02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

40. mál, skipun nefndar til að íhuga vatnamálin

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) heldur því fram, að ótímabært sje að skipa nefnd í vatnamálið, meðan það er svo skamt á veg komið í efri deild. Nógur tími sje að skipa hana, þegar málið komi þaðan. En jeg vil minna á það, að á undanförnum þingum hafa nefndir jafnan verið skipaðar í mál þetta í báðum deildum þegar í þingbyrjun. Málið er eðlilega umfangsmikið, og hefir reynst nefndunum ærið tafsamt. Það er því ekki rjett, að ótímabært sje að skipa nefnd nú þegar. Enn þá er margt í þessu umfangsmikla og flókna máli, sem þörf er að athuga, og eina leiðin til afgreiðslu er ítarleg athugun í nefnd, sem ræður yfir nokkrum tíma.

Sami hv. þm. (JakM) heldur því fram, að málið þurfi ekki afgreiðslu að þessu sinni, og rjett sje að draga það til næstu kosninga, með því, að líkur sjeu ekki til þess nú í fjárkreppunni, að vatnsvirkjanir takist. Það er reyndar engin ástæða til að fresta afgreiðslu málsins, þótt ólíklegt sje, að ráðist verði í stórvirkjanir að sinni. Rjetturinn þarf jafnt fyrir því að vera ákveðinn. Því hefir áður verið haldið fram, bæði af mjer og andstæðingum mínum í þessu máli, að dráttur á setningu vatnalaga væri varhugaverður, jafnvel hættulegur. Drátturinn getur auðsæilega leitt til þess, að þeir, sem fengið hafa umráð mikilla vatnsrjettinda, gætu hagnýtt þau áður varði oss til óþurftar á ýmsa vegu og án eðlilegra takmarkana. Peningakreppan er ekki einhlít til að hamla því. Engin sjerleyfislög eru til, sem spornað geti við óhagkvæmum framkvæmdum, en sjerleyfislög er ekki hægt að setja fyr en vatnalög eru fengin.

Út af þeirri athugasemd hv. þm. (JakM), að jeg muni vilja flýta málinu af ótta við kosningarnar, vil jeg láta hann vita, að jeg stend alveg jafnt að vígi, hvort sem málið nær fram að ganga eða ekki. Um vatnsrjettindamálið þykist jeg mega fullyrða, að allir kjósendur mínir sjeu mjer sammála.

Hv. þm. (JakM) talaði um óðagot á mjer í þessu máli. Jeg á erfitt með að skilja þau ummæli hans. Málið liggur nú fyrir í 5. sinni frá 1919, og verður eigi sagt, að flausturlega hafi með það verið farið. En auk þess hittir þetta hæstv. stjórn, en mig ekki. Jeg hefi ekki flutt málið hjer á þingi síðan 1919. Það hefir jafnan síðan verið lagt fyrir af landsstjórninni, eins og hennar áhugamál, og ætíð hefir stjórnin fylgt þeirri stefnu í málinu, sem jeg held fram og tel þá einu rjettu. Fyrir það get jeg verið henni þakklátur.