05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

155. mál, atvinnuleysisskýrslur og atvinnubætur

Jón Þorláksson:

það er ef til vill ótímabært að mæla á móti þessari tillögu, eftir að stjórnin hefir tekið við henni til fósturs, enda er það engin furða, þó að hæstv. stjórn taki henni vel, þar sem tillagan er borin fram af einum aðalstuðningsmanni hennar. Jeg vil þó leyfa mjer að benda á ýms atriði, sem sýna ljóslega, að tillagan er alveg tilgangslaus.

Landshættir vorir eru þannig, að öll atvinna er að mestu leyti bundin við sjerstaka árstíma og ákveðna staði, sem sje vertíð og heyannir. Af því leiðir, að allur þorri manna, sem dvelur á sama stað alt árið, verður atvinnulaus einhvern tíma ársins. Á þessu er fyrst og fremst ráðin bót með því, að menn ferðast úr einum stað í annan til þess að leita sjer atvinnu, eftir árstíma og atvinnuháttum. Nú eiga allar bæjar- og sveitarstjórnir landsins að safna skýrslum um atvinnulaust fólk. En hvaða fólk á að taka á þessar skýrslur? Ef taka á einungis heimilisfast fólk og viðstatt, munu fáir komast á skýrslurnar. Eða á einnig að taka með aðvífandi menn eða þá, sem eru heimilisfastir, en farnir úr sveitinni til þess að leita sjer atvinnu? Það er ljóst, að ef menn ættu að geta bygt nokkuð á slíkum skýrslum, þyrfti að safna þeim oft á ári, líklega ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Hver mundi t. d. vilja byggja á þeirri skýrslu, sem tekin væri í Reykjavík á jólaföstu, hve margir væru atvinnulausir í marsmánuði? Eða hver mundi meta atvinnuleysi í sveitum í októbermánuði á skýrslum, sem teknar væru í ágúst? Svo yrði einhver að vinna úr þessum skýrslum. Jeg geri ráð fyrir, að þær yrðu sendar hagstofunni, og ef þær kæmu út eftir 3 ár, eins og verslunarskýrslurnar, mætti naumast vænta þess, að þær gerðu mikið gagn. Nú mundi einhver vilja segja, að hagstofan gæti hraðað þessari skýrslugerð meir, en til þess þyrfti að auka skrifstofufje hennar. En hæstv. stjórn lækkaði skrifstofufjeð í fjárlagafrumvarpi sínu, og í meðförum þingsins hefir það enn verið fært niður. (Atvrh. KIJ: Og bætt við störfin). Það mun rjett, að jafnvel þótt þetta verði ekki samþykt, hafa störf hagstofunnar verið aukin á þessu þingi.

Jeg hygg, að þessi hugmynd um atvinnuleysisskýrslur sje eftir erlendri fyrirmynd. Í öðrum löndum er þetta gert, að telja atvinnulausa menn meðal þeirra, sem eru „faglærðir“, það er að segja, meðal þeirra manna, sem hafa lært einhverja sjerstaka iðn og gefa sig ekki við annari vinnu. Þar er þetta vel framkvæmanlegt, því að verkamannafjelögin geta haft tölu á slíkum mönnum, hvert í sinni grein. En hjer á þetta ekki við. Þó að farið væri að safna skýrslum um atvinnuleysi meðal verkafólks um alt land, má ráða af þeirri litlu reynslu, sem fengin er hjer í bæ, að ógerlegt er að safna atvinnuleysis skýrslum, svo að ekki verði vefengdar, jafnvel fyrir þá vikuna, sem er að líða. Það kom fyrir nýlega, að safnað var slíkum skýrslum í Reykjavík, fyrir forgöngu alþýðufjelaganna. Kom þá í ljós allhá tala, og voru bygðar á henni kröfur um það, að bærinn rjeðist í einhverjar framkvæmdir til atvinnubóta. Bæjarstjórnin kaus þá nefnd til þess að rannsaka þessar skýrslur, og samkvæmt skýrslu þeirrar nefndar kom það í ljós, að sama sem ekkert varð úr þessu atvinnuleysi. Það urðu einungis örfáir fjölskyldumenn, sem ástæða þótti til að greiða fyrir, með því að láta þá fá atvinnu við ýmislegar bæjarframkvæmdir. Svona fór það hjer, þar sem mest tök voru á að afla áreiðanlegra skýrslna. Þetta er eðlilegt, þegar þessi skýrslugerð er teygð svo langt, að hún er látin ná yfir eyrarvinnumenn. Við eyrarvinnuna er sú tilhögun, að vinnuveitandi tekur manninn, þegar hann þarf á honum að halda, og lætur hann fara, þegar vinnunni er lokið, hvenær sem er að deginum. Hvenær eru þessir menn atvinnulausir? Hvernig er unt að taka skýrslu um atvinnuleysi í hóp, sem stundar svo lausa og stopula vinnu sem eyrarvinnu í Reykjavík? Jeg hygg, að það, sem tillagan fer fram á, verði ekki framkvæmanlegt alment. Jeg hygg, að úr því mundi verða gagnslaust pappírsflóð til einhverrar skrifstofu í Reykjavík, sem ekkert yrði unnið úr fyr en svo seint, að það yrði að engu liði.

Tveir seinni liðir tillögunnar sýna, að hv. flm. (JB) vill ekki lúta að þeim leiðum, sem hafa hingað til reynst einar nýtilegar til þess að bæta úr atvinnubresti hjer á landi. Hann sjer ekki aðra leið en að sveitar- og bæjarfjelög eða ríkið taki í taumana, ráðist í framkvæmdir til þess að veita mönnum atvinnu. Allir aðrir hv. deildarmenn munu vita, að sú leið, sem happadrýgst hefir reynst á þessu landi til að bæta úr atvinnubresti, er að stuðla að því, að atvinnurekendur sjeu nógu margir og hafi nóg tæki til þess að taka við verkalýðnum. það er atvinnan við framleiðslu til sjávar og sveita, sem hagur þessa lands stendur á, og efling þessara atvinnufyrirtækja veitir landinu fjárhagslega stoð, um leið og það bætir úr atvinnuleysinu. En þó að bæjarfjelög þjóti í að láta framkvæma mannvirki, sem flest yrðu óarðberandi, er það ekki annað en til þess að leggja byrði á aðra bæjarbúa til þess að greiða þeim kaup, er vinna við þessi óarðberandi fyrirtæki. Hitt er sjálfsagt um fyrirtæki, sem óhjákvæmilegt er að framkvæma, að velja þann tíma til þeirra, þegar minst er að gera við önnur störf, og forðast að stofna til óheilbrigðrar samkepni við atvinnuvegina um vinnuafl.

Það hefir verið drepið á aðstreymið til Reykjavíkur. Það er fjöldi manna, sem flytur hingað vistferlum, og þá ekki síður margir, sem leita hingað til þess að fá atvinnu, jafnvel á þeim tímum, sem ekki er næg vinna fyrir bæjarmenn. Það verður að segja sannleikann í hverju máli. Og sannleikurinn í þessu máli er sá, að í Reykjavík er verkakaup um 60% hærra mest alt árið heldur en í nálægum landshlutum. Tímakaup er hjer kr. 1,20, en 70–75 aurar fyrir austan Hellisheiði og uppi í Borgarfirði. Þessi munur hefir það aðdráttarafl, sem enginn kraftur megnar að standa á móti. Menn leita hingað til þess að fá það kaup, sem þykir mjög hátt í þeirra bygðarlagi, hvernig sem við því er reynt að sporna. Á þetta kemst ekki rjetting fyr en kaup verður jafnara, hækkar í sveitum eða lækkar hjer svo mjög, að munurinn verði ekki meiri en því nemur, hve miklu dýrara er að lifa hjer í bænum. Jeg hygg, að þessi jöfnuður muni koma ósjálfrátt, og hverfur þá um leið sterkasta hvatningin fyrir þá, sem hugsa til að flytja vistferlum til Reykjavíkur.

Þar sem hæstv. stjórn hefir nú tekið að sjer þetta verkefni, að safna skýrslum um atvinnuleysi meðal allra verkfærra manna á landinu, er í raun og veru ekki ástæða til að rísa í gegn því. Þó er jeg hræddur um, að það muni mishepnast að gera þetta á þann hátt, að það verði landinu til gagns eða stjórninni til heiðurs. En henni er ekki of gott að reyna. Jeg gæti því látið 1. lið tillögunnar afskiftalausan. En í hinum liðunum er bent á aðra leið til þess að bæta, úr atvinnubresti en jeg tel rjettmæta, og mun jeg því greiða atkv. á móti þeim.