23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Jónas Jónsson:

Jeg varð að nokkru leyti fyrir vonbrigðum vegna þeirra andmæla, sem fram hafa komið gegn tillögunni og fyrri ræðu minni. Á móti henni hafa talað 4 ráðherrar og lítið snert við kjarna málsins. Ekkert litið á, hve mikið böl gengishrunið er nje athugað sök Íslandsbanka í því máli. Þeir hafa ekki viljað viðurkenna hina sögulegu þýðingu málsins, ofurvald hluthafanna yfir þjóðarhagsmununum. Jeg hafði þó áður sýnt fram á, að orsök gengishrunsins er sú, að bankinn hefir ekki getað sint yfirfærslukröfum síðan 1920. Hjá tveimur hv. ræðumönnum kom fram mikill barnaskapur. Þeir töluðu svo mikið um sjálfa sig, bæði hæstv. núverandi og fyrverandi forsætisráðherra. Hæstv. forsrh. (SE) var haldinn af þeim leiða hjegómaskap að halda, að mál, sem snertir fjármálalíf eða dauða borgaranna í landinu og velferð heillar kynslóðar, snúist mest um persónu forsætisráðherrans. Hann leit ekkert á gengishrunið nje önnur vandræði, er af bankanum stafa, virtist sjá málið í gegnum gleraugu valdastreitunnar. Að því leyti á hann sammerkt við hv. 4. landsk. þm. (JM). Báðir halda, að allir sjeu að ofsækja þá, ef menn ekki vilja skríða undir feld dönsku hluthafanna. Hæstv. forsrh. (SE) leit ekkert á vilja almennings um þetta mál, sem borist hefir hvaðanæva utan af landi og er orsök þess, að farið er fram á athugun á fjárhagsaðstöðu Íslandsbanka gagnvart ríkinu.

Sama er að segja um hv. 4. landsk. þm. (JM). Það getur vel verið gaman fyrir hann að tala um sjálfan sig og hversu mikill píslarvottur hann hafi verið. En í eyrum annara er það blátt áfram broslegt hjegómatal í jafnalvarlegu máli eins og þessu. í augum almennings eru persónuþægindi þessara manna ekki talin með þjóðmálunum.

Þá vík jeg að ræðu hæstv. forsrh. (SE). Hann kallaði starf bankanefndarinnar sælu frá 1921 þingmannarannsókn. Þetta er ekki rjett. Í nefndinni var aðeins einn þingmaður, og hæstv. forsrh. (SE) studdi ekki sjálfur nefndarkosninguna, af því hann vissi þá, að hún var bygð á heimskulegum, ef ekki skaðlegum grundvelli. Hann hlýtur því að hafa skift um skoðun síðan. Hann bygði á því, að tap bankans gæti ekki verið meira en nefndin gerði ráð fyrir. Hvaða rök eru færð fyrir því? Og hvernig fór um samskonar mál í Danmörku? Sá maður, sem fyrst áætlaði bankatapið, naut þar fylsta trausts og hafði aðgang að öllum heimildum, áætlaði það 25 miljónir króna. En tap Landmandsbankans varð margfalt hærra, ca. 300 milj. kr.

Hæstv. forsrh. (SE) vildi byggja á niðurstöðum nefndarinnar, sem eru alveg ósannaðar, og hið sama kom fram hjá hv. 4. landsk. þm. (JM).

Nú er sífelt hrun hjer í bænum og gjaldþrot kaupmanna og útgerðarbraskara svo að segja daglegir viðburðir. Og ómögulegt er að segja um, hversu mörg fyrirtæki verða lömuð eða fallin eftir 2–3 ár. Mjer er kunnugt um stóráföll hjá mönnum, sem ekki hafa verið álitnir tæpir, og altaf er verið að nefna nýja menn, sem standi höllum fæti eða sjeu gjaldþrota.

Þá var hæstv. forsrh. (SE) að tala um, að þingmenn mundu ekki geta rannsakað tryggingarnar. En hvers vegna er þá svona óttalegt að lofa þingmönnum að sjá heimildirnar? Þeir eru þó fulltrúar þeirrar þjóðar, sem fær að lána bankanum fje, svo að hann geti lifað.

Svo kemst hann að þeirra undarlegu niðurstöðu, að alt sje í góðu lagi í bankanum, af því að bankastjórnin hafi sagt það, og enn fremur, að skýrsla nefndarinnar væri rjett og samboðin þinginu. Það kann að vera, ef það væri eins skipað og hv. 4. landsk. þm. (JM) lýsti, nefnilega, að enginn í Framsóknarflokknum og engir í fjárhagsnefnd hefðu minsta vit á bankamálum.

Þá er það ávísunin frá í desember í vetur. Jeg hefi fylstu og áreiðanlegustu heimildir fyrir því, að bankinn gat ekki innleyst hana. Enda skal það sannast, og er jeg ekki hræddur við að hleypa því lengra. (Forsrh. SE: Bækur bankans). Mig grunar, að hæstv. forsrh. (SE) hafi loðnar heimildir, enda vitnaði hann aðeins til lauslegrar umsagnar eins bankastjórans í Íslandsbanka.

Hæstv. forsrh. (SE) hjelt því fram, að landinu kæmi ekki við lántaka Íslandsbanka hjá Landsbankanum, og að Íslandsbanki hefði ekki átt upptökin að henni. En nú er það öllum vitanlegt, að hann vantaði fje og óskaði eftir láninu.

Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa það, sem Eggert Claessen bankastjóri segir í Alþýðublaðinu í dag:

„Í síðastliðnum mánuði varð um nokkra daga skortur á rekstrarfje til botnvörpunganna. Síðan úr þeim hnút varð leyst með samningi milli bankanna, samþyktum af landsstjórninni, hefir ekki mjer vitanlega skort rekstrarfje“.

Það, sem jeg hefi sagt, er í fullu samræmi við yfirlýsingu bankastjórans, og ekki er hægt að neita því, að hópur af þingmönnum fór upp í stjórnarráð til að sjá lánsskjölin, en varð litlu nær. Það þýðir ekki heldur að telja þetta innlán. Íslandsbanka vantaði peninga til að gera út togarana; Landsbankinn lánaði þá, og stjórnin lagði blessun sína yfir samninginn og gerði um leið merkilega ákvörðun um seðlaútgáfuna, sem mun ganga í þá átt að gefa Íslandsbanka aftur ákvörðunarrjett um seðlamagnið.

Það er enginn minsti vafi á því, að Íslandsbanki hefði verið í stórum vandræðum með að greiða skuldir sínar, ef hann hefði ekki fengið þessa miklu hjálp, og tel jeg það ekki óeðlilegt. En þetta verða menn að vita og skilja, og þýðir því ekki að vera að telja fólki trú um annað en það, sem satt er, þótt það kunni að lækka kambinn á hluthöfunum.

Mikið af vandræðum bankans stafar af því, að hann hefir vantað greiðslufje, enda er það eðlilegt, sökum inndráttar á seðlunum, í viðbót við hin miklu töp. Um síðastliðin áramót var bankinn næstum seðlalaus, eins og hæstv. forsrh. (SE) sjálfsagt veit.

Það merkilegasta við ræður þeirra hæstv. forsrh. (SE) og hv. 4. landsk. þm. (JM) var einmitt það, sem þeir sögðu ekki. Þeir fóru sem mjúklegast fram hjá veiku punktunum í gerðum sínum í bankamálunum, og skal jeg nú rifja nokkuð af því upp.

Hæstv. forsrh. (SE) skýrði ekki frá því, er hann tók undir sig yfirráð bankanna seint á síðastliðnu sumri. Sömuleiðis vildi hann lítið tala um vanræksluna að skipa bankastjórana. Í tvö skifti játar hann að hafa farið í mikilsverðustu atriðum eftir vilja erlendu hluthafanna, eins og hann var túlkaður af þeirra manni í bankanum, og bendir það á það, sem jeg hefi sagt, að viljinn er meiri til þess að gera eins og þeim þóknast, en ekki að vilja þingmanna nje þjóðarinnar. Hann hefir ekki verið sjerlega bónþægur við aðra en hluthafana.

Þá hefir hæstv. forsrh. (SE) ekki skýrt frá því, hvers vegna hann ljet undir höfuð leggjast að gera skyldu sína Hann svaraði með tómum ónotum, þegar spurt var um, hvers vegna bankastjóraembættin í Íslandsbanka væru látir vera óveitt.

Viðvíkjandi Tofte bankastjóra er það að segja, að jeg trúi því vel, að hann hafi notið trausts erlendu hluthafanna. Að minsta kosti hafði hann traust Clausens í Privatbankanum, og er það naumast þakkarvert, þar sem Tofte borgaði þeim banka síðari hluta árs 1920 með nálega öllum gjaldeyri sínum erlendis, en ljet póstávísun landsins standa ógreidda. En þess vegna er miklu síður ástæða fyrir Íslendinga að láta sjer líka vel við hann og ráðsmensku hans.

Þá kem jeg að þeirri margtilvitnuðu blaðagrein, þar sem hæstv. forsrh. (SE) þótti sjer vera misboðið með því að minnast á Gissur Þorvaldsson í örlygsstaðabardaga, og jeg veit vel, að hæstv. forsrh. (SE) er þar ekki jafnfávís og hann lætur. Hann veit vel, hvaða frjettir bárust um þetta gegnum sendiherra Dana, að aðflutningsbannið mundi verða afnumið hjer mótstöðulítið. Það er rangt af hæstv. forsrh. (SE) að hugsa eða álíta, að rjett hafi verið að tala svona um þetta mál erlendis. Hitt er nokkuð annað mál, að greiða atkvæði sem þm. með undanþágunni hjer heima: það er annað mál, þótt slæmt sje. Þessi framkoma ráðherrans í bannmálinu hefir valdið sársauka hjá mörgum hjer heima. Það er nógu gremjulegt að þurfa að taka því þegjandi, að Spánverjar skuli kúga okkur til þess að breyta landslögunum, þó að ekki sje verið að þvaðra um það erlendis.

Það hefir ekki verið sagt um hæstv. forsrh. (SE), að hann væri líkur Gissuri. Ef hann væri eins vel að sjer í sögu Sturlunga, eins og mjer er sagt að hv. 4. landsk. þm. (JM) sje — því hann mun hafa kynt sjer rækilega hinar pólitísku siðgæðisfyrirmyndir þeirrar aldar — þá mundi hann vita, að Gissur var einn mesti gáfumaður, sem verið hefir hjer á landi; og ýmsir sagnfræðingar nú á dögum eru þeirrar skoðunar, að Gissur hafi verið einn af okkar mestu stjórnmálamönnum, enda varð hann jarl, þótt ekki fengi hann danska stórkrossinn eða Lasarusarorðuna. Samlíkingin laut að því, þegar Gissur hoppaði upp, yfir föllnum óvin, í örlygsstaðabardaga. Núverandi forsrh. (SE) þótti hafa verið í óþarflega miklum sigurhug, er hann var að molda bannið ytra.

Jeg hleyp nú yfir margt, en þó verð jeg að minnast á hinn prestlega blæ, sem var yfir ræðu hæstv. forsrh. (SE). Maður gat stundum verið í vafa um, hvort þar talaði prestur eða ofurlítið ljóðskáld, svo var hann háfleygur.

Jeg rakti samanburð bankanna og lýsti rjett gangi Íslandsbankamálsins, svo að hæstv. forsrh. getur ekki með skáldskap sínum sannað, að jeg hafi talið stjórn bankans „kriminella“. Jeg hefi aldrei sagt, að bankastjórnin hafi framið nokkuð glæpsamlegt, þó að eitthvað slíkt kunni að hafa orðið hjá undirmanni hennar í bankanum. En þjóðin líður mikið fyrir fáfræði og bögubósalega stjórn á bankanum. Heimskan er ekki glæpur. En afleiðingar hennar eru oft þungbærar fyrir einstaklinga og þjóðir.

Andstæðingar mínir beita sjer fastlega á móti rannsókn á bankanum, en hafa lítið nema svívirðingarorð fram að bera því til andmæla, eins og komið hefir frá hv. 2. þm. S.-M. (SHK), og þó öllu ósæmilegar frá hv. 4. landsk. þm. (JM). Það er hart um þann hv. þm., sem lengst af hefir setið í bankaráði Íslandsbanka síðan 1917, — lent þar í mestu vandræðunum, og ber því siðferðislega ábyrgð á óförum bankans —, það er hart, segi jeg, að hann skuli hafa þá djörfung að koma hjer inn á þing, tala um þetta mál eins og hann hefir gert og bera fram niðrandi ummæli um stærsta flokk þingsins, fyrir að framfylgja sjálfsagðri kröfu þjóðarinnar. Fortíð þessa ræðumanns ætti að loka munni hans við umræður eins og þær, sem hjer fara fram.

Hverjir eru það, sem spilla mest fyrir Íslandsbanka? þeir, sem mæltu á móti athugun á bankanum, sem ráðgert var að gera í kyrþey. Hinar löngu umræður um þetta mál eru þeim að kenna, sem vilja tálma rannsókninni, og nefni jeg þar til, meðal annara, hæstv. forsrh. (SE) og hv. 4. landsk. þm. (JM).

Sjóðþurð. það er gott og blessað, þegar búið er að tapa miklu fje, þá eigi sökudólgarnir að vaða uppi með drýldnar skammir til þeirra, sem voga sjer að tala um stjórnleysið og glapræðin í rekstri almennra fyrirtækja. Jeg er ekki harðhjartaðri en hver annar. En það er næstum daglegur viðburður í hverju menningarlandi, að menn sjeu dregnir fyrir lög og dóm fyrir ávirðingar, sem þeir fremja, stundum í ölæði. Og slíkt mega mæður og námenni þeirra þola. Jeg veit, að hæstv. forsrh. (SE) er svo fær í skáldskap, að hann þekkir kvæðið Rispa eftir Tennyson.

Jeg hagaði varlega orðum um þetta mál í fyrri ræðu minni, enda veit jeg ekki einu sinni, hvaða maður það er í Íslandsbanka, sem valdur er að þessari sjóðþurð, og held það sje einmitt slæmt, að það hefir ekki komist upp, vegna þess manns, sem bar ábyrgðina formlega, en sem enginn getur sannað, að sje í raun og veru sekur.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. 4. landsk. þm. (JM) sje svo vel að sjer í bankafræði — þótt sagan gefi honum ef til vill ekki sem bestan vitnisburð í því efni — að hann sjái, að ef hluthafar bankans hefðu verið látnir bera ábyrgð á tapi bankans, þá hefði verið hægt að hafa vextina mun lægri nú. En það er sýnilegt, að verið er að reyna að bjarga hluthöfum bankans frá fjárhagslegum halla, með því að hafa vextina sem hæsta. En það eru hluthafarnir, sem gegnum sína trúnaðarmenn bera ábyrgð á tapi bankans, enda mega vextirnir lengi vera háir, ef með þeim eingöngu á að vinna upp tjónið, en láta það að engu bitna á hluthöfunum.

Þá verð jeg að leiðrjetta það, sem hjer hefir verið sagt, að hv. þm. V.-Sk. (LH) hafi á fundi í Nd. haldið því fram, að hæstv. fjrh. (MagnJ) hefði ekki talið sig hafa haft aðgang að veðinu. En þetta mun ekki rjett hermt, heldur mun hann aðeins hafa átt við bækur bankans. Jeg vildi leiðrjetta þennan misskilning áður en hann fer lengra.

Þá er það sálfræðilegt atriði um málflutningsmenn, að þeim verði ant um skjólstæðinga sína. Hvort þetta er staðreynd, skal jeg ekki fullyrða, en þykir það mjög líklegt, að slík viðkynning geti skapað tiltrú. Jeg hefi raunar lítið átt við málfærslumenn um dagana, og get því ekki dæmt um þetta af eigin reynd. En jeg þekki það frá öðru sambærilegu. Mjer er t. d. vel við lækna, raunar alla, en þó sjerstaklega þá, sem jeg hefi leitað til og mjer hafa hjálpað í veikindum. Og lætur það að líkum, að svipað sje því farið með málfærslumennina. Og hafi svo málfærslumaður verið hjálplegur við það að stofna eitthvert fyrirtæki, þá er það ekki aðeins óeðlilegt, heldur gæti það talist miskunnarlaust að ganga mjög hart að því, ef í harðbakka slægi. Jeg held því, að hr. Eggert Claessen hafi hlotið að hafa föðurlegar tilfinningar gagnvart ýmsum af þeim fyrirtækjum, er nú skulda bankanum mikið. Þetta er eðlilegt, en ekki heppilegt frá almennu sjónarmiði. Faðir mundi t. d. eðlilega taka vægara á barni sínu en öðrum þeim, sem hann ætti jafnmiklar sakir við.

Oft er búið að taka það fram, að Tofte bankastjóri hafi ekki farið úr stöðu sinni í ónáð. Nei, það er öðru nær. Hann fekk 70 þús. kr. danskar til fararinnar, og verður því ekki annað sagt, en að landið hafi skilið vel við hann. Þá er í þessu sambandi verið að tala um það að landið verði að standa við gerða samninga. Auðvitað. Landið á að efna alla samninga við Íslandsbanka, en bankinn er undanþeginn því að efna samninga sína við landið.

Þá kem jeg að yfirfærslunum. Jeg býst ekki við, að nokkurn tíma hafi fjárhag Íslands verið verra gert til en þegar ávísanirnar voru látnar falla og bankinn stóð ekki við yfirfærslurnar. Það kom líka glögglega í ljós, hve mikið dálæti sumir hv. þm. hafa á Dönum, því svo virðist, sem dálítið af heiðurslaunum Tofte hafi verið þóknun, til þess að styggja ekki lánstraustið hjá dönsku mömmu. Hefi jeg áður vikið nokkuð að því atriði.

Jeg ætlaði ekki að fara að draga dána menn inn í þessar umræður. Og mjer þykir leiðinlegt, að hæstv. forsrh. (SE) skyldi gera það. Ekki var heldur allur sannleikur sagður um afstöðu þessa látna heiðursmanns, forstjóra Sambandsins, til þessa máls, sem hæstv. forsrh. (SE) talaði um í dag. Það er raunar satt, að fyrir honum var það ekki aðalatriðið, með hvaða kjörum Tofte vjek úr bankastjórastöðunni, heldur hitt, að Íslandsbanka yrði sem fyrst komið í lag og nýtir menn yrðu fengnir til að veita honum forstöðu.

Þá mintist hæstv. forsrh. (SE) á það, að Tofte hefði verið stöðvaður á sinni braut og orðið að fara úr stöðu, sem hann hefði haft fulla ástæðu til að ætla, að hann mundi halda. En hver var það, sem stöðvaði Íslandsbanka á sinni braut? Og Tofte hefði áreiðanlega ekki verið stöðvaður, ef hann hefði ekki fyrst verið búinn að stöðva bankann.

Jeg nefndi í þessu sambandi I. C. Christensen. Hann varð að líða fyrir það, sem samherjar hans gerðu rangt. Tofte varð að líða fyrir það, að hann og bankinn gerðu rangt. Og það minsta, sem hann gat gert, var það að hverfa úr stöðu sinni slyppur og snauður. Má minna enn á í því sambandi, að Landmandsbankastjórarnir leggja nú laun sín í það að endurgreiða tap bankans. Óneitanlega er þar dálítið annað en það, sem hjer er gert.

Þá var það veiting bankastjóraembættanna. Jeg efast ekki um, að það sje erfitt verk, enda hefir hæstv. stjórn gengið það æðiseinlega. Er meira en ár liðið frá því, að það var beinlínis formleg skylda, og þó ekki búið að veita embættin enn. Líklegast þætti mjer, að útnefningin kæmi ekki fyrri en við dyrnar hjá Sankti-Pjetri.

Þá kom það fram, að bankastjórinn í Íslandsbanka, sá, sem hluthafarnir kusu, væri mjög ánægður með hina settu meðstjórnendur sína. Því get jeg líka vel trúað; þeir eru myndarmenn og hluthafarnir hafa í rauninni sett þá sjálfir. En gallinn er sá, að þeir geta ekki eðlilega neytt sín til hálfs, á móts við það, ef þeir væru skipaðir.

Hæstv. forsrh. (SE) vjek líka að því, að mjer væri það óttaefni, ef hann yrði bankastjóri. Þann hugsanagang fæ jeg ekki skilið. Bæði er það, að jeg hefi lítið skift við Íslandsbanka hingað til, og býst við, að svo verði einnig eftirleiðis, og svo í annan stað geri jeg ekki ráð fyrir, að hann tæki ver á móti mjer en öðrum, og hygg yfirleitt, að hann mundi koma góðmannlega fram við viðskiftamenn bankans. Nei! það, sem mjer finst óttalegt, er það, að ef hann, eftir að hann er búinn að taka við stjórninni til þess að bæta bankann, losna við bankastjórana með hneykslanlegum samningum, búinn að taka veitingarvaldið í sínar hendur með ráni og ofbeldi, og setja síðan menn í embættin, ef til vill missirum saman, þjóðinni til skaða, — ef hann, eftir alt þetta, ætlar sjer að fara inn í bankann með 25000 kr. launum, þá álít jeg, að slíkt sje pólitísk spilling á háu stigi. Jeg vona, að öllum skiljist, að það er ekki maðurinn, heldur aðferðin, sem jeg er að „kritisera“. Jeg þekki hæstv. forsrh. (SE) sem meinhægan mann, og mjer þykir leitt, ef hann endar sína pólitísku braut á þennan hátt, með meiri háttar hneyksli. Og jeg veit, að honum muni þykja vel farið að fá tækifæri til þess nú að lýsa yfir því, að þetta sje ekki hans ætlun.

Þá mintist hann á, að jeg hefði búið mjer hæga sæng hjá kaupfjelögunum. Jeg bý við svipuð kjör og aðrir skólar bjóða, nema að það er hægt að segja mjer upp með dagsfyrirvara, og það sama get jeg gert. En það er mjer ekki kvíðaefni. Miklu fremur get jeg verið ánægður yfir því, að flokksbræður mínir kunna mjer þakkir fyrir starf mitt, og það eru ekki aðrir en andstæðingar mínir, sem eru óánægðir með mig, og verð jeg að segja, að jeg tek alt slíkt sem meðmæli. Öll hræðsla þeirra við samvinnuskólann stafar af því, að þeir vita, að jeg muni gera samvinnufjelögunum gagn, og það ekki lítið, ef marka á af hvalablæstri kaupmannanna. Líka get jeg gefið þær upplýsingar, að jeg hefi nokkrum sinnum líka átt kost á smávegis vegtyllu og bitlingum fyrir þátttöku mína í stjórnmálalífinu. En jeg hefi ekki notað mjer það, og óska af heilum hug, að hæstv. forsrh. (SE) falli heldur ekki fyrir slíkum freistingum, og að hann taki aldrei að sjer störf, sem hann er miður fallinn til heldur en jeg að vinna fyrir samvinnufjelögin.

Um bankaumsjónarmanninn fyrirhugaða ætla jeg ekki að tala nema frá einni hlið. Jeg hefi nefnilega oft látið það í ljós, að jeg skildi ekki, hvað ræki þá stjórn, sem lætur standa opin tvö embættin við bankann, til þess að fara að stofna nýtt yfirembætti til að líta eftir þeim ófæddu. Mjer finst ofureinfalt mál að nota fyrst þessi tvö embætti og sjá svo til, hvort yfirmann þyrfti til að hafa umsjón og gætur á þeim, sem í þau væru skipaðir. Líka er það vanhugsað að ætlast til, að þessi bankaumsjónarmaður líti eftir sparisjóðunum úti um landið. Það má gera ráð fyrir, að roskinn maður eða fullorðinn verði látinn hafa þetta embætti á hendi, og þá engin leið að ætlast til, að hann geti lagt á sig öll þau ferðalög, sem slíkt yfirlit krefði. En úr því jeg er farinn að minnast á sparisjóðina, þá get jeg ekki látið það vera óvítt, að stjórnin skuli enn ekki hafa rannsakað sparisjóðinn á Eyrarbakka. Þar mun þó ekki vera alt með feldu, enda vilji þeirra, sem fyrir sjóðnum hafa staðið, að slík rannsókn fari fram. Og hvers vegna þá ekki að gera það og reyna svo að hjálpa honum? Má ekki rannsaka hann, fremur en fóstruna, hlutabankann?

Hæstv. forsrh. (SE) endaði á því, að tíminn væri orðinn svo naumur, að öll rannsókn á hag Íslandsbanka fyrir þinglok mundi reynast ókleif og árangurslaus. það er gott að geta sagt þetta, eftir að búið er margsinnis að taka málið af dagskrá og tefja fyrir því á allan hátt. Fyrst verðum vjer að bíða í viku eftir því, að hæstv. forsrh. (SE) þóknaðist að kalla saman fund, og hverjir áttu sök á því, að þegar á fundinn kom, skyldi þriðji hluti þm. ganga af fundi og neita að taka þátt í friðsamlegum umræðum um málið? Jeg geri nú samt sem áður ráð fyrir, að verði nefnd kosin í báðum deildum, sem athugi fjárhag bankans, lán hans og þau veð, er að baki liggja, þá muni sú rannsókn ekki verða að minsta kosti ónákvæmari en sú, sem hv. þm. Dala (Bjarni Jónsson frá Vogi) gerði um bankann, sællar minningar.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. atvrh. (KlJ), þá þarf jeg ekki að svara mörgu í henni, enda var hún aðallega sögulegs efnis og flest í henni samhljóða því, sem jeg hefi áður sagt. Það er ekki rjett, að jeg hafi talað um það, að mjer fyndist eðlilegt, þótt landsmenn hefðu lagt kapp á að fá veltufje inn í landið, en hitt taldi jeg misráðið, að fá það ekki fremur að láni handa Landsbankanum. Og sannast að segja eru margar ræður í þingtíðindunum frá árunum 1899 og 1901 æðiógætilegar, þótt jeg geti sagt hæstv. atvrh. (KIJ) það til heiðurs, að þar er ekkert eftir hann, sem sýni gapaskap í þessum efnum, eða annað verra. Og jeg vil taka það fram, að ýmsir greindir menn, sem sátu þá á þingi, hafa játað, að þeir sjái eftir gálauslegri framkomu sinni í þessu alvörumáli.

Þá vil jeg snúa mjer næst að hv. 4. landsk. þm. (JM). Jeg hefði nú búist við betri ræðu frá hans hendi; bæði var hún sundurlaus, utan við efnið, og þar á ofan krydduð með ýmsum fáránlegum vitleysum. Hann leyfir sjer að kalla það loddaraskap, þótt sumir þingmenn sjeu svo gerðir, að þeir vilji eitthvað vita um fjárhag stofnunar, sem hefir til umráða 10 milj. kr. frá ríkinu og þar á ofan um 7 milj. í seðlum, ekki síst þegar það er öllum kunnugt orðið, að þessi stofnun er þráfaldlega í megnustu vandræðum, eins og þegar enska lánið kom. Og ekki gat bankinn heldur í vetur komist af án þess að fá lán hjá Landsbankanum. það er nokkurn veginn víst, að landið hefir aldrei, fyrir nje eftir daga Gissurar þorvaldssonar, lánað einni stofnun jafnmikið fje. Því er það vægast sagt nokkuð mikil bíræfni að nefna það loddaraskap að vilja fá einhverja vitneskju um trygginguna fyrir slíku láni. Mundu þeir ágætismenn, sem þing sátu fyrir aldamótin, Grímur Thomsen, Arnljótur Ólafsson, Magnús Stephensen, dr. J. Jónassen o. fl., hafa leyft sjer að fara niðrandi orðum um þá viðleitni, eins og þeir litu á fjárhag landsins?

Svo er talað um, að þetta sje gert til að nota málið undir kosningarnar. Jeg býst við, að undirtektirnar ráði mestu um það. Og verði málið felt hjer í kvöld, eins og gert var í Nd., finst mjer ekki ólíklegt, að einhversstaðar verði á það minst á kjörfundum. Og verði mál þetta kosningamál, mega þeir sjálfum sjer um það kenna, sem vefja vilja Úlfhjeðni að höfði kjósendum um alt, sem snertir Íslandsbanka.

Þá var sami hv. þm. (JM) að dylgja um það, að jeg hefði talið mig mundu verða voldugan mjög eftir næstu kosningu. Jeg hefi aldrei látið neitt í ljós um þetta. En mjer finst hjer vera farið svo laglega af stað á skáldskaparbrautinni, að vert væri, að hæstv. forsrh. (SE) Ijeti ræðumann fá einhvern lítinn skáldastyrk, t. d. á borð við minstu söngnemana. Mjer finst þessi byrjun hans lofa svo góðu.

En hver verður svo útskýringin á tapi bankans og gróða? Og í hverju liggur það, að halli Landsbankans er svo miklu minni en Íslandsbanka?

Ætli það hefði ekki verið heppilegra, sem jeg stakk upp á 1916, að landið ætti bankann, og hagsmunir þess hefðu verið látnir vera í fyrirrúmi fyrir hagsmunum hluthafanna? En í stað þess eru hagsmunir hluthafanna látnir ráða, bæði með laun bankastjórnarinnar og enn fremur hvernig bankinn var rekinn.

Þá þótti mjer undarlegt, hve lítið hv. 4. landsk. þm. (JM) vildi gera úr tekjum bankaráðsmannanna, því að hann sagði, að í sinni tíð hefðu þær verið 1900 kr., sem þeir fengu allir. En mjer var kunnugt um, að sumir þeirra höfðu þó kringum 10 þús. Hefir hann því verið illa afskiftur, ef hann hefir ekki fengið meira en hann sagði. Annars reyndi hv. þm. (JM) ekki að hrekja það, að rjett væri, að fje þessu væri skilað aftur. Var slíks von af þessum hv. þm., því að hann er svo lærður í danskri pólitík, að hann veit, að fordæmi eru fyrir því þar.

Þá kom það fram, að Tofte bankastjóri hefði haft um árið 80 þús. króna tekjur, sem sje 20 þús. króna laun og 20 þús. í dýrtíðaruppbót, og auk þess 40 þús. kr. ágóðahluta. Og í tilefni af því vil jeg minna hæstv. forsrh. (SE) á, að hann á enn þá ósvarað fyrirspurn um það, hve mikil laun og ágóðahluti bankastjórnarinnar hafi verið öll stríðsárin; og jeg spurði af því, að jeg álít sjálfsagt, að því fje sje skilað aftur til stofnunarinnar. Er jeg því í fylsta máta óánægður yfir því, að hæstv. stjórn skuli ekki sjá sjer fært að svara fyrirspurn þessari, enda mun þessi dráttur stafa af óverjanlegu meðhaldi með hluthöfunum.

Annars er óánægja þjóðarinnar mest yfir því að láta þetta útlenda gróðafjelag fara gálauslega með fje landsins. Og að tap bankans skuli ekki vera látið koma niður á hluthöfunum, heldur á þjóðinni sjálfri, með hinum geysiháu vöxtum, sem bankinn hefir tekið nú að undanförnu. Alveg hið sama á sjer nú stað í Danmörku; það er danska þjóðin, sem ber ábyrgð á því, sem Landmandsbankinn hefir tapað og tapar nú á næstu árum. Er því ekki djúpsæ bankaþekking hjá þessum mönnum, er altaf bera skjöldinn fyrir Íslandsbanka, því að ef rjett hefði verið að farið, þá ættu hluthafarnir að vera búnir að tapa af hlutum sínum í bankanum. En íslenska þjóðin ætti að hafa enska lánið til annars en að hjálpa gjaldþrota útvegsmönnum.

Jeg ætla ekki að vera með neinar dylgjur um hv. þm. Dala. (BJ), út af skýrslu hans, eins og hv. 4. landsk. þm. (JM) virtist vera, því að jeg er eindregið þeirrar skoðunar, að hún hafi verið gefin í góðri trú, en samin af dæmalausri fáfræði og skeytingarleysi. Annars var það gott, að það upplýstist, að hv. 4. landsk. þm. (JM), þáverandi forsætisráðherra, hefði beðið tvo menn um að rannsaka hag bankans, og að annar þeirra hefði ekki viljað gera það. Var verkið því framkvæmt af hv. þm. Dala. (BJ), og árangur þess var hin nafntogaða skýrsla. Er ekki annað að sjá, en hv. 4. landsk. þm. (JM) sje mjög ánægður með hana, þó að alment sje hlegið að henni og hún, eins og áður er sagt, sje eitt hið auðvirðilegasta þess háttar plagg, sem samið hefir verið í heiminum. Jafnvel sjálfur höfundurinn er farinn að verða efablandinn um ágæti hennar. Skal jeg því ekki vera að draga úr ánægju hv. þm.

Þá var skýrslan um töpin á togurunum dálítið undarleg, þar sem Íslandsbanki beit á agnið, þegar kaupendur voru búnir að sigla öllu í strand og borga út 3–4 hundruð þúsund fyrir hvern togara. En togararnir kostuðu 6–7 hundruð þúsund krónur hver, en standa nú í 200 þús. krónum. Er slíkt bankavit sem þetta sem betur fer ekki til hjá öðrum en hv. 4. landsk. þm. (JM) og hans líkum, svo og fyrverandi stjórn Íslandsbanka. Hefi jeg því alveg sömu skoðun á henni og hennar fyrverandi yfirmanni, hv. 4. landsk. þm. (JM), eins og hann segist hafa á fjárhagsnefndum þingsins og Framsóknarflokknum.

Þá er það athugandi, hve klóklega hluthafarnir hafa komið ár sinni fyrir borð, þegar skipulagsskrá bankans hefir verið samin. Fyrst og fremst með því að láta forsætisráðherra landsins vera formann í bankaráðinu, og láta hann jafnframt hafa bitling, og í öðru lagi með því að láta þrjá menn úr þinginu vera í bankaráðinu og láta þá einnig hafa bitlinga. þessir menn eiga svo aftur vini og kunningja, sem fylgja þeim að málum, enda hefir sú raunin orðið á, að enginn af þessum bankaráðsmönnum, nema einn, hafa haldið sannfæringu sinni gegn bankanum; og gamlir bankaráðsmenn hafa meira að segja líka slegið á trumbuna og gengið inn í hringinn. Einnig fengu á fyrstu árum bankans ýmsir helstu menn landsins keypta hluti í bankanum. Sitja væntanlega einhverjir hjer inni, sem bergt hafa á þeim kaleik.

Af þessu öllu hefir aftur leitt það, að altaf hefir töluvert af broddborgurum landsins staðið eins og múrveggur kringum bankann. Verð jeg því að undirstrika það, að þetta fyrirkomulag hefir orðið að þjóðaróláni, sjerstaklega að því leyti, að hægt hefir verið að troða bitlingum upp á forsætisráðherra landsins, og jafnframt að hægt hefir verið að láta þau bein ná til sumra þingmannanna. Þess vegna eru þjóðarhagsmunirnir oft svo ljettir á metunum, þegar hluthafar eru annars vegar.

Þá vildi hv. 4. landsk. þm. (JM) bera brigður á, að það hefði spilt fyrir Landsbankanum, er Íslandsbanki hætti að innleysa seðla sína. En það vildi svo vel til, að jeg var þá staddur ytra, og hitti einn af bankastjórum Landsbankans, sem sagði mjer, að hann hefði verið kominn í samninga um lán fyrir bankann á Englandi, en það hefði alt farið út um þúfur, er Íslandsbanki gerði seðla sína óinnleysanlega.

Út í umræður um fjáraukalögin fyrir 1920 og 1921 skal jeg ekki fara nú, en er alveg hissa á, hve hv. 4. landsk. þm. (JM) er ánægður með sjálfan sig, og er því líklega tæplega gustuk að hrella hann með því að segja honum, að úti um land er lítil ánægja með sparsemi fyrverandi stjórnar, og jeg býst við, að hefði fyrverandi fjrh. (MG) einnig verið ánægður með hana, þá hefði hann lagt fjáraukalögin fyrir þingið í fyrra, en ekki látið geyma þau til þessa árs.

Þá var hv. 4. landsk. þm. (JM) ánægður með enska lánið, en gaf þó engar skýringar um þær 100 þús. kr., sem taldar eru hafa farið í milliliði.

Hvað snertir veðsetningu tollteknanna, þá er jeg, sem einn af eigendum „Tímans“, stoltur af því, að einn af helstu fjármálamönnum erlendrar þjóðar skuli hafa sagt, að þær hlytu að vera veðsettar, úr því að það stæði í Tímanum. En þá er um leið dreginn heiður af öðru dagblaði hjer í bænum, sem hjelt því sama fram.

Þá var það ekki rjett hjá hv. þm. (JM), að farið væri út fyrir efnið, þótt minst væri á enska lánið, því að það var tekið til þess að bjarga Íslandsbanka; er því full ástæða til, að þjóðin vilji fá að vita um tryggingarnar, sem bankinn hefi? sett fyrir því.

Út af veðsetningu tollteknanna vil jeg benda hv. 4. landsk. þm. (JM) á eitt lítið dæmi. Setjum þá svo, að hann fari ofan í Landsbankann og vilji fá lán, en bankastjórnin segi: „Við lánum ekki“. En þá bjóði þingmaður húsið sitt í veð, og fái því lánið. Er húsið þá sem baktrygging fyrir láninu. Og getur þá hv. þm. (JM) fundist, að hann sje eins frjáls að gera með það hvað sem hann vill, eins og áður? Jeg segi nei. Alveg eins er með enska lánið. Tolltekjurnar voru settar sem baktrygging, af því að hin tryggingin þótti ekki nógu örugg. Það, sem því Englendingar meintu, var það að geta gengið að tolltekjunum, ef vanskil yrðu á greiðslum.

Það var gott hjá hv. þm. (JM), er hann mintist á þá gulu, og hann var ánægður með, að hafa sett þjóð sína á bekk með þeim. En jeg fyrir mitt leyti vildi heldur vera eins og við vorum 1917, en vera kominn í slíkt öngþveiti, sem við erum nú komnir í út úr enska láninu. Því að jeg hefi aldrei haft neina sjerstaka aðdáun á fullveldinu, og allra síst eftir að þetta enska plagg kom til sögunnar, sem fjötrar þjóðina með þungum hlekkjum.

Þá fór hv. þm. (JM) hörðum orðum um einkafundinn, og skil jeg það vel frá hans sjónarmiði, því að hann og hans fylgifiskar vilja helst ekkert láta þjóðina vita um Íslandsbanka, eða hvernig honum er stjórnað.

Jeg skrifaði niður hjá mjer setningu úr ræðu hv. 4. landsk. þm. (JM), þar sem hann segir, að enginn Framsóknarmanna hafi hið minsta vit á þessu máli. Ætla jeg mjer eigi að deila við hv. þm. um það atriði, en jeg mun á sínum tíma skjóta því undir dóm þjóðarinnar, og mun jeg óhræddur bíða þess dóms. Annars skal jeg taka það fram, að jeg tek þetta eigi illa upp fyrir hv. 4. landsk. þm. (JM). Geðsmunirnir hafa hlaupið með hann í gönur, þótt hann sje vanur að vera rólegur. En svo er um fleiri hv. andstæðinga mína í þessu máli. Hafa sumir þeirra komið með skáldlegar langlokur, en aðrir með ofstækisfullar meinlokur; en jeg get sagt hið sama um það og jeg sagði um hv. 2. þm. S.-M. (SHK), — það er batamerki, sprottið af því, að mönnum þessum er það ljóst, að þeir eru á rangri leið. Samviskan er að byrja að gera þeim aðvart. Er þetta komið af því, að samviskan bítur þá. Fer þeim eins og sagt er um vissan flokk kvenna — sem sje óbyrjur —, að þær þola eigi að sjá börn kynsystra sinna.

Annars er gleðilegt að heyra, að einn ákveðinn maður hefir orðið til þess að taka á sínar herðar ábyrgð á 40 þúsund króna launum til eins bankastjóra Íslandsbanka, og annar hefir tekið á sig ábyrgðina á 25 þús. króna launum til tveggja bankastjóranna.

Hv. 4. landsk. þm. (JM) heldur því fram, að jeg vilji eyðileggja Íslandsbanka. En ætli hv. þm. haldi því fram, að Politiken vilji eyðileggja Landmandsbankann? Danska þjóðin er öll sammála um það að bjarga bankanum. Og jeg verð að halda því fram, að Framsóknarflokkurinn hafi átt sinn þátt í tilraununum til að bjarga Íslandsbanka með enska láninu. En hitt vildi flokkurinn, að skipaðir væru í bankastjórastöðurnar fastir menn til að gæta þjóðarhagsmunanna. Hvað því viðvíkur, að jeg vilji eyðileggja bankann, þá get jeg látið mjer þær aðdróttanir í ljettu rúmi liggja. Enda veit jeg, að sumir andstæðingar vor tillögumanna munu skilja, að við viljum fá að vita ástæður bankans, til þess að ganga úr skugga um, hvort og hvernig hægt er að bjarga honum, og þá um leið að gera hann innlendan. Jeg hefi frá því fyrsta að jeg kynti mjer þennan banka verið andvígur hluthafapólitík hans. Sá jeg strax, að slík pólitík mundi hafa hina mestu fjármálaspillingu í för með sjer. Fyrv. landshöfðingi Magnús Stephensen komst svo viturlega að orði, er um stofnun Íslandsbanka var að ræða, að hægara væri að leiða asnann inn í herbúðirnar en út úr þeim, og átti hann þar við hluthafana.

Hv. 4. landsk. þm. (JM) talaði um það, að sjer hefði verið borið á brýn, að hann hefði dregið taum sinna sambandsmanna í pólitík. Jeg ætla mjer eigi að fara út í þá sálma að sinni; mun máske gera það á sínum tíma og þá annarsstaðar. En þó vildi jeg aðeins minna hv. þm. á það, að í ráðherratíð hans var lögreglustjóraembættið veitt einum af skrifstofustjórum stjórnarráðsins, en gengið fram hjá Magnúsi Torfasyni, enda þótt hann væri eldri embættismaður. Enn fremur mætti minna á veitingu Húnavatnssýslu, þar sem gengið var fram hjá Böðvari Bjarkan. Álít jeg, að sá, sem embættið hlaut, hafi einungis fengið það fyrir kunningsskapar og venslasakir við þáverandi ráðherra, núverandi 4. landsk. þm. (JM). Minnist jeg á þetta aðeins sem dæmi, af því að hv. þm. fór að tala um þetta atriði.

Hvað viðvíkur enska láninu, þá hefir hv. þm. (JM) viðurkent, að trygging bankans sje lítil, eigi meiri að nafnverði en skuldin sjálf. Hafi fjármálaráðherra aukið við trygginguna 2 milj. kr. Er lánið því tryggara nú en þá, er það var tekið, þó að tryggingin sje enn þá of lítil, því það verður að gera ráð fyrir, að tryggingin sje eigi skoðuð jafngóð og gulltrygging.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. G.-K. (BK). Hann var aðallega að svara hv. 2. þm. Eyf. (EÁ). Kom það sjerstaklega fram í ræðu hans, að honum væri í nöp við fundarályktanir utan af landi um það að athuga veð Íslandsbanka fyrir enska láninu og hag bankans yfirleitt. Skildist mjer á honum, sem hann kendi Tímanum um þessar ályktanir. Álítur hann, engu síður en hv. 4. landsk. þm. (JM), að Tíminn sje það stórveldi hjer á landi, að jafnvel bestu menn Dana dæmi þjóðina og íslensk mál eftir því, sem blaðið segir. Jeg verð að vera svo lítillátur að álíta þetta, því miður, ofmælt. Held jeg, að óttinn sje af öðru sprottinn. Þjóðinni allri er kunnugt um skakkaföll bankans nú á síðustu tímum og það, hversu erfitt hann hefir átt með að yfirfæra fyrir menn. Það er þess vegna, sem þjóðin nú heimtar rannsókn á bankanum. Þjóðin er ekki eins vitlaus og hv. þm. halda, þótt þeir segi það eigi á þingmálafundunum.

Þá fór hv. þm. (BK) ekki rjett með eitt lítilfjörlegt atriði viðvíkjandi stofnun Íslandsbanka. Jeg sagði sögu málsins á þingi 1899–1901, þegar málið gekk í gegnum Nd. Tók jeg þá fram, að hv. þm. (BK) hefði átt sæti á þingi 1901 og verið í þeirri nefnd, er fjallaði um málið, en að þeir Tryggvi Gunnarsson og Lárus H. Bjarnason hafi verið í minni hluta nefndarinnar. Þetta er sannleikurinn. Þm. er einn af feðrum bankans. Auk þess hefir hann ef til vill átt einhvern þátt í undirbúningi málsins utan þings; en jeg sagði ekkert um það. Annars virtist hv. þm. (BK) mjög hróðugur af því að hafa verið með í stofnun Íslandsbanka. Skal jeg eigi hafa af honum þann heiður. En undarlegt er það, að fáir aðrir en hann af öllum þeim, sem studdu þetta mál á þingi 1899, eru montnir af því. Enda var, með því að veita þannig útlendu hlutafjelagi einkarjett til seðlaútgáfu, tilraun gerð til þess að drepa Landsbankann. Hæstv. atvrh. (KIJ) reyndi að afsaka þetta með því, að hin mestu peningavandræði hefðu verið í landinu um þessar mundir. En sumir af stofnendunum, og það hinir greindari, hafa nú viðurkent, að þeim hafi yfirsjest í máli þessu.

Þá játaði hv. þm. (BK), að hlutabrjef Íslandsbanka væru nú eigi í hærra verði en 50 kr. Er það alveg rjett. Hefir hann í því efni farið eftir kauphallarverði erlendis, sem er heimsdómur um það atriði. Er hann þar í ósamræmi við hæstv. forsrh. (SE), sem vildi aðallega leggja upp úr matinu á brjefunum.

Þá sagði hv. þm. (BK) til lofs þeim mönnum í matsnefndinni, sem hluthafarnir tilnefndu, að hann hefði eigi getað sjeð neinn mun á þeim og sjer. En menn mega þá spyrja, hvort hluthafarnir hafa þá gleymt sjer eða hann. Hv. þm. (BK) mun nú sakir aldurs mjög aftur farið, og er því eigi ósennilegt, að hann hafi getað flaskað nú eins og þegar hann var yngri. Á jeg þar við útreikninga hans á símanum hjer áður, er hann lagði fyrir þingið. Sagði hv. þm. (BK), að síminn yrði algert rothögg á fjárhag landsins, og að þeirri niðurstöðu komst hann eftir „vísindalegan útreikning“. Það mat, sem hv. þm. (BK) gerði þá á símanum, hefir nú eigi reynst alls kostar rjett, þar sem síminn er mikil tekjulind fyrir landið, en þó gerði hann þennan útreikning sinn á besta aldri. Og hvað mun þá um vinnuafrek hans nú?

Hv. þm. (BK) sagði, að jeg hefði sveigt að hagstofustjóranum um hlutdrægni í matsnefndinni. Jeg sagði aðeins, að það væri óheppilegt, að hann skyldi hafa þurft að meta skuldir togaranna, þar sem að þeim standa ýmsir vandamenn hans. Býst jeg við, að margir muni mjer samdóma um það.

Jeg skal taka það fram, að það, sem er aðalatriðið fyrir mjer í máli þessu, er það, að bankinn gekk illa undir stjórn hluthafanna, og hefir með því aukið þjóðinni vandræði. Og þar sem þjóðin hefir gert mjög mikið fyrir þennan banka, tekið lán með blóðugum kjörum til þess að hjálpa bankanum, Landsbankinn lánað honum fje og einn af ráðherrunum hjálpað til þess að útvega lán erlendis handa honum, þá álít jeg, að eigi sje hægt að heimta það, að stofnun þessi sje álitin svo heilög, að lánardrottinn hennar — sem sje þjóðin — megi eigi sjá, hvernig ástand hennar er. Og fram undan vakir hjá mjer sú hugsjón, að komandi kynslóðir sjái, hversu óheppilegt þetta hluthafafyrirkomulag er, svo að bankanum verði einnig stjórnað með hagsmuni alþjóðar fyrir augum. Vil jeg eigi, að það þurfi að koma fyrir, að duglegur og vel gefinn maður — eins og hr. Eggert Claessen — segi, að lággengi íslenskrar krónu komi bankanum eigi við, aðeins af því, að hann er fyrir hluthafana, en ekki fyrir þjóðina. Ef það eigi að lagast, þá verði landssjóður að laga það. Þjóðin hefir lagt 7 miljónir í þennan banka, en þó er sagt, að bankanum komi lággengið eigi við. Hann þurfi eigi annað en að hugsa um sig. Við Framsóknarmenn álítum þetta mál þýðingarmesta mál fyrir þjóðina, en við getum talað um það rólegir og látum oss illyrði andstæðinganna engu skifta. Við höfum ljósan og sterkan málstað, og getum því látið okkur á sama standa, þótt við sjeum ausnir auri. Æst lund er altaf samfara slæmum málstað, og við kennum í brjósti um þá menn, sem svo er ástatt fyrir.

Af því að jeg er dauður í máli þessu, er jeg hefi lokið ræðu þessari, þá skal jeg taka það fram, að ef hv. 2. þm. S.-M. (SHK) hefir sjeð ástæðu til að líta eftir því, að mjer yrði máls varnað, þá mun jeg lítt hirða um, hvað hann segir um mig. Jeg mun svara honum á öðrum vettvangi. Jeg er búinn að ganga svo frá þessum hv. þm. (SHK), að jeg býst eigi við, að hann þurfi meira í bráðina. Hann fór í fyrstu mörgum og stórum orðum um bankarannsóknina, sagði að hún væri glæpsamleg. En jeg mundi afstöðu hans í bankamálinu 1909, þegar hann studdi stjórnina sem mest í hvellinum út af Landsbankanum. Og á þingi 1911 talaði hann mjög fagurlega um framkomu stjórnarinnar í því máli og varði gerðir hennar með hnúum og hnefum. Talaði hann í því sambandi um tyllidag og hátíðisdag, þegar Tryggvi Gunnarsson og gæslustjórarnir voru reknir frá bankanum. Lýsir það nokkuð bardagaaðferðinni, þegar maður með slíka fortíð kemur fram og stimplar sem glæpamenn alla þá, sem vilja athuga ástæður Íslandsbanka nú. Er það sama bardagaaðferð og hjá hv. 4. landsk. þm. (JM), þegar hann er að hæla sjer fyrir sparnað, eftir að út eru komnir landsreikningarnir 1920–1921. Jeg öfunda eigi þann málstað, er þarf þessara vandræðameðala við. En jeg sætti mig við atkvæðagreiðsluna í kvöld, því jeg vil heldur tapa rjettu máli en vinna rangt mál. Jeg þarf hvorki að vera æstur í máli þessu nje skáldlega yfirspentur. Jeg treysti málstaðnum, og það er aðalatriðið fyrir mjer.