11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3223)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Hæstv. forsrh. (SE) spurði um sakir; kvað hann vera vana við svona löguð tækifæri að koma fram með þær, og að öðrum kosti hefði hann hjer ekkert að segja. það má vera, að þetta sje rjett, en jeg held þó, að jeg fari rjett með, er jeg fullyrði, að hjer hafi áður verið borið fram vantraust, án þess að farið væri ítarlega út í það, á hverju það væri bygt, öðru en því, að flutningsmennirnir væru óánægðir með stjórnina og vildu ekki, að hún færi með völd lengur. En úr því að jeg er spurður, sje jeg ekkert á móti því að fara dálítið út í það. Hæstv. ráðherra hefir hvatt mig til að gefa skýringu.

Jeg var í hópi þeirra þm., sem hafði heiðurinn af því eða átti sök á því, eftir því sem á er litið, að þessi stjórn varð til. En nú er jeg kominn að þeirri niðurstöðu, að við höfum ekki verið hepnir í valinu. Jeg fann mig knúðan til að lýsa því yfir á þennan hátt; annars mætti halda, að jeg væri enn stuðningsmaður stjórnarinnar.

Þá er ekki óeðlilegt, þótt spurt sje, af hverju jeg hafi orðið óánægður með stjórnina. Vil jeg nú skýra frá því í sem stystu máli. Það kom fram bráðlega, þótt ekki væri því veitt athygli í byrjun, að hæstv. stjórn var óheppilega saman sett, og því lengra, sem á stjórnartímann leið, því betur skýrðist, að sín hver var tilætlunin hjá hverjum ráðherranna og að þeir höltruðu sitt á hvað. Þessi skoðun mín hefir sannast á aðgerðum hæstv. stjórnar utan þingsins, og um hið sama, hvað stjórnin er sundurleit og óeðlilega samsett, munu allir þeir vera sannfærðir, sem fylgst hafa með því, sem gert hefir verið, og því, sem rætt hefir verið og ályktað hjer á þessu þingi. Ætla jeg þessu til sönnunar að nefna óhlutdræg dæmi, sem sanna, að stjórnin hefir togast milli ólíkra skoðana í þinginu, og skal jeg þá fyrst nefna bankamálið. Heitasta ágreiningsatriðið var það, hvort skipa ætti þingnefnd á Íslandsbanka. Þar skiftust hv. þm. eftir flokkum, og hæstv. landsstjórn hneigðist að skoðunum annars höfuðflokksins. Hins vegar höfum vjer aftur á móti fyrirspurnina um steinolíueinkasöluna, þar hefir hæstv. stjórn verið hallmælt af ýmsum hv. þm., en hjer skaut svo skökku við, að sú leið, sem hæstv. stjórn hafði valið í þessu máli, var samkvæm stefnu hins flokksins, sem hún var andstæð í bankamálinu. Þessi 2 dæmi sýna glögglega, að afstaða hæstv. stjórnar til hv. þm. hefir verið tvíræð og óheppileg og að hæstv. ráðherrar hafa togast á milli þingflokka eða kosningasambanda, einhvern veginn af handahófi, og það í höfuðmálunum, er nú skifta helst flokkum. Því er ekki nema eðlilegt, að jeg spyrji,. hverjir 42 þm. styðji hæstv. landsstjórn, eða hvort það sjeu máske allir, þar eð hún fylgir skoðun annars flokksins í einu málinu, en skoðun hins flokksins í hinu málinu, eða þá engir, þar sem hún fylgir ekki til hlítar stefnu neins flokks eða pólitisks bandalags í þinginu.

Í haust verður gengið til nýrra kosninga, og álíta sumir, eins og fram hefir komið nú í rökstuddri dagskrá, sem er að gægjast fram, að því óþarfara sje að spyrja um traust stjórnarinnar, er komið er að þinglausnum og svona stendur á um kosningar. Jeg aftur á móti álít, að mikil ástæða sje til, og jafnvel nauðsynlegt, að leitað sje þessara upplýsinga áður en þingi er slitið, og það því fremur, er þm. eiga með nýjum kosningum að standa sjerstakan reikning ráðsmensku sinnar. Þegar kosið er til Alþingis, þá er venja að spyrja: Um hvað á að kjósa? Enn þá hefir ekki verið leyst úr spurningunni. Ekkert hefir komið fram í þinginu, er skýri það, og úr því að svo fór, þá áleit jeg rjett að koma með vísbendingu um það, hvernig hæstv. stjórn stæði að ýmsum málum og hverjir styddu hana. Hefir hæstv. stjórn einhverja stefnu og þá hverja, og hvaða þingmenn standa þar að? Þetta hvorttveggja verður að upplýsast áður en hv. þm. halda heim til sín. Þeir mega ekki hafa þá afsökun, að þetta hafi ekki borist í tal á þinginu, og leika tveim skjöldum, eftir því, sem best hentar við kjósendur. Nóg er óvissan um mörg þingmálin, þótt þetta sje ekki einnig falið á bak við tjöldin alveg að ástæðulausu. þessi hálfleyfðu mök og loddaratök, sem um of eiga sjer stað með þingflokkum og hæstv. ráðherra, mega ekki viðgangast og eru siðspillandi á meðan það líðst. Þing og stjórn á að segja til litar.

Í viðbót við það, sem jeg hefi nú þegar sagt, vil jeg geta þess, — sem oft er minst á á svona dögum —, að mjer finst full ástæða til þess að spyrja, hvernig hæstv. landsstjórn getur látið sjer lynda slíka meðferð, sem orðið hefir hjer í hv. þingi á ýmsum frumvörpum hennar, og þar á meðal þeim, er hún hefir gert að kappsmáli. Nægir þar að nefna sýslumannafrv., þetta handahófshrófatildur, sem var bygt eins og spilahús og fjell eins og spilahús. — Er stjórninni sama um öll málalok, alt þingfylgi, sama um alt, annað en að vera stjórn? Manni verður að spyrja, hvort svo sje ekki.

Þetta er nóg í bili, en ef hæstv. stjórn æskir, skal jeg minnast nánar á gerðir hennar í einstökum málum; jeg bíð þess að heyra, hvað hún vill fara langt.