08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (3169)

119. mál, verslunarsamningur við Rússland

Jón Auðunn Jónsson:

Það er rangt að draga þá sölu Norðmanna, sem hv. flm. (JB) nefndi, inn undir almenn viðskifti milli Noregs og Rússlands. Þessi sala var gerð með sjerstökum samningi milli stjórna landanna, og komu ýms hlunnindi á móti. Munu Rússar eigi síður hafa haft hagnað af þeim skiftum en Norðmenn. Annars ætti þessi hv. þm. (JB) að líta í „Fiskeritidende“ Norðmanna og önnur blöð, og mun hann þar sjá, að á síðasta ári hafa þeir selt til Rússlands talsvert af þessum mjög ljelega fiski, en ekkert af betri fiski, og ber það ekki vott um, að þeir telji sjer hagfelt að versla við Rússa með góða vöru, enda vita allir, að þeir hafa ekki keypt betri tegundir fiskjar, þegar fjárhagur landsins var skárri en nú er.