23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg gerði ítarlega grein fyrir þessu máli í Nd., og þar sem margir þm. úr þessari hv. deild munu hafa heyrt það, get jeg farið nokkuð fljótar yfir sögu hjer.

Jeg skildi tillöguna svo, er jeg fyrst mintist á hana í hv. Nd., að með henni væri tilætlunin, að þingnefnd sú, sem skipuð yrði, rannsakaði allan hag bankans, og þetta kom einnig ljóslega fram í framsöguræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg gerði í hv. Nd. ítarlega grein fyrir því, hvers vegna jeg stæði gegn slíkri almennri rannsókn. Í fyrsta lagi af því, að nýbúið væri að rannsaka bankann af þingnefnd, sem þetta sama þing, sem nú situr, hefði skipað. En síðan væri, að dómi núverandi bankastjóra, sem allir væru nýlega komnir í bankann, og 2 stjórnskipaðir, ekkert skeð, sem gæfi ástæðu til að ætla, að meira tapaðist en nefndin hefði gert ráð fyrir. En eftir niðurstöðu þessarar nefndar, í samræmi við þær upplýsingar, sem síðan væru fram komnar um hag bankans nú, þá ætti bankinn nú, eftir að búið væri að taka frá fyrir tapinu, sem nefndin hefði áætlað, af varasjóði sínum um 700000 kr. — jeg tilfæri ekki smærri upphæðir — og auk þess hlutafjeð óskift 4500000 kr. Jeg benti og á, að þingnefndarrannsókn í 15 daga væri engin rannsókn, og loks, að þingrannsókn á bankanum, ekki síst af sama þingi og rannsakaði hann áður, mundi meðal fjármálamanna annarsstaðar vera skoðuð svo óvenjuleg ráðstöfun, að aðeins það að ákveða rannsóknina mundi spilla trausti bankans.

Hv. flm. hjer í þessari hv. deild (EÁ) sagði nú, að meiningin væri ekki, að almenn rannsókn færi fram á bankanum, og svo skildi jeg einnig hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) í lokaræðu hans í hv. Nd., en hins vegar, að nefndin tæki aðeins á móti skýrslu af bankastjórninni um hag bankans, — hv. þm. leiðrjettir mig, ef jeg fer með skakt mál —, en ef þetta er meiningin, þá liggur sú skýrsla í raun og veru fyrir.

Jeg hefi margsinnis spurt núverandi bankastjórn, hvort hún hafi orðið nokkurs þess vör, sem benti á, að meira mundi tapast en rannsóknarnefndin hefði gert ráð fyrir, og þessu hefir bankastjórnin svarað neitandi. Þetta ætti því í raun og veru að vera fullnægjandi fyrir þingið, ef tilætlunin er aðeins að fá skýrslu hjá bankastjórninni.

Nokkur atriði vil jeg drepa á í ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ). Þessi hv. þm. sagði, að 2. des. 1922 hefði Landsbankinn sent ávísun á Íslandsbanka, að upphæð 1 miljón kr., en Íslandsbanki hefði ekki getað greitt hana. Sagði hv. þm. (JJ), að á þessum degi hefði Íslandsbanki strandað. Jeg get nú upplýst það að samkvæmt yfirlýsingu eins bankastjórans, sem jeg spurði um þetta, var þessi upphæð borguð sama daginn, og jafnframt er það þá upplýst, að bankinn strandaði ekki 2. desember.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um samkomulag Landsbankans og Íslandsbanka, er forsætisráðherrann hefði gengist fyrir. Sannleikurinn er sá, að bankarnir áttu sjálfir upptökin að samningum þeim, sem þm. á við, en stjórnin lagði á eftir, eftir ósk Landsbankans, samþykki sitt til þess, sem bankamir höfðu komið sjer saman um. Annars get jeg vísað til þeirra upplýsinga, sem gefnar hafa verið hjer í þinginu um þessa samninga, hvernig þeir voru.

Þá flutti hv. þm. (JJ) langan fyrirlestur um sögu bankans. Jeg skal ekki rekja þann lestur í einstökum atriðum eða gagnrýna, en hitt er víst, að af því sögulega ljósi, sem hv. þm. (JJ) brá yfir bankann, stóð lítil birta um hann.

Einu vil jeg þó slá föstu, að menn verða að skoða bankann í ljósi nútímans. Og því má ekki gleyma, að bankinn er orðinn svo mikill liður í viðskiftalífi þjóðarinnar, að styrkur hans er að ýmsu leyti styrkur þjóðarinnar. Má í því sambandi minna á það, að þessi banki hefir nú á herðum sjer 21 af botnvörpungum þjóðarinnar. Og ekki er það sama fyrir framtíð þessarar þjóðar, hvernig fer um þann flota.

Þá talaði þessi sami hv. þm. (JJ) allmikið um afstöðu mína til hinna er lendu hluthafa, og í blaði sínu, Tíman um, hefir hann einnig blásið að þeim kolunum, að þar mundi alt mitt traust. En ef hv. þm. og blað hans ætti aðeins ofurlitla sannleikstýru í eigu sinni og vildi bregða henni upp, þá mundu þau sjá, hvað öll þessi ummæli eru undarlega öfugsnúin við það, sem gerst hefir í þessum málum í minni stjórnartíð. Er þá rjett að benda á það, að í minni stjórnartíð hefir það gerst, að öll bankastjórnin er orðin alíslensk. Danski bankastjórinn, sem naut fulls trausts erlendu hluthafanna, er nú farinn frá bankanum, og hver er kominn í staðinn? Alíslenskur maður. Og nú í fyrsta sinni í sögu þessa banka skipa íslenskir menn allar bankastjórastöðurnar. Þarna er nú sýnishornið af því, sem gert hefir verið fyrir erlendu hluthafana.

Yfirleitt eru árásir þessa hv. þm. (JJ) á mig þannig, að jeg mun bráðlega leita mjer vitneskju um það, hvort flokkur sá, sem hann tilheyrir, stendur þar á bak við eða ekki. Jeg veit að vísu, að þessum hv. þm. (JJ) hefir verið það áhugamál að fá mig úr ráðherrasæti og að blað hans hefir í öðru sambandi kallað mig t. d. Gissur Þorvaldsson. Það hefir nú að vísu komið í ljós í því máli, sem þar var um að ræða, að ekki einn einasti af samflokksmönnum þm. fylgdi honum þar að málum á móti mjer. Og má vera, að svo sje víðar, því það er alkunnugt, að ærinn mismunur er á skoðun flokksins sjálfs og hugsunarhætti og á skoðunum og hugsunarhætti blaðsins, sem þessi hv. þm. (JJ) lætur blása tortrygni, eilífri tortrygni, inn í alt og alla. Jeg efast um, að bændastjett þessa lands hlusti með aðdáun á alla þessa undarlegu tóna tortrygninnar, og sá stormur, sem hv. þm. er nú að leitast við að reisa út af þessu máli, gæti snúist snögglega að honum sjálfum og blásið hann um koll.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) kallaði Íslandsbanka feita fósturbarnið, og átti það víst að þýða, að honum væri skipað hærra en Landsbankanum. En jeg sje nú ekki, hvernig það á að samrýmast við það, að landsstjórnin hefir stöðugt tekist á hendur ábyrgðir fyrir Landsbankann gagnvart erlendum bönkum, og hefir aldrei verið minsta fyrirstaða fyrir þessu, og má á þessu sjá, hvort þessi banki hefir verið skoðaður sem olnbogabarn.

Þá talaði þm. þannig, eins og hið lága gengi krónunnar væri alt Íslandsbanka að kenna. Það er svo sem ekki verið að reyna að gera reikningana rjettlátlega upp og taka hina óhagstæðu tíma til athugunar, sem alstaðar hafa knúð að dyrum og alstaðar gert meiri og minni spjöll.

Þá sagði hann, að flestir þeir, er að þessum banka hefðu staðið, hefðu haft ást á honum. Skal jeg ekki fara út í það, en auðsjeð var, að tilgangur hv. þm. var með þessu að koma að samanburðinum milli Íslandsbanka og Landmandsbankans. Þegar hv. þm. (JJ) er á því spori, þá er hann í draumalandinu sínu. Hann sagði að vísu, að það væri ekki alveg eins ástatt með þessa banka, en öll ræða hans sýndi þó, að hann taldi líkindin mikil. Jeg vil nú geta þess, að mikið af tapi Landmandsbankans stafaði af því fje, sem tapaðist hjá Transatlantisk Company. Nam sú upphæð á annað hundrað milj. króna, og lenti ekkert af þessu fje hjá Dönum sjálfum. Enn fremur lánaði bankinn mikið fje kaupmönnum til spekúlationa, til þess að kaupa vörur fyrir og selja til Rússlands. Svo fjellu þessar vörur og tapið varð afskaplegt. Voru bankastjórarnir einnig sjálfir frumkvöðlar að ýmsum spekúlationsfyrirtækjum. Hjer hefir ekkert líkt þessu átt sjer stað. Og þó er eitt blaðið altaf að jafna þessu saman. Hvað þýðir þetta nú fyrir lánstraust landsins? Ef haldið væri nú áfram á þessari braut og skipuð yrði rannsóknarnefnd af þinginu í framhaldi af þessum þokkalega samanburði, hvernig mundi þá verða litið á þetta í Danmörku og yfir höfuð í útlöndum? Þar mundi auðvitað talið víst, að hjer stæði eins á og um Landmandsbankann, og má vera, að þá mætti víða finna þess merki, hve viturlega oss farnast í fjármálum vorum.

Þá sagði hann, að ekkert saknæmt hefði verið komið upp um bankastjórn Landmandsbankans, þegar ekki hafð lengra verið komið rannsókninni þar en nú er hjer. Hjer er enn verið að blása og blása í lúður tortrygninnar. Gefið í skyn, að eitthvað glæpsamlegt muni koma hjer upp síðar. Hann talaði um bankastjóra Íslandsbanka líkast því, sem þeir væru menn, er ættu heima í steininum, og jafnaði við menn, er settir hafa verið undir opinbera rannsókn.

Þá kom hann að sjóðþurðinni. Það er rjett, að það var 120 þús. kr. sjóðþurð. Hann sagði, að þetta væri eitt af ríkisheimulegheitunum og kastaði ekki skemtilegu ljósi yfir fráfarandi bankastjórn. Jeg gat um þessa sjóðþurð við Clausen bankastjóra í Privatbanken um leið og jeg mintist á fráför bankastjóra Tofte o. fl. Er það víðast annarsstaðar svo, að bankastjórarnir sjálfir telja ekki kassann, heldur endurskoðendur. Þeir höfðu nýlega talið kassann og urðu ekki varir við sjóðþurðina. Jeg efast því um, að hægt sje að leggja þessa sök alla á bankastjórnina eða nokkuð af henni. Í þessu sambandi held jeg að taka megi fram, að bankastjórn Landsbankans telji ekki kassann þar, eftir því sem jeg veit best.

Það má vel vera, að þessi hv. þm. (JJ) finni til hlýju, er hann talar um þessa sjóðþurð og sje unun að draga fram óhamingju mannsins, sem sekur varð um sjóðþurðina. En feginn hefði jeg viljað, að fjölskyldu þessa manns hefði verið hlíft við þessu umtali hjer. Jeg hefi nú þekt þennan mann um langt skeið, og síst hefði mig grunað, að þessi óhamingja henti hann, því vandaðri mann til orða og verka þóttist jeg ekki vita um. En hann hafði einn slæman breyskleika; hann var því miður of vínhneigður, og frá engu öðru getur þetta stafað en því. En þessi óhamingja var meira en óhamingja fyrir hann; eins og reiðarslag kom hún yfir ættfólk hans, sem aldrei hefir mátt vamm sitt vita. Og allir skilja, og ekki síst við, sem höfum þekt móður hans, hve sárt þetta tók hana. Börn hennar og tengdabörn þorðu fyrst ekki að segja henni frá þessu, en svo varð þó að vera. Og það fyrsta, sem hún gerði, var að bjóða strax fram allar eignir sínar til þess að greiða bankanum tap hans. Það var svo sem ekki verið að draga það tilboð, og þess vegna, einmitt þess vegna, hefði, finst mjer, mátt hlífa henni við að láta þetta mál koma hjer til umræðu. Var nokkur unun, gat nokkur haft ánægju af að sjá hjarta þessarar góðu, öldruðu konu bresta? Og engan skal jeg öfunda af að kasta þessum steini.

Hv. þm. (JJ) segir, að bankarannsóknin sje stærsta þjóðmálið. Hann segir, að þarna liggi þungamiðja íslenskra stjórnmála. En sje það rjett, sem frsm. þessa máls sagði í Nd., að það nægi að fá skýrslu bankastjóranna, og ef hún er bankanum í vil, hvernig á þetta þá að teljast þungamiðja íslenskra stjórnmála?

Hann mintist á bankarannsóknina 1909. Jeg var þá ekki kominn inn í stjórnmálin, en jeg var á móti henni. Veit jeg þó, að sumir þeir menn, er að henni stóðu, og sá ráðherra, er ljet framkvæma hana, hafa verið sannfærðir um rjettmæti hennar, eins og auðvitað ýmsir eru nú í góðri trú um þessa rannsókn. En niðurstaðan af þessari rannsókn sýndi, að ekkert var að athuga við bankastjórnina, og sagan hefir kveðið upp dóm sinn yfir þeim bankastjórum, sem þá voru dregnir inn í eldinn. — Kristján Jónsson varð seinna ráðherra og er nú dómstjóri hæstarjettar. Minnisvarði er yfir Tryggva Gunnarsson hjer í Alþingisgarðinum, og allir eru sammála um ágætismanninn Eirík Briem. — Þessi varð niðurstaðan af þeirri rannsókn, og hver urðu töp bankans? Hjegóminn einn.

Hann sagði, að hagsmunir erlendu hluthafanna væru settir hærra en hagsmunir þjóðarinnar. í hverju? Eru það hagsmunir erlendu hluthafanna, sem verið er að hugsa um, þegar verið er að gera ráðstafanir til að koma botnvörpungum okkar á flot? Eru þetta ekki hagsmunir þjóðarinnar? Hver er svo litblindur, að hann sjái ekki þetta? Og hvílíkt ranglæti að halda öðru eins fram og því, að hjer sje nokkuð annað á ferðinni en hreinir og beinir hagsmunir þjóðarinnar. En auðvitað er það, að ef tekið er fyllilega tillit til hagsmuna þjóðarinnar. Þá getur ekki farið hjá því, að þeir hagsmunir sjeu að ýmsu leyti sameiginlegir hagsmunum hluthafanna, því velgengni bankans er auðvitað þeirra hagur.

Jeg hefi skrifað hjer á blað hjá mjer nafn hv. þm. V.-Sk. (LH). Hann gerði fyrirspurn til mín í hv. Nd., hvort það væri rjett, að fyrverandi fjármálaráðherra hefði ekki aðgang að veði landssjóðs. Jeg svaraði því, að það væri algerlega undir hans umsjón. Ástæðan til, að þessi hv. þm. (LH) hafði gerst meðflytjandi till., var það, að hæstv. fyrv. fjármálaráðherra hafði, að því er mjer skildist, sagst ekki hafa aðgang að veðinu, og þá var auðvitað öðruvísi ástæða til rannsóknar á því af þinginu. En er þessi hv. þm. (LH) hafði fengið að vita um þetta, greiddi hann ekki atkv., sem eðlilegt var.

Þá sagði hv. 5. landsk. þm. (JJ), að rannsóknin, sem fór fram á bankanum nú síðast, hefði verið einkennileg. Jeg skil það ekki, en eitt er víst, að hún var sett þannig af stað, að hún gat ekki vakið neitt vantraust á bankanum. Landið var að hugsa um að kaupa hlutabrjef bankans, og nefndin var skipuð til að komast að raun um, hvers virði hlutirnir væru, því án þess var auðvitað ómögulegt að gera sjer í hugarlund, hvers virði hlutirnir væru. Þá má nú nærri geta, hvort tilhneiging hafi verið, þegar svona stóð á, hjá þingkjörnum mönnum að fara hærra með verð hlutanna en rjett var.

Hann sagði, að þeir hefðu ekki verið kosnir af meiri hluta þingsins. En hví notaði ekki meiri hlutinn rjett sinn til að ráða kosningunni? Hann losnar sannarlega ekki við neina ábyrgð með því að sitja hjá.

Þá talaði hann um, að dómur kauphallarinnar dönsku á hlutum Íslandsbanka væri þungur á metunum. Það er nú svo, en ætli þeir dómar hafi ekki farið nokkuð eftir óminum, sem barst hjeðan? Ómurinn frá „Tímanum“ hefir ekki orðið til þess að hækka hluti Íslandsbanka. Jeg skal segja hjer frá skemtilegu atriði; jeg nefni engin nöfn. Jeg heyrði einn mann tala mjög illa um hlutabrjefin, og taldi hann þau lítils virði; en sami maður lagði mikið kapp á að kaupa brjefin erlendis.

Hv. þm. (JJ) sagði, að bankastjóri Eggert Claessen hefði gert gott í bankanum, og talaði heldur vel um hann. En aðalverk hans hefði þó verið það að gefa eftir skuldir, en hjá því hefði nú ekki verið hægt að komast. En þrátt fyrir mjúku orðin var sama tortrygnin, þessi tortrygni, sem er undiraldan undir nálega öllu, sem hv. þm. (JJ) segir um þetta mál. Og því var heldur ekki gleymt, að bankastjórinn hefði verið málaflutningsmaður þeirra manna, sem gert var upp hjá. Það er dálítið spaugilegt þetta. Hv. þm. (JJ) heldur, að bankastjórinn hafi fengið ást á hverjum manni, sem hefir borgað honum málfærslulaun. Ekki trúi jeg á þá ofurást. Hverjum datt nú í hug að halda, að það skifti nokkru, þótt bankastjóri Landsbankans, Magnús Sigurðsson, væri málaflutningsmaður áður?

Hv. þm. (JJ) sagði, að það hefði sjálfsagt ráðið miklu hjá nýju stjórninni, að hún keypti ekki bankann, að hún hefði ekki haft traust á honum. Þetta hefir aldrei komið fram, en stjórnin áleit, að það væri gott að hafa áfram þetta erlenda hlutafje starfandi í bankanum með hæfilegum vöxtum.

Þá kem jeg að breytingunni um stjórn bankans. Rjett eftir þinglok, áður en jeg sigldi, spurði jeg samverkamenn mína, hina ráðherrana, Um það, hvort þeir vildu breyta þá strax til um stjórn bankans, en þeir vildu þá ekki að svo stöddu máli taka ákvörðun um það. Ef ákvörðun hefði þá verið gerð um málið, þá hefði ef til vill mátt ráða því til lykta fyrir aðalfund bankans. Þegar jeg kom heim aftur, var enn fundur um málið, og þá var afráðið að skifta um stjórn bankans, en þó ekki fyr en eftir áramót. Litum við þá allir svo á, að varhugavert væri, vegna trausts bankans út á við, að umskiftin yrðu of snögg og á óeðlilegum tíma. Styðst þessi skoðun okkar og við skeyti, sem við fengum frá Claessen bankastjóra, meðan hann var utan, þar sem hann mæltist til, að breytingin á bankastjórninni yrði ekki látin fara fram meðan hann væri í lánaumleitunum fyrir bankann, því breytingin gæti orðið skilin þannig, að eitthvað væri að athuga við bankann.

Eins og jeg tók fram áðan, var það ákveðið með samþykki allra ráðherranna að breyta ekki til í bankanum fyr en við áramót, og á fjármálaráðherrann, sem frá er farinn, átrúnaðargoð hv. 5. landsk. þm., óskilið mál þar með okkur hinum ráðherrunum.

Þar sem nú hlutafjelagið Íslandsbanki hafði gengið að því að láta tvær bankastjórastöður vera lausar, þegar landsstjórnin óskaði að skipa í þær, þá varð hlutafjelagið auðvitað að taka á sig þau óþægindi, sem því fylgdu að losa þessar stöður. Það var svo langt frá, að sakir væru bornar á bankastjórana eða þeim væri vikið burt, og þar sem þetta var ekki tilfellið, þá var það svo sem auðvitað, að bankinn varð sóma síns vegna, að skilja sæmilega við þá.

Sjerstaklega virðist það hafa hneykslað hv. 5. landsk. þm. (JJ), að of vel hafi verið skilið við Tofte bankastjóra. Að vísu hefir nú ekki verið birt neitt um það, hvernig sá viðskilnaður hafi verið, en hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir slegið því föstu, að hann hafi fengið einu sinni fyrir alt 70 þús. kr. Jæja. Af samningstímabili hans voru eftir 11/2 ár. Laun hans voru 20 þúsund á ári, og þá er hann fór frá, var dýrtíðaruppbótin 20 þúsund. Það verða í 11/2 ár 60 þúsundir, og þá er ekki reiknað neitt fyrir „tartiéme“. Það er satt, þessi laun eru há. Jeg hafði heldur ekki samið um launin. En samninga verður að halda; á þeim grundvelli munu allir standa hjer, nema ef hv. 5. landsk. þm. (JJ) skyldi standa á þeim hinum nýja grundvellinum.

Nú var það svo með Tofte, að þó að hv. 5. landsk. þm. (JJ) hafi ekki trú á honum, þá báru erlendu bankamennirnir í bankaráðinu óskorað traust til hans. Og þar sem nú sá maður var tekinn úr bankanum, sem þeir sjerstaklega trúðu, og enginn settur inn, sem þeir sjerstaklega þektu, þá sjá allir, hvort hyggilegt hefði verið á þessum tímum fyrir bankann að ganga einnig á móti þeim í að skilja sæmilega við aðaltrúnaðarmann þeirra í bankanum.

Jeg vil leyfa mjer að geta þess nú, til þess að sýna fram á það, hvað misjafnlega sanngjarnlega menn líta á málin, að jeg átti einu sinni í trúnaði tal um þetta mál við Hallgrím heitinn Kristinsson. Jeg sagði honum þá, hvað erfitt væri að ná samkomulagi um þetta mál, og varð honum þá að orði, að honum fyndist það engu skifta, þótt gert væri sæmilega við hina fráfarandi bankastjórn.

Það hefir verið reynt að siga öllum árum á Tofte bankastjóra; honum hefir verið kent um gengisfallið; hann hefir verið settur á bekk með misindismönnum úti í Danmörku o. m. m. fl.; þess vegna á það að vera vottur um hörmulegt ástand hjá oss, að stjórnin skuli gerast svo djörf að halda við hann gerða samninga. Nú ber einnig að taka tillit til þess, að auk þess sem Tofte bankastjóri átti kröfur eftir samningi, þá var hann með þessu stöðvaður í því starfi, sem hann auðvitað bjóst við, að hann gæti haldið áfram og gert að lífsstarfi. Hann er líka áreiðanlega mjög óánægður við oss og álítur, að hann hafi verið beittur hörðu. Og svo kemur það í viðbót, að honum á skilyrðislaust að fórna á altari hinna óhagstæðu tíma og hann á að vera fórnarlambið — og því má ekki láta honum eftir æru fyrir túskilding.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) blandar hr. I. C. Christensen inn í þetta mál. Jeg hefi ekki talað um danska stjórnmálamenn, en verð þó að segja, að hann mun alment vera álitinn einn af helstu stjórnmálamönnum Dana. (JJ: Hann hefir víst grætt á Alberti?). Nú, þarna kemur það! Hann á að vera líkur Alberti, hann Tofte; það eru þessar indælu samlíkingar hv. 5. landsk. þm. (JJ), sem eru svo ágætar: Alberti—Tofte; Glückstadt—Tofte! Hann er aftur byrjaður að blása.

Þá kem jeg að stóra atriðinu, höfuðsyndinni, því, að ekki var skipað strax í stöðurnar, heldur sett í þær. Þegar fresturinn var útrunninn, 1. febrúar, þá komu ráðherrarnir sjer allir saman um, að þá strax yrðu nýir menn að taka við. En satt að segja treystum við okkur ekki til að skipa þá strax í stöðurnar. Setningunni var líka vel tekið, og hv. 5. landsk. þm. (JJ) hafa farist sæmilega orð um þá settu menn, þótt hann hafi látið fylgja þeim meðmælum nokkra sjálfsagða tóna úr tortrygnisbúð sinni. Svo þegar bankastjóri Eggert Claessen sigldi nú í vetur, bað hann um, að ekki yrði skipað í embættin fyr en hann kæmi aftur, og færði hann sem ástæðu, að bankastjórarnir væru í sameiningu búnir að leggja plan fyrir framtíðina. Jeg held því, að sæmileg grein sje nú gerð fyrir þessu máli.

Enn var það, að þessi hv. þm. (JJ) ætlaði að gefa mjer tækifæri til þess að hreinsa mig af áburði eða illu umtali, sem gengi staflaust um bæinn, að hans sögn. Einn af „bestu“ borgurum þessa bæjar hafði sagt, er svo var skipað málunum í stjórnarráðinu, að forsætisráðherra skyldi undirrita skipun hinna æðstu embætta, að þá hefði jeg farið að eins og forsetarnir í Mexikó, þegar þeir færu frá, þá hlypu þeir burt með kassann. Jeg tók fram í fyrir hv. þm. (JJ) og spurði, hver þessi besti borgari væri. En jeg fekk ekkert svar. Nú er það svo, að hv. þm. (JJ) vitnar oft í þennan besta borgara, án þess að nefna hann, og mjer er því farið að detta í hug, hvort það muni ekki vera maður, sem jeg veit, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) dáist mjög að, nefnilega Jónas frá Hriflu.

Hv. þm. (JJ) gengur í óumræðilegri angist fyrir því, að jeg muni fara í bankann, því hann óttast alla þá menn í þýðingarmiklum stöðum, sem hann getur ekki ráðið við. Þennan ótta ætla jeg alls ekki að taka frá þingmanninum.

Honum hefir fundist, þessum hv. þm. (JJ), að jeg mundi ætla að búa vel um mig í framtíðinni. Jeg er nú hálfhissa á þessu, vegna þess, að þessi sami hv. þm. hefir búið furðuvel um sjálfan sig. Hann býr sjálfur í miklu veglegri höll en jeg sem forsætisráðherra. Þó öfunda jeg hann ekki af þessari veglegu höll hans, eða hinu ljómandi fagra útsýni, sem hann nýtur þaðan o. fl. En mjer finst hv. þm. ætti að geta skilið, þótt jeg vilji búa vel um sjálfan mig líka. (JJ: Þjer játið þá þetta?). Með þessu hefi jeg engan veginn tekið angistina frá hv. þm. Enn þá verður hann um tíma að skjálfa á andvaka nóttum af hryllingi við það, að jeg kunni að fara í bankann. Jeg álít, að þetta komi hvorki honum nje þinginu við. Jeg læt engan þingflokk segja mjer fyrir, hvernig jeg skuli skipa í stöður. Ef stjórninni er ekki treyst til þessa, þá er sjálfsagt, að þingið losi sig við hana. Jeg hefi aldrei verið með neitt bænarkvak, hvorki til hægri nje vinstri, til þess að fá að hanga við völdin. Ef mjer er treyst til að fara með æðstu stjórn landsins, þá er það gott; en ef ekki, þá ættu menn að hafa þá mannrænu í sjer að koma fram með vantraustsyfirlýsingu í þinginu. Nú veit jeg um afstöðu hv. 5. landsk. þm. (JJ) til mín, en jeg mun bráðlega komast eftir, hvort framkoma hans gagnvart mjer og stjórninni er í nokkru samræmi við vilja meiri hluta Framsóknarflokksins.

Þá vil jeg segja nokkur orð um einkafundinn. Það er rjett hjá hv. þm. (JJ), að 18 þm. skoruðu á mig að fá fund í Sþ. til þess að ræða um rannsókn á bankanum. Ástæðurnar til þess, að jeg bað ekki um fundinn, vorn nú auðvitað meðal annars, að meiri hluti þingmanna var ekki undir áskoruninni, en hitt rjeð þó mestu, að jeg gat ekki beðið um fund til að ræða mál, sem jeg var algerlega á móti. En hitt tók jeg fram, að jeg mundi fúslega biðja um að fá málið rætt í þeim flokki, sem jeg heyrði til, og mjer virtist einnig rjett, að það yrði rætt í hinum flokkunum. Ef út af þeim umræðum hefði runnið eitthvað, sem jeg gat fallist á, þá var jeg fús til að biðja um fundinn í sameinuðu þingi.

Þá spyr hv. 5. landsk. þm. (JJ) enn fremur, hvers vegna bankastjórar og bankaráð hefðu eigi verið látnir skila aftur ágóðahlut þeirra. Jeg sje ekki, með hvaða rjetti það hefði mátt ske. (JJ: En í Danmörku?). Jú, þarna kemur það enn, þessi gamli samanburður við Landmandsbankann. Það er verið að blása. En er ekki nóg, að jeg taki það fram enn, að engir þessara manna eru undir neinni kæru. Engum dettur þetta í hug, nema hv. 5. landsk. þm.

Hv. þm. (JJ) spyr um, hví ekki hafi verið afskrifað fyrir tapi bankans. Nú, en það er einmitt það, sem hefir verið gert. Jeg skýrði frá því, að þegar búið væri að taka frá fyrir öllu tapinu, sem nefndin hefði áætlað, þá mundu vera eftir góðar 700 þúsund kr. í varasjóði og hlutafjeð óskert. Þess vegna er þessi hávaði svo skrítinn.

Einkennilegt er það, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) heldur því stöðugt fram, að bankamálin sjeu fjármálaráðherra óviðkomandi, og þó heyra þau alveg undir hann. Þá er það skrítið að kalla breytinguna milli deilda í stjórnarráðinu valdarán, þar sem sú breyting er gerð á fullkomlega löglegan hátt.

Rangt er það, að jeg hafi neitað að skýra frá hag bankans. Um það hefi jeg aldrei verið beðinn. Jeg kom eitt sinn í vetur á fund í Framsóknarflokknum og stakk þá einn upp á því, að bankastjórn beggja banka ásamt ríkisstjórninni yrði boðið á fund til þess að ræða þetta mál, svo ekkert þyrfti að fara milli mála og sem bestar upplýsingar fengjust um það. En úr þessu varð þó ekki neitt.

Jeg vil víkja að því sama, sem jeg gerði í hv. Nd., þegar þessi tillaga var þar til umræðu. Sparisjóðsfje vort er nú yfir 7 miljónir kr. í sparisjóðum, fyrir utan Reykjavík. Með þessu fje er í raun og veru sama sem ekkert eftirlit af stjórnarinnar hálfu. Þetta má ekki viðgangast svo lengur. Áður hefir komið fram frv. um þetta efni, en ekki náð fram að ganga. En nú eru tímarnir og aðstæður allar breyttir, og mjer finst ekki geti annað komið til mála en að þetta þing taki nú það mál upp á ný, og um leið mætti þá fela sama manni eftirlit með bönkunum. þetta yrði alls ekki til að spilla lánstrausti bankanna, því þetta yrði aðeins einn nýr, en eðlilegur liður í tryggingarráðstöfunum til þess að varðveita traust bankanna bæði utanlands og innan.

Stjórn Íslandsbanka er þessu meðmælt. Bankinn er ekki hræddur við rannsókn, sem er eðlileg og því ekki getur veikt aðstöðu hans.

Það er augljóst, að þótt skipuð yrði nú rannsóknarnefnd á bankann, þá mundi hún ekkert geta gert á þeim tíma, sem þing á eftir að standa. Þótt hv. þm. kanske hjeldu það fyrirfram, þá mundu þeir þó komast að raun um, er út í rannsóknina væri komið, að þeir mundu ekki vera komnir að mikilli niðurstöðu eftir 15 daga. Þótt ekki væri nema einn einasti botnvörpungur, sem þeir þyrftu að athuga í sambandi við bankann, og hvernig hagur bankans væri trygður gagnvart honum, þá tæki það þegar langan tíma. Það væru máske 20 ábyrgðarmenn fyrir skuldum botnvörpungsins, og þá þyrfti að athuga hag hvers þeirra fyrir sig. Einungis þetta mundi taka upp mikið af tímanum, hvað þá ef athuga þyrfti hag allra botnvörpungafjelaganna.

Jeg hefi nú gert grein fyrir skoðunum mínum viðvíkjandi þessu máli, og með uppástungu minni um eftirlitsmann með sparisjóðum og bönkum hefi jeg sýnt, að jeg vil hafa sem öruggast eftirlit með bönkum og sparisjóðum, þótt jeg sje á móti rannsóknum, sem ekki eru fullnægjandi, og auk þess í eðli sinu þannig, að þær fyrirfram veikja traust landsins og bankans.