23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (3149)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg fann enga ástæðu til þess að taka til máls í hv. Nd., þegar samskonar tillaga þeirri, sem hjer liggur nú fyrir, var þar til umræðu. Málið snerti mig ekki neitt fyrst, og enda þótt jeg væri búinn að taka við fjármálastörfunum undir lok umr., þá sá jeg ekki ástæðu til að fara að blanda mjer inn í þær deilur þá.

Jeg hefði ekki heldur látið mig þetta mál skifta nú, hefði ekki hv. 5. landsk. þm. (JJ) gefið mjer tilefni til þess, með því að fara nokkrum orðum um sögu bankans og stofnun hans. En þar sem jeg var einn af stofnendum bankans, og fáir munu nú sitja á þingi, er sæti áttu þar á þeim árum, er bankinn var stofnaður, þá vil jeg fara dálítið út í sögulegan aðdraganda málsins, og það því fremur, sem jeg braut algerlega í bága við minn flokk í þessu máli. Jeg skal þó ekki vera langorður, því jeg álít, að margar af ræðum þeim, sem haldnar hafa verið um þetta mál, hafi verið mikils til of langar, og því óþarfar, og mörg orð fallið, sem hefðu verið betur ótöluð.

Mjer fanst á ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ), að honum þætti það hafa verið ilt verk, er útlendingum var gefið einkaleyfi til þess að reka hjer bankastarfsemi, og hann talaði um, að þessir útlendu menn hefðu ekki verið feimnir, því þeir hefðu beðið um einkaleyfi til 90 ára, og hefði tilgangur þeirra verið að drepa jafnframt Landsbankann.

Það var að vísu satt, að þeir sóttu um 90 ára leyfi, en fengu það ekki, eins og hv. þm. er kunnugt, og þó að þetta sje langur tími, þá ber þess að gæta, að þeir höfðu fyrirmynd frá Danmörku, þar sem Þjóðbankinn danski hafði fengið einkaleyfi til 90 ára. Auk þess er ekki nema eðlilegt, að nokkuð hátt sje farið í byrjun, því venjulega er meira eða minna dregið úr slíku. Að meiningin hafi verið að drepa Landsbankann, trúi jeg varla, að nokkur geti talað af alvöru, þótt einhver ógætileg orð í þá átt hafi fallið, enda varð ekkert úr því.

Þá sagði hv. 5. landsk. þm. (JJ), að rógur hefði verið borinn um Landsbankann á þeim árum af stofnendum Íslandsbanka. þessu var að vísu slegið fram þá á þingi af einhverjum, en það var alls eigi rjett. Bankinn var að vísu kritiseraður í blöðunum þá og á Alþingi, en sú kritik var alveg hlutdrægnislaus og því rjettmæt, en alveg rangt að kalla slíkt róg. því hvernig stóð á um þetta leyti hjer á landi? Þá höfðu verið mjög góð ár alt að áratug, eða frá 1890—1900, eftir hörmunga- og harðindaár 1890. Eftir því sem leið á áratuginn 1890—1900 fóru menn, einkum þeir, sem ungir voru og áhugasamir, að hugsa um að efla og bæta atvinnuvegi landsins, og þá sjerstaklega sjávarútveginn. Skipaútgerðin var þá í byrjun. Fiskiskip voru þá fá og lítil. Norðanlands voru gerð út nokkur hákarlaskip og sunnanlands voru mest opnir bátar, en þilskip fá. Framsæknir og ötulir menn vildu nú koma af stað fiskiveiðum í stærri stíl og auka sjávarútveginn, án þess að lífi manna væri mikil hætta búin, eins og var á opnu bátunum. Þeir sneru sjer þá fyrst til Landsbankans, en honum stýrði þá roskinn maður og þjettur fyrir. Honum var líkt farið og gömlu verslunarstjórunum, að hann vildi einn ráða, hvort lánin voru veitt og hverjum þau voru veitt og til hvers þau ættu að ganga. Varð þetta því þungur róður fyrir þá, sem lán vildu fá. Bankastjórinn hafði áður verið bóndi í sveit, en þó naut landbúnaðurinn lítils styrks hjá honum. Veðdeildin, sem stofnuð var á þeim árum, var t. d. ekki hans verk; hann mun frekar hafa verið henni mótfallinn. Sjávarútveg var hann öllu fúsari á að styðja, en hvergi nærri svo, að fullnægði þeim þroska, sem sú atvinnugrein var þá að taka. Bankinn hafði ekki nægilegt fje fyrir höndum og stjórn hans gerði sjer ekki mikið far um að útvega fje til hans. Þá vorum við á þingi nokkrir ungir og sumir mjög framtakssamir menn, svo sem Skúli Thoroddsen, Guðlaugur Guðmundsson og fleiri. Þeim gramdist mjög, hversu þessi stofnun var föst fyrir og hve litlu þeir fengu um þokað. Þeir reyndu að bæta úr þessu á ýmsan hátt, bæði með fyrirspurnum á þingi og fleiru, og gerðu sitt ítrasta til þess, að þessi eina lánsstofnun landsins, Landsbankinn, hlypi undir bagga með þessari atvinnugrein, sem þá var óðum að blómgast, nefnilega sjávarútveginum. Þessir menn voru þá á líkum aldri og hv. 5. landsk. þm. (JJ) er nú, og jeg er sannfærður um það, að með því hugarfari, sem hann hefir, mundi hann hafa fylgt þessum mönnum að málum, hefði hann þá verið á þingi.

Þegar þessir menn fengu nú engu um hreyft hjer, var eina úrræðið fyrir þá að reyna nýjar brautir, og varð það þá að ráði að reyna að stofna nýjan banka. Um fje til bankans var þá ekki í önnur hús að venda en til útlanda, og var það gert. Komu tveir danskir menn upp alþingissumarið 1899, í þeim tilgangi að afla þessum banka hlunninda. Var annar þeirra danskur hæstarjettarmálaflutningsmaður, mjög duglegur og ábyggilegur maður. Kyntist jeg honum þá, og hafði náin kynni af honum meðan hann lifði, og þori jeg að fullyrða, að hann var mesti heiðursmaður og jafnan mikils metinn. Hinn var Gyðingur, og er hann mjer ekki eins vel kunnur. Átti hann meiri þátt í útvegun fjárins. En sá, sem flutti mál þetta inn á þing, var ekki ómerkari maður en Benedikt Sveinsson, maður, sem þá bar höfuð og herðar yfir aðra þingmenn. Var það eitt af hans síðustu málum, því hann dó nokkrum dögum síðar. Jeg veit, að bæði eldri menn, sem þá voru komnir til vits og ára, og yngri menn, sem kynst hafa Benedikt af blöðum og þingtíðindum þeim muni ekki koma til hugar að væna þann mann um það, að hann hafi viljað brugga landinu nokkur vjelráð. Hann var allajafna hugsjónamaður, og þótt hann væri þá kominn alveg á grafarbakkann, bar hann málið fram með eldmóði og miklum áhuga, því hann áleit, að það myndi verða lyftistöng atvinnuvegum landsins í framtíðinni. En honum auðnaðist ekki að sjá afdrif þess.

Jeg skal játa það með hv. 5. landsk. þm. (JJ), að meðmælendur og flutningsmenn málsins á þingi hafi stundum verið nokkuð ógætnir í orðum, þegar þeir töluðu um, að nú mundi hægt að fá nóg lán og ódýr lán. En viðvíkjandi láninu, sem sagt var, að Warburg hefði veitt með okurkjörum, tekið 7–8% í vexti, sem í rauninni ekki geta kallast okurvextir, þá er mjer kunnugt um, að það lán var illa veðtrygt, og mun aldrei hafa verið borgað. En renturnar fara mikið eftir því, hve vel lánið er trygt.

Mótstöðumenn málsins spöruðu ekki heldur stór orð. T. d. sagði Magnús landshöfðingi þá þessi alkunnu orð: „Timeo Danaos et dona ferentes“.

Svo fór, að málið dagaði uppi 1899, en var svo samþykt 1901. En á milli þessara þinga skeði nokkuð, sem hefði átt að gerast fyr. Bankastjóri Landsbankans fór utan til þess að fá lán til bankans, og tókst honum að fá lán með góðum kjörum. Þetta var mjög heppilegt. því þrátt fyrir það, þótt nýi bankinn kæmi með 21/2 milj. kr. í hlutafje, auk væntanlegra innlána, þá kom það brátt í ljós, að fje Landsbankans hefði ekki hrokkið til. Og það var beinlínis nýja bankanum að þakka, að togaraútgerðin komst á um 1906 og hefir haldið áfram síðan. Vita allir, hvílíka þýðingu hún hefir haft fyrir landið í heild sinni. Er það Íslandsbanka aðallega að þakka, og líka auknu lánstrausti Landsbankans, að sá atvinnuvegur hefir blómgast svo, sem raun hefir á orðið. Er ekki hægi að bera brigður á það, að Íslandsbanki hefir alla tíð verið meginstoð sjávarútvegsins.

Þá hefi jeg skýrt frá aðaltildrögunum til stofnunar bankans. Hika jeg ekki við að lýsa því yfir sem minni skoðun, að hann hafi aldrei brugðist þeim vonum. er stofnendur hans gerðu sjer um hann, og ekki landsmanna yfirleitt. En það skal jeg viðurkenna, að bankanum hefir ekki altaf verið vel stjórnað, t. d. 1919. En það voru fleiri en Íslandsbanki, sem höguðu sjer ógætilega í fjármálum það ár, þegar peningar streymdu um og yfir landið, og menn hjeldu, að það mundi haldast við. Fór tiltölulega betur fyrir þinginu það ár? Jeg held varla.

Jeg viðurkenni, að heimilt sje að gagnrýna opinberar stofnanir, en altaf verður að gera það með gætni og stillingu, sjerstaklega þegar um banka er að ræða.

Þá vík jeg að till. eins og hún liggur fyrir. Verð jeg að segja það, að þótt hún sje hógvær að efni til, þá hefði jeg þó óskað, að hún hefði aldrei komið fram opinberlega. Er hún alt of rúm, og hefði jeg álitið heppilegra, að hún hefði verið orðuð eins og brtt. hv. 6. landsk. þm. (IHB). Sje jeg eftir því, að sú brtt. var tekin aftur. Vona jeg, að hv. flm. till. (JJ) játi, að tilganginum sje að mestu náð með brtt. hv. 2. þm. S.-M. (SHK), á þskj. 319. Verði sú till. samþykt, sem jeg efast ekki um, þá skal jeg heita því, að ekki skal standa lengi á því, að skýrslan komi, því nú þegar er byrjað á því að undirbúa hana.

Jeg hafði eiginlega ekki fleira að segja, og sje ekki ástæðu til þess að ganga inn á einstök atriði. En það hafði einhver hv. þm. í hv. Nd. talað um, að engin gulltrygging mundi vera til í Íslandsbanka. Jeg vil því upplýsa, að hún er til og hefir altaf verið til, og hefir hún verið geymd í Nationalbanken undanfarin stríðsár, en er nú verið að flytja hana hingað upp. Er ekki hægt að senda það alt í einu, en 4 sendingar eru þegar komnar, og verður ekki langt að bíða, að alt sje komið.

Þá var hv. 5. landsk. þm. (JJ) að tala um samninginn milli bankanna, og taldi hann vera leynilegan, og að stjórnin væri annar samningsaðili. Slíkt er alls ekki rjett. Samningurinn er einungis gerður milli Landsbankans og Íslandsbanka og er alls ekki leynilegur. Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) skýrði frá innihaldi hans í hv. Nd. Samningurinn hljóðar svo, að Landsbankinn leggur á hlaupareikning í Íslandsbanka fje það, er hann getur verið án, gegn 3%. Íslandsbanki skuldbindur sig til þess að greiða ávísanir frá Landsbankanum á innieignir hans í Íslandsbanka. Verði hann ekki fær um að útborga þær, getur Landsbankinn snúið sjer til stjórnarinnar og fengið leyfi til þess að gefa út seðla.

Nú er mönnum vitanlegt, að Íslandsbanka er með lögum frá 1921 gert að skyldu að innleysa árlega af sínum seðlum 1 miljón króna. Bankinn hafði seðla í umferð í fyrra minst í mars, 6,3 milj., en mest í fyrrahaust, 8,3 miljónir. Nú hefir hann í umferð 7,3 miljónir, og yrði því í haust 9,3 miljónir, en samkvæmt lögum má hann ekki hafa nema 7 milj. í umferð þá. Nú er ekki meiningin með þessum lögum að girða fyrir það, að nógir seðlar verði til umferðar. Viðskiftalífið krefst þess, að þeir sjeu ætíð nægir. Sje nú svo, að 7 miljónir nægðu, þá verður Landsbankinn að gefa út 1 miljón, þegar Íslandsbanki er kominn niður í 6 miljónir o. s. frv. Það er því ekkert viðsjárvert fyrir landsstjórnina að samþykkja samninginn. Það kom að vísu til tals að takmarka seðlaútgáfuna við einhverja fastákveðna upphæð, en úr því varð þó ekki, enda gerist þess engin þörf, að mínu áliti, því hvað skyldi bönkunum ganga til að fara fram á meira en þörf krefur? Mjer virðist óhætt að trúa bankastjórum beggja bankanna svo, að þeir fari ekki að auka seðlaútgáfuna um þörf fram.