23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3151)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Björn Kristjánsson:

Jeg ætlaði mjer ekki að lengja umræðurnar í þessu máli, en ræða hv. 5. landsk. þm. (JJ) gaf mjer tilefni til þess, þar sem hann var að lýsa stofnun Íslandsbanka í hinni löngu sögu um það, sem vitanlega kom ekki þessu máli við. En áður en jeg fer að minnast á það, vil jeg svara hv. frsm. (EÁ) fáum orðum, af því hann var að kvarta um, að hv. 2. þm. S.-M. (SHK) hefði ekki svarað sjer.

Jeg vil þá fyrst geta þess, að hann færði fram sem aðalástæðu, að mikill meiri hluti kjósenda hefði krafist rannsóknar á bankanum. þetta er ekki rjett. Jeg hefi hjer þingmálafundagerðir úr 13 sýslum, eða frá 36 þingmálafundum, fyrir framan mig, og engin þeirra krefst rannsóknar á Íslandsbanka; þar er á stöku stað krafist af þinginu að sjá um, að veðið sje í lagi.

Þá talaði frsm. (EÁ) um það, að bankinn væri svo samtvinnaður viðskiftalífi þjóðarinnar, að eftirlitsins þurfi að gæta. þetta er rjett. En einmitt þess vegna verður að gera það með gætni, svo að bankinn og atvinnuvegirnir ekki líði við það. Og það má finna fleiri fulltryggar leiðir til þess en beina opinbera rannsókn.

Framsögumaður (EÁ) taldist hafa verið þess fullviss, að þetta rannsóknarmál yrði aðalmál þingsins. Á hverju bygði hann það? Á þingmálafundagerðunum gat hann ekki bygt það. Ætli sannfæring hans í þessu efni hafi ekki fyrst mótast, er hann hitti „Tímaklíkuna“ hjer í höfuðstaðnum ?

Þá kvartaði frsm. (EÁ) um, að vextir væru háir og gengismunurinn mikill. Þetta er rjett. En stafar það ekki af verslunarástandinu yfirleitt í heiminum? Rannsókn á bankanum bætir ekki úr þessu. Ef hagur bankans reyndist slæmur við rannsóknina, mundi það ekki bæta gengismuninn. Og þótt rannsóknin leiddi í ljós, að bankinn stæði vel, þá mundi það heldur ekki bæta gengismuninn, því til þess er bankinn ekki nógu stór nje sterkur. Úr því getur ekkert annað bætt en að vjer flytjum út meira en vjer flytjum inn.

Hv. frsm. (EÁ) taldi þetta sjúkdóm á viðskiftalífinu, sem mætti komast út úr á skömmum tíma, en hann benti ekki á neina leið til að komast út úr þessu, nema þessa rannsóknarleið.

Þá kvartaði hv. frsm. (EÁ) um, að þessi rannsókn væri skoðuð ofsókn. Það er mjög eðlilegt, því hún er ekkert annað, eins og sýnt hefir verið fram á af öðrum. Hann ætlast enn fremur til, að þingmenn beri fult traust til hans og flokks hans í þessu máli, en jeg fæ ekki sjeð, á hverju slíkt traust ætti að vera bygt.

Þá segir hv. frsm. (EÁ) enn fremur, að Íslandsbanka hafi á sínum tíma verið veittur ótakmarkaður og of mikill seðlaútgáfurjettur. Jeg er honum alveg sammála um það, enda mun hann kannast við, að jeg var ekki aftastur í lest inni með að finna að því. En nú er sá tími fyrir löngu liðinn, og síðan hefir einmitt hv. frsm. (EÁ) sjálfur gerst aðalflutningsmaður að frumvarpi, 1921 um seðlaútgáfurjett Íslandsbanka, þar sem seðlarnir voru svo takmarkaðir, að bankanum var skylt að draga inn 1 miljón króna á ári, og kem jeg síðar að því.

Þá segir hv. frsm. (EÁ), að Íslandsbanki hafi lánað mikið til húsabygginga hjer á landi í kaupstöðum. Mjer er persónulega kunnugt um, að bankinn hefir gert lítið að því; slík lán hafa einkum hvílt á veðdeild Landsbankans, eða hvíldu að minsta kosti fram að styrjöldinni og jafnvel til 1918. Og enn fremur segir hann, að fyrsta spurningin, er heim kemur til kjósendanna, verði, hvernig lánin sjeu trygð í Íslandsbanka. Hvernig stendur á því, þegar búið er að sýna fram á, að 13 sýslur, að minsta kosti, hafa alls ekki krafist neinnar rannsóknar? Jeg get skilið, að spurningar um það geti risið upp, í þeim kjördæmum, sem hafa þá menn fyrir þingmenn, er standa allra næst Tímaklíkunni.

Af því svo virðist, sem hv. frsm. (EÁ) muni ekki vel eftir því, sem gerðist á Alþingi 1921, í þessu bankamáli, vil jeg leyfa mjer að rifja upp fyrir honum afskifti þingsins og sjerstaklega Framsóknarflokksins af Íslandsbankamálinu.

Eins og menn muna, var mikið rætt um Íslandsbanka 1921, bæði um seðlaútgáfu hans, sem hann átti þá að fara að takmarka, og hjálp þá, sem þingið vildi veita honum til að komast yfir örðugleikana.

Það var augljóst á öllu því, sem fram fór þá, að Alþingi vildi styðja bankann, svo að hann gæti starfað áfram og veitt þeim atvinnugreinum stoð, sem, fjárhagslega sjeð, bera nú þjóðina langmest uppi. Landsmenn skulduðu bankanum þá um 34 miljónir króna, sem voru óveðtrygðar skuldir, og var því auðsætt, að ef bankinn yrði að hætta starfsemi sinni, þá yrði það svo mikið tjón fyrir landið, að það gæti ekki undir risið.

Þingmenn litu þá líkt á, hvað gera þyrfti til að reisa bankann við, eins og Danir gerðu, er Landmandsbankinn komst í þrot.

Eins og menn muna, vissu allir þingmenn þá, að bankinn mundi bíða allmikið tjón, og því var það, að Framsóknarflokkurinn, ásamt öðrum, bar fram frumvarp um seðlaútgáfurjett Íslandsbanka, sem var breyting á lögum, sem stjórnin bar fram, þess efnis, að heimila Íslandsbanka að hækka hlutafje sitt um 100% og að ríkið skyldi leggja fram hlutafjeð, ef hluthafar Íslandsbanka vildu fallast á það.

Í frumvarpi þessu er ekki ríkissjóði áskilin nein sjerstök trygging eða forrjettindi fyrir hlutafje þessu, en áskilið, að bankinn ætti að vera háður eftirliti tveggja „kritiskra“ endurskoðenda.

Gert var ráð fyrir í frumvarpi þessu, að 5 manna nefnd mæti verð hlutanna, og var það gert, eftir að hluthafar Íslandsbanka höfðu samþykt þetta fyrirkomulag.

Samtímis voru á þinginu samþykt lög, er heimiluðu landsstjórninni að taka lán í því skyni að kaupa hlutabrjefaaukninguna, eða í því skyni að veita bönkunum lán til þess að greiða úr fjárhagskreppunni.

Að lokum var síðar á þinginu ákveðið í seðlafrumvarpinu, að í staðinn fyrir 2 endurskoðendur skyldi stjórnin velja 2 af 3 bankastjórum bankans, og segir svo í því: „á meðan Íslandsbanki hefir á hendi seðlaútgáfu, eða ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum fyrir hans hönd“. Frekari tryggingar krafðist Framsóknarflokkurinn ekki. Og orðin sjálf sýna, að til frekari tryggingar ætlaðist flokkurinn ekki en að hafa yfirráðin í stjórn bankans. Enginn minnist þá heldur einu orði á frekari tryggingu fyrir hlutafjenu eða láni en þessa.

Framsóknarflokkurinn, sem tók að sjer að flytja þetta frv., mintist því alls ekki á neitt veð, hvorki í frumvarpinu nje umræðunum um það nje í umræðunum um lántökuheimild stjórnarinnar. En þetta mun hafa komið til af því, að þingið var að hugsa um það eitt að bjarga atvinnuvegunum frá hruni og þeim, sem skulduðu þessar 34 miljónir króna.

Samt hefir bankinn verið látinn setja veð, þótt Alþingi gerði ekki ráð fyrir því, og mátti telja sjálfsagt, að stjórnin gerði það, að minsta kosti á meðan það skilyrði var ekki uppfylt, að stjórnin skipaði 2 af 3 bankastjórum bankans.

Nú er gamla bankastjórnin farin frá og stjórnin búin að setja 2 bankastjóra í bankann, sem allir ættu að geta borið fult traust til. það má því telja, að skilyrðum Framsóknarflokksins og þingsins sje fullnægt.

Þegar litið er nú til hags bankans sjálfs, þá skyldu menn ætla, að hann sje ægilegur, þegar önnur eins tillaga og þessi kemur fram frá Framsóknarflokknum.

5 manna nefnd sú, sem kosin var samkvæmt lögunum um seðlagáfu Íslandsbanka, lauk við mat sitt í febrúar 1922. Og hún verðlagði hlutabrjef bankans á 91%. Með öðrum orðum, nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að varasjóðurinn yrði að ganga til greiðslu á væntanlegum töpum, og kr. 407372 af hlutafjenu, sem var 4500000 kr. Eftir var þannig óeytt af hlutafjenu kr. 4092628.

Nú hefir bæst við hreinn gróði á árinu sem leið, eftir að hluthöfum hefir verið áætlaður arður 5%, kr. 1157048. Skuldlaus eign bankans ætti þá að vera um 5249000 kr. En það nemur um 749 þús. kr. meira en alt hlutafjeð.

Vel getur verið, að nefndin, sem rann sakaði bankann 1922, hafi reiknað verðmuninn á enska láninu full ríflega, bankanum í óhag, þar sem hún mat sterlingspundið 27 krónur, en lánið á að endurborgast á 30 árum, og kemur þá sá mismunur bankanum til góða. En á þeim tíma hafði nefndin ekki á öðru að byggja en dagverði pundsins þá, miðað við íslenska krónu.

Þessi álitlega upphæð stendur því nú sem trygging fyrir því, að bankinn geti staðið í skilum við alla sína lánar drotna. Og þetta er eign bankans, eftir að búið er að draga frá öll lán, sem telja mátti töpuð eða mjög vafasöm. Íslandsbanki mun því eiga talsvert meiri eign til þess að standast ný áföll en t. d. Landsbankinn.

Þá kem jeg að því, sem jeg í upphafi ræðu minnar vjek að, ósannindum hv. 5. landsk. þm. (JJ), er hann var að skýra frá afskiftum mínum um stofnun Íslandsbanka. Hann gleymdi því ekki, hv. þm. (JJ), að senda mjer tóninn eins og 4. landsk. þm. (JM). það á eflaust að sýna, að jeg sje eitt af mikilmennunum, sem hann þurfi að ryðja úr vegi.

Hann sagði, að jeg hefði viljað leggja Landsbankann niður og veita Íslandsbanka seðlaútgáfu í 90 ár. Þetta er hv. þm. (JJ) búinn að segja tvisvar áður í Tímanum, og hefi jeg mótmælt því opinberlega. En samt verður hann að koma með sömu vísvitandi ósannindin í þriðja sinn, eins og altítt er í Tímanum. En frumvarpið um að leggja Landsbankann niður og veita Íslandsbanka seðlaútgáfu í 90 ár var borið fram á þingi 1899, en þá var jeg ekki kominn á þing. Jeg var fyrst á þingi árið 1901, er frumvarp þetta var borið fram í annað sinn, mjög breytt. Var þá farið fram á að veita seðlaútgáfurjettinn í 40 ár. Jeg skrifaði þá undir það rökstuddasta nefndarálit, sem samið hefir verið síðan jeg kom á þing, og var það í þessu máli, en jeg skal taka fram, að jeg skrifaði það ekki. Frumvarpið, eins og nefndin gekk frá því, er að finna á þingskjali 376 árið 1901. Og tel jeg mjer æru að hafa stutt það mál. í því frumvarpi var lagt til, að seðlaútgáfurjetturinn yrði ekki veittur til lengri tíma en 30 ára, og við Landsbankanum var ekki hreyft. Var þessi bankastofnun upphafið til þess, að atvinnuvegirnir fóru að þróast og vaxa að mun.

Þá vildi hv. 5. landsk. þm. (JJ) gera sem allra minst úr matsnefnd Íslandsbanka og mati hennar, og sagði, að mat hennar hefði verið 91%, en mat brjefa þessara væri þrátt fyrir það 40% eða jafnvel 38%. Á þeim tíma, sem nefndin lagði mat á brjefin, stóðu hlutabrjef Íslandsbanka í um 70% í Kaupmannahöfn. Og þegar gengi íslenskrar krónu var þá um 30% lægra en dönsk króna. Þá munu menn sjá, að eigi munaði miklu á matinu. Og „Börs“-verð er ekki ávalt áreiðanlegt. Það byggist mest á trausti kaupendanna, átilfinningu þeirra, eins og aðrir hafa bent á.

Ekki hafði 5. landsk. þm. (JJ) öllu meira út á mig að setja sem nefndarmann, en að jeg hafi verið „guðfaðir“ Íslandsbanka. Tíðræddast var honum um hagstofustjórann, sem hann taldi hafa verið illa settan, þar sem hann hafi verið mægður fólki, sem hefði stórskuldað í botnvörpuskipafyrirtækjum. Alt auðvitað sagt til að niðra nefndinni og til að gera hana tortryggilega.

Jeg verð því að bera af þessum manni ámæli, sem getur enga vörn sjer veitt, því hann kom heiðarlega fram í alla staði í nefndinni, eins og nefndarmennirnir yfir höfuð. Nefndarmennirnir unnu allir af trú og dygð og vildu síst gera matið hærra en ástæða var til.

Ekki er heldur nein ástæða fyrir hv. 5. landsk. þm. (JJ) að kvarta yfir of miklum gróða hluthafa Íslandsbanka. Mjer hefir verið skýrt frá af nákunnugum manni, að meðaltalsgróði þeirra hafi verið fram að árinu sem leið 6,29%. Og síðasta ár fengu þeir enga vexti og nú í ár munu þeir fá 5%. Þegar nú þess er gætt, að hlutabrjef bankans standa nú erlendis í um 50% og að hlutafjeð samkvæmt því er fallið í verði að minsta kosti um helming, þá sjá allir. hvað gróðinn verður mikill. Enginn útlendingur mundi vilja leggja fje sitt í fyrirtæki, sem gæfi jafnlítinn arð. Og flestir þessir hlutabrjefaeigendur hafa keypt hlutina á 130%, sem gerir tap þeirra enn tilfinnanlegra.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta óþrifamál, en mun greiða atkvæði með breytingartillögunni.