23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (3155)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Halldór Steinsson:

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) gat þess í lok ræðu sinnar, að hann væri dauður og gæti því eigi borið hönd fyrir höfuð sjer. En jeg skal sem forseti lofa hv. þm. (JJ) því, að hann skal fá að gera athugasemdir sínar á eftir, ef hann vill.

Það voru tvær smásendingar, sem hv. þm. (JJ) sendi mjer og jeg get ekki látið ósvarað. Var önnur þeirra til mín sem þm. Snæf., út af leynifundi í sameinuðu þingi, en hin til mín sem forseta þessarar hv. deildar. Hv. þm. (JJ) mintist á leynifund þann, sem haldinn var í Sþ., og hjelt því fram, að jeg hefði verið forsprakkinn í því að andmæla þessum fundi.

Það hefir því miður einstöku sinnum komið fyrir hjer á þingi, að kvisast hefir um leynifundi, en hitt mun þó vera eins dæmi í þingsögunni, að þingmaður hafi opinberlega skýrt frá slíkum fundi. Er það algert brot á öllum þingvenjum, auk þess sem það stríðir á móti almennri meðvitund manna um þagnarskylduna. En þar sem hv. þm. (JJ) hefir nú opinberað þennan leynifund, þá álít jeg, að þar með sje þagnarskyldu minni lokið. Jeg ætla mjer því að skýra frá þessum fundi, og þó nokkuð á annan veg en hv. 5. landsk. þm. (JJ).

Hv. 4. landsk. þm. (JM) hefir að vísu tekið fram ýmislegt um þetta mál, en jeg vildi þó leyfa mjer að skýra það nokkru nánar. Fundurinn var boðaður af forseta Sþ., eftir tilmælum frá Framsóknarmönnum. Var það látið fara með mestu leynd, hvert tilefni til fundarins væri, og var það í mesta máta ókurteist og óþinglegt. Þegar á fundinn kom, tók einn af Framsóknarmönnum upp blað og las upp af því ályktun um gagngerða rannsókn á Íslandsbanka. Var ætlast til, að gerð væri ályktun um málið áður en fundi væri slitið. Er það í mesta máta ónærgætið og ókurteist að koma með slíkt fram fyrir þingmenn, án þess að hafa gefið þeim nokkurn kost á því að undirbúa sig og athuga málið.

Á þeim grundvelli mótmælti jeg fundinum, og gat þess um leið, að ef Framsóknarflokkurinn vildi hafa tal af okkur, þá ættum við heimtingu á, að okkur væri boðaður fundur með nokkrum fyrirvara og fundarefni tilkynt. Þannig er sagan rjett sögð.

Þá dróttaði sami hv. þm. (JJ) því að mjer, að jeg hafi tafið um of gang þessarar þáltill., sem nú er til umræðu. Þetta lýsi jeg tilhæfulaus ósannindi. Till. var tekin svo fljótt sem unt var á dagskrá. Að vísu var hún aftur tekin af dagskrá, en til þess lágu ástæður, er jeg, sem forseti í þessari hv. deild, hlaut að taka til greina.

Jeg þori óhræddur að leggja það undir dóm hv. deildarmanna, jafnvel líka hv. 5. landsk. þm. (JJ), að það er ekki jeg, sem hefi tafið gang mála hjer í þessari hv. deild á þessu þingi, nema ef vera skyldi með því, að jeg hefi látið hv. 5. landsk. þm. (JJ) haldast uppi óátalið að flytja allar sínar mörgu og löngu, en óþörfu og leiðinlegu ræður.