þá hefði farið betur. Jeg harma því, hvernig fór með þetta mál í þingbyrjun.

Hv. þm. Dala. (BJ) segir, að bankastjórnin hefði ekkert haft á móti því, að formenn eða trúnaðarmenn þingflokkanna fengju að athuga hag bankans. Það er því aðeins nokkur hluti þingsins, sem telur það varhugavert Bankinn álítur það auðsjáanlega ekki hættulegt; annars hefði hann ekki boðið það fram. Það stappar því nærri því, að það sje óskiljanlegt, hve mikill eldur hefir kviknað um þetta mál hjer á þingi.

Jeg hafði hugsað mjer að greiða ekki atkv. í þessu máli. Ekki vegna þess, að jeg telji mjer ekki heimilt, vegna sjerstakrar aðstöðu til bankans, að greiða atkvæði hvernig sem mjer líst. En eftir að því hefir verið lýst yfir, að bankastjórninni sje ljúft að leyfa fulltrúum flokkanna að athuga hag bankans, og eftir að aðalflutningsmaður till. þeirrar, sem hjer er til umræðu, hefir lýst því yfir, að nefndinni sje ekki annað hlutverk ætlað, en að fá skýrslu bankastjórnarinnar um hag bankans, greiði jeg hiklaust atkvæði með tillögunni.