24.02.1923
Efri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

21. mál, ríkisskuldabréf

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Það er tekið fram í athugasemdunum við frv., í hvaða tilgangi það er komið fram. Þar er minst á þá þýðingu, sem það hefir fyrir hvert land, hvernig lánum þess er fyrir komið, sjerstaklega hvort þau eru útlend eða innlend, í erlendum gjaldeyri eða ekki. Ástandið í þessu efni er varhugavert sem stendur hjer á landi og það er heldur of lint en of hart tekið til orða í athugasemdunum við frv., þar sem sagt er, að af tekjum landsins fari í vexti og afborganir. Því þó að tekjurnar teljist 8 miljónir kr., þá eru þær það ekki í raun og veru. Ýmsir tekjuliðir hverfa alveg í samskonar gjöld, eins og t. d. póst- og símatekjur. Þar er ekki um afgang að ræða. Tekjurnar eru því varla meira en 61/2 milj. kr., en vextir og afborganir af lánum um 2 milj. kr. Af þeim er rúmur 1/3 af vöxtum og tæpur 1/3 af afborgunum í innlendum lánum.

Í þessu efni er nú komið sem komið er, en það er hægt að reyna framvegis að hafa þau lán, sem tekin verða, innlend. Þetta getur þó ekki átt við nema smærri lán, eins og t. d. til síma, brúagerða, vegalagninga o. s. frv.; yfirleitt til smærri verklegra framkvæmda. Komið getur fyrir, að taka þurfi svo stór lán, að eigi sje hægt að fá þau hjer innanlands. Þarf þá sjerstaka lagaheimild fyrir því, og ganga þá vitanlega þau sjerstöku lög fyrir þeim almennu ákvæðum, sem þetta frv. inniheldur. Frv. bendir aðeins á aðalleiðina, en utan þess geta ýms sjerlög komið til greina.

Tilhögun sú, sem frv. fer fram á að höfð sje á skuldabrjefunum, er meðal annars gerð með hliðsjón af því, að þau keppi ekki við veðdeildarbrjefin.

Það er altaf svo, að betur sjá augu en auga, og er jeg fús til að taka til greina uppástungur til umbóta á fyrirkomulaginu, ef þær koma fram. Jeg leyfi mjer að leggja til, að frv. að þessari umr. lokinni verði vísað til fjárhagsnefndar.