23.04.1923
Efri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3156)

131. mál, tryggingar Íslandsbanka fyrir enska láninu

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Það er dálítið eftirtektarvert, að þegar menn eru hjer í deildinni að reyna til þess að verja lánstraust landsins, með því að bægja frá Íslandsbanka ósæmilegum ófrægingaraðdróttunum, m. a. aðdróttunum um það, að eitthvað líkt muni vera ástatt fyrir honum eins og var um Landmandsbankann, — en allir vita, að þar var um svik að ræða í reikningi bankans —, þá lætur hv. 5. landsk. þm. (JJ) svo, sem andmælendur hans sjeu málafærslumenn bankans. Enn þá hefir hann ekki beinlínis sagt, að þeir vinni fyrir kaupi hjá bankanum, en búast má við því, að það verði næsta sporið. Jeg ætla mjer því að taka það fram í eitt skifti fyrir öll, að jeg er algerlega óháður Íslandsbanka. Jeg er svo óheppinn, að jeg á ekkert hlutabrjef í honum, en jeg er jafnframt svo heppinn, að jeg skulda þar ekkert og er ekki heldur í ábyrgð fyrir neinu láni þar.

Það er heldur ekki lengra síðan en í fyrra, en þess minnist hv. 5. landsk. þm. (JJ) náttúrlega ekki, að jeg vítti það, að Íslandsbanki hefði hærri vexti en Landsbankinn. Ársarðurinn 1921 var mjög mikill, og jeg hjelt því fram, að bankinn flýtti sjer um of að því að vinna upp tapið, og skoraði á fjármálaráðherra að skerast í leikinn. Bankanum er þó mikil vorkunn í þessu efni, í þeim rógi, er hann hefir verið borinn. það er ekki svo undarlegt, þó að bankastjórnin hafi rógsins vegna orðið dálítið „nervös“ og viljað ná peningunum inn aftur sem fyrst. það eru því þeir menn, sem mest hafa ofsótt bankann, sem þetta er fyrst og fremst að kenna, og þá líklega ekki hvað síst hv. 5. landsk. þm. (JJ).

Hann hefir nú haldið fjórar ræður um ósamræmi í framkomu minni árið 1911 og nú í þessu bankarannsóknarmáli. Jeg má til með að rifja upp, hvernig þá var ástatt. Um hina upphaflegu bankarannsókn 1909 vissi jeg ekkert fyr en hún var afgerð. Menn muna, hvílík læti þessi rannsókn vakti úti um land, og dómarnir um aðfarir þáverandi ráðherra voru afarharðir. Hins vegar kom skýrsla frá rannsóknarnefndinni, sem sýndi, að ekki var alt með feldu, og hinir tveir bankastjórar, sem sendir voru þá hingað frá Landmandsbankanum, gáfu þá yfirlýsingu, að svo framarlega sem þeir tveir þáverandi gæslustjórar bankans yrðu settir inn í embættið aftur, myndu þeir leggja það til við banka sinn, Landmandsbankann, að hann hætti að skifta við Landsbankann.

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu um þetta atriði, og síst að hallmæla gæslustjórunum, en sem ritstjóri hafði jeg þá fullan rjett til að biðja menn að fara varlega og dæma ekki þáverandi ráðherra of hart.

En hvað skeður á þinginu 1911? Það var strax ljóst, að þáverandi ráðherra hafði minni hluta þings með þessum ráðstöfunum sínum. Og þá var skipuð rannsóknarnefnd, ekki á bankann, heldur á ráðherrann, hvort þessar ráðstafanir hans, að láta rannsaka Landsbankann, hafi verið rjettmætar. Till. hjer að lútandi var samþykt í báðum deildum þingsins, hjer í Ed. með 11:2 atkv., og var annað þessara tveggja mitt atkv. Jeg var þar í minni hluta, og var ræða sú, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) las kafla úr í dag, flutt í tilefni af þessari rannsókn, sem var skipuð í samræmi við núgildandi 35. gr. stjórnskrárinnar. Jeg átti sæti í þessari rannsóknarnefnd hjer í Ed. og var þar einn í minni hluta móti fjórum. Jeg ætla ekki að fara lengra út í þetta mál, en mig langar þó til að lesa 2–3 línur upp úr nefndaráliti mínu þá, sem sýna, hvernig jeg leit á starf þessarar rannsóknarnefndar. Þær hljóða svo:

„Enda lít jeg svo á, sem allri þessari svo nefndu „rannsókn“ hafi verið hagað þann veg, að kent hafi meiri hlutdrægni en sæmd þingsins sje samboðið, að því leyti, sem „rannsóknin“ hefir ekki verið einber hjegómi“. Þetta var vottanlega minn dómur um þessa rannsóknarnefnd, og fæ jeg ekki sjeð, að mikið ósamræmi sje í því, þótt jeg hafi enga tröllatrú á nefnd þeirri, sem nú á að skipa — fremur en öðrum pólitiskum rannsóknarnefndum — og sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) ætlar að troða sjer í. (JJ: Jeg var að tala um sjálfa bankarannsóknamefndina 1909). Jeg hefi margtekið fram, að í henni átti jeg enga hlutdeild.

Annars verð jeg að bera fram dálítið þakkarávarp til hv. 5. landsk. þm. (JJ), og er það ekki oft, sem mjer finst ástæða til þess. Flest af því, sem jeg hefi lesið eftir hann, hefi jeg lesið með ógeði. Nú er jeg alveg hættur að leggja slíkt á mig. Og ræðurnar, sem hann hefir flutt hjer í þinginu, þær hefi jeg hlustað á með leiðindum. Og þá eru framvörpin hans hjerna í deildinni; þessi andvana fæddu, ófullburða og vansköpuðu afkvæmi höfundarins, sem deildin hefir verið að hjálpa upp á líkvagninn, svona einu eða tveimur á viku. Lítið get jeg þakkað fyrir þau. Nei, en jeg vil þó þakka honum fyrir síðustuna ræðuna hans. Ekki af því, að hún væri beinlínis skemtileg; langt frá því. Jeg býst við, að aðalskemtunin hafi verið fyrir höfundinn sjálfan, þegar hann var að lesa upp gamlar greinar úr Suðurlandi eftir sjálfan sig. En það, sem mjer finst þakkarvert, er, að með þessari ræðu sinni sannaði hann langflest af því, sem jeg hafði haldið fram í síðustu ræðu minni; sannaði það svo átakanlega og eftirminnilega, að jeg get vísað þangað hv. frsm. (EÁ), sem hjelt, að jeg hefði farið of þungum orðum um hvatir þeirra manna og athæfi, sem mestu hafa ráðið um þessa síðustu ofsókn á bankann. Nú verður fyrri ræða mín og ræða hv. 5. landsk. þm. (JJ) bundnar inn í sömu bókina og fylgjast þar að, meðan hægt verður að lesa á pappírinn, sem þær eru prentaðar á, haldast nærri því í hendur, eins og tvær góðar vinkonur, — og stærri og fyrirferðarmeiri vinkonan sannar og rjettlætir það, sem sú fyrri sagði.

Það þarf ekki framar vitnanna við. En mjer þætti gaman, í þessu sambandi, að minnast á spánný ummæli í síðasta tölublaði málgagns Framsóknarflokksins þar er því haldið fram um þennan einn af flokksmönnum Framsóknarflokksins, sem gerðist sá drengur, að hann neitaði að flytja með þeim þessa ofsóknartillögu á bankann, að hann hafi eigi síður verið gunnreifur í máli þessu en kjósendur hans. Hann hefir nú sýnt það best með framkomu sinni, hversu gunnreifur hann var, og ætli kjósendunum hafi ekki verið svipað farið ? Þetta hefir líklega farið einhvern veginn milli mála hjá þeim, sem ritar í blaðið. Það voru víst hinir fulltrúar Framsóknarflokksins, sem voru gunnreifir, eftir að þeir höfðu tekið á móti bendingunum og fyrirskipununum hjeðan úr Reykjavík og er það ekki einmitt það, sem jeg sagði í síðustu ræðu minni, að það voru þeir sjálfir, sem túlkuðu þessar tillögur fyrir kjósendum sínum og voru hreyknir af þessari tálbeitu, sem þeir höfðu lagt fyrir þá? En jeg er ekki alveg viss um, að þeir verði eins gunnreifir, þegar mál þetta er útrætt með þjóðinni. Hingað til hafa þeir að mestu fengið að tala einir. En jeg vona, að svo verði ekki fyrst um sinn hjer eftir. Og svo mikið traust hefi jeg á viti og dómgreind þessarar þjóðar, að hún átti sig á því, að það er ekki gæfuvegur fyrir hana og viðskiftalíf hennar að ofsækja þær lánsstofnanir, sem lánstraust og viðskiftatraust hennar er bundið við, bæði heima og erlendis.

Jeg veit það reyndar vel, að það er eitt, sem fær flm. þessarar þáltill. nokkurrar gleði og gerir þá ef til vill gunnreifari í bráð. Og hvað haldið þið að það sje? Gleðiefnið er dálítið skrítið og skemtilegt. Jeg skal ekki draga ykkur alt of lengi á svarinu. Það er það, að till. sjálfra þeirra verði strádrepin í báðum deilum þingsins. Því vitanlega var aldrei sá tilgangurinn að fá hana samþykta, heldur sá, að fá hana felda. Með því telja foringjarnir opna leið til að halda tortrygninni gegn bankanum áfram. Þá geta þeir sagt við kjósenduma: „Þetta, sem við sögðum ykkur, að þið skylduð skipa okkur, og sem við þess vegna reyndum að gera, það vildi þingið ekki gera. Þarna sjáið þið. Á meðan þið sendið ekki nógu marga Framsóknarmenn á þing, þá verður fyrirskipunum ykkar ekki hlýtt“. — Því alt er þetta kosningabeita og valdastrit.

Jeg vil nú ekki segja mig betri mann en jeg er. Jeg hefi haft sterka löngun til þess að samþykkja þessa till. Framsóknarflokksmanna. Jeg hefði haft dálítið gaman af því að lofa þeim að látast vera að rannsaka og finna ekki neitt annað en þetta, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) setur saman við skrifborðið sitt, án þess að rannsaka nokkum skapaðan hlut. ófrægingarnar yrðu þá hvorki meiri nje verri en þær voru áður.

Ef þetta væri algerlega innlent mál, eins og t. d. brúargerð, ef það væri ekki svo afskaplega fjötrað við alt viðskiftalíf landsins, þá skyldi jeg leyfa hv. 5. landsk. þm. (JJ) að fara niður í banka og rannsaka, og gæti jeg brosað að honum um leið.

En jeg hefi í fyrri ræðu minni gert grein fyrir því, hvers vegna þetta er ógerningur og hvaða álitshnekki það mundi baka þjóðinni út á við og öllu viðskiftalífi hennar. Þær ástæður þarf jeg ekki að endurtaka. Ætla ekki að haga mjer í því efni eins og hv. 5. landsk. þm. (JJ).

Er það ekki dálítið sjerkennilegt og getur það ekki opnað augu manna, að þessir menn, sem hugsa og tala eins og hv. 5. landsk. þm. (JJ), vilja ekkert um bankann vita, nema ilt eitt? Þeir þykjast ekkert vita og ekkert geta fengið að vita. Gátu þeir ekki, ef þeir vildu, beðið stjórnina um skýrslu um ástand bankans? Gátu þeir ekki spurt sína eigin stjórn, sinn eigin fjármálaráðherra, sem var flokksbróðir þeirra? Trúir því nokkur, að flokksforingjarnir hafi trúað því sjálfir, að þeir gætu ekki fengið hjá honum upplýsingar, sem allir þingmenn meira að segja geta fengið. Tveir bankastjórarnir voru líka settir af þeirra eigin stjórn.

Þeir hafa haft Móse og spámennina. Hvers vegna vildu þeir ekki nota sjer það?

Jeg skal ekki fara langt út í það að tala um gengisfall og dýrtíð. Jeg er enginn þjóðhagsfræðingur, og mjer finst það ekki vera speki, sem um þetta hefir verið sagt hjer í þinginu, sem tæplega er heldur von. Eftir 1919 fara atvinnuvegirnir að tapa svo tugum miljóna skiftir. Á þessum tíma höfum við þurft að fá lífsnauðsynjar okkar og við höfum þurft að halda við þeim atvinnuvegum, sem fyrir voru, en illa báru sig, svo að alt hryndi ekki í kaldakol, en jafnframt hefir þess gætt, að þjóðin hefir ekki á þessum tíma, fremur en á undan styrjöldinni, haft nægilegt veltufje, sem hún þurfti til atvinnuvega sinna.

Gengið hefir orðið lágt af því, að við gátum ekki flutt út nógu mikið verðmæti í skarðið fyrir tapi og lífsnauðsynjum sjálfra okkar og atvinnuveganna. Að kenna Íslandsbanka um þetta er ekki annað en haugavitleysa og argasta fjarstæða. Dýrtíðin er líka alheimsfyrirbrigði, og það er jafnfráleitt að heimta af Íslandsbanka, að hann lækni hana, eins og af þinginu. En við getum að minsta kosti látið vera að vinna hermdarverk, eins og það væri að samþykkja þessa tillögu. Það er eitt af því glæpsamlega í þessari ofsókn, að vera að telja þjóðinni trú um, að Íslandsbanka sje um þetta alt að kenna. Þótt Íslandsbanka væri rutt úr vegi, þá hækkar ekki gengið fyrir það, en það mundi fremur stórfalla. Jeg get ekki betur sjeð en það sje glæpur gegn þjóðinni, að vera að reyna að villa henni sýn um þetta, eins og það er glæpur að hengja bakarann fyrir það, sem smiðurinn gerði. Upp af ösku Íslandsbanka getur enginn Phönix risið.

Mjer fanst hv. flm. (E.Á.) vilja tala sanngjarnlega um það, að nauðsyn væri á því, að kveða niður vantraustið til Íslandsbanka. Það er gleðilegt, en benda vil jeg á það, að það var talið ljettara að vekja upp drauga en að kveða þá niður. En ráðið til að kveða niður þetta vantraust er ekki það, að senda fjendur bankans inn í hann, heldur hitt, að kveða niður þá blekbullara, málrófsmenn og kjaftaskúma, sem einlægt eru að reyna til að vekja vantraust á bankanum. Ef það tækist, þá ætti að halda þjóðhátíð í þessu landi.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) var í líku sambandi að tala um nauðsynina á því, að „skera í sjúkdóminn“. En nú eru þeir æðimargir í þessu landi, sem líta svo á, að hann sje sjálfur eitt af lakari pestarkýlunum á þjóðfjelagi okkar. Fyrir það held jeg ekki, að það væri ráðlegt að brúka við hann hnífinn. Jeg vil beinlínis alvarlega ráða frá því, og jeg vona, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) taki mjer það ekki illa upp. Því miður er ekki hægt að lækna alla sjúkdóma með því að skera í þá. En menn eru farnir að reyna nýjar aðferðir, sem eru í mikilli tísku.

Við ýmsa þessa sjúkdóma eru menn farnir að reyna geislalækningar. Jeg hefi ekki trú á, að önnur lækningaaðferð væri hentugri við hv. 5. landsk. þm. (JJ), en að brúka við hann góða geisla, geisla vitsins, þekkingarinnar og sannleikans.