08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (3166)

119. mál, verslunarsamningur við Rússland

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vildi aðeins taka það fram, að það hefir verið gerður verslunarsamningur milli Dana og Rússa, og var hann undirritaður af fulltrúum beggja málsaðilja 23. apríl síðastliðinn. Er í samningi þessum Íslandi gefinn kostur á að ganga inn í hann, ef sagt er til þess innan þriggja mánaða, en ef eigi er neitt gert í þá átt innan þess tíma, þá er rjettur Íslands til þátttöku í samningnum fallinn úr sögunni. Samningur þessi er eigi enn þá kominn til landsstjórnarinnar, en henni hefir verið tilkynt, að hann verði sendur henni mjög bráðlega. Bjóst stjórnin við því, að hann kæmi með Botníu, en Svo var þó eigi. En jeg veit, að aðalþáttur samningsins er sá, að Rússum er heimilaður aðgangur að Danmörku og Dönum að Rússlandi, til þess að koma á verslunarsambandi milli landanna. Ef till. hefði eigi komið fram, mundi stjórnin hafa leitað álits þingsins um það, hvort semja ætti við Rússa eða eigi. Ef till. verður samþykt, þá er því svarað, en þá er eftir að taka ákvörðun um það, hvort ganga eigi inn í samninginn við Danmörku eða semja sjálfstætt. Hið síðara tel jeg mörgum annmörkum bundið. Býst jeg við, að þingið blandi sjer eigi inn í þá hlið þessa máls, en láti stjórnina ráða því, eftir að hún hefir kynt sjer málið til hlítar.