03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í D-deild Alþingistíðinda. (3206)

152. mál, sjúkravistarstyrkur handa geðveikum þurfamönnum

Pjetur Ottesen:

Jeg skal lofa að tefja ekki umræðumar lengi. Hv. 1. þm. Ám. (EE) hefir fallist á brtt. mínar og viðurkent, að með því væri málinu betur komið. Mjer fanst ekki ástæða til þess að láta ákvæðið um meðlagsstyrkinn ná til annara en þurfamanna, en það var ekki tekið fram í upphaflegu tillögunni. Þá hefi jeg líka sett ákvæði um hámark meðlagsins, og geri það 8 kr. á dag. Fanst mjer ástæða til að athuga, hvort kostnaðurinn þyrfti að fara fram úr þessari upphæð. Nú sem stendur mun meðlagið vera 10 kr. á dag, að því sem mjer hefir verið tjáð, en þó er mjer kunnugt um, að nýlega hefir verið komið sjúkling þangað með 8 kr. meðlagi á dag. Þar sem alt er nú aftur að lækka, þá ætti sú upphæð, sem jeg tilnefndi, ekki að vera fjarri sanni. Þá hefði jeg talið æskilegt, að hv. flm. (EE) hefði gert nokkra grein fyrir því, hvaða kostnað þetta hefði í för með sjer fyrir ríkissjóðinn, ef tillagan yrði samþykt. Hygg jeg líka, að hann hafi hlotið að leita sjer upplýsinga um þetta, enda auðvelt, því ekki þarf annað en vita um það, hvað hælið tekur marga sjúklinga, því óhætt mun að ganga út frá því, að það sje alskipað, eftir því sem sagt er um aðsóknina.

Síðasta atriðið í brtt. minni er um það, að eftirlitið sje í höndum heilbrigðisstjórnarinnar; það er auðvitað sjálfsagður hlutur, að svo sje, og því sjálfsagðara, ef ríkissjóður tekur þátt í kostnaði við dvöl sjúklinga þarna. Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.