02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (3191)

40. mál, skipun nefndar til að íhuga vatnamálin

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Það er í sjálfu sjer þýðingarlaust að vera að deila um þetta. Atkvæðagreiðslan mun skera úr því, hvernig fer um það.

Mjer kom alls ekki á óvart, að þessir tveir menn risu upp til andmæla nefndarskipun. Öllum þingheimi er kunnugt um, hvers vegna svo er. Þeir eru báðir í flokki þeirra manna, sem haldið hafa fram umráðarjetti ríkisins yfir vatnsrjettindum og rjettleysi landeigenda. Nú eru þeir vonlausir um, að sú kenning fái áheyrn í þinginu, og vilja þá af tvennu illu heldur, að málið dragist úr hömlu en gangi fram eftir gagnstæðu stefnunni, með fullri viðurkenningu hins forna rjettar landeigenda. Er þetta að vísu eðlileg viðleitni til að fleyta kenningu þeirra í lengstu lög, en efasamt er mjög, að þeir hafi sæmd af því, enda munu fáir aðhyllast hana með þeim, — líklega svo sem einn maður auk þeirra í þinginu.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að allar ástæður, sem áður hefðu verið til að flýta þessu máli, væru nú fallnar burtu. En ein ástæðan er þó að minsta kosti eftir. Árið 1919 var í fyrsta sinn vefengdur sá forni rjettur landeigandans yfir vatninu, sem ætíð hefir verið bygt á og öll lagasetning síðari ára miðar við, og hv. þm. (JakM) var einmitt einn þeirra fáu, sem vefengdu. En af þessu hefir leitt nokkra rjettaróvissu, sem nauðsyn ber til að skera úr, því að hverjum manni er nauðsyn að vita, hver rjettur hans er, eigi síður þegar um landeign er að ræða en aðrar eignir, og ótvíræð lagasetning sker úr þessu.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) mintist á það, að nefnd hefði í fyrra haft málið til meðferðar og ekki komið fram með neitt álit. Hv. þm. (JakM) ætti sjálfum að vera kunnugt um, hvers vegna svo fór. Meiri hluta menn frá 1919 töfðu fyrir nefndinni eins og áður og ónýttu starf hennar. Það má vel vera, að enn megi tefja fyrir henni á svipaðan hátt, en það ætti samt ekki að standa í vegi fyrir nefndarskipun, þótt löngun hafi þeir til þess.

Jeg hefi áður fært ástæður fyrir því, að ekki væri vænlegt til að fá málið afgreitt, að setja það í allsherjarnefnd, og því er tillagan fram komin, að setja það í sjerstaka nefnd. Fleira þykir mjer ekki ástæða til að taka fram að þessu sinni, en mæli fastlega á móti till. hv. 1. þm. Reykv. (JakM), þeirri, að málið sje tekið af dagskrá.