11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Forsætisráðherra (SE):

Eftir að hafa heyrt þessa ræðu, verð jeg að efast stórlega um, að hv. 1. þm. Árn. (EE) sje fær um að flytja vantraustsyfirlýsingu. Hann mintist á rökstuddu dagskrána, sem hann bar fram, þegar þingsályktunartillögurnar um landhelgisgæsluna voru hjer til umræðu á dögunum. Hæstv. forseti neitaði að bera dagskrána undir atkvæði, en hv. þm. (EE) mun ekki hafa gleymt því, að jeg óskaði þess, að atkvæðagreiðsla færi fram um hana. En annað mál er það, að þegar litið er á það, að einn af stuðningsmönnum stjórnarinnar kom svo skyndilega með dagskrána, þá verður því ekki neitað, að hún minnir æðióþægilega um hnífstungu í bakið. En það mál verður hv. þm. (EE) auðvitað að gera upp við sína eigin samvisku; jeg læt mjer það alt í ljettu rúmi liggja.

Hv. þm. (EE) sagði, að stjórnin væri illa samsett, en jeg get lýst yfir því, að núverandi ráðherrar eru mjög vel samtaka og vinna í góðu samræmi hvor við annan, og mun hv. þm. hafa heyrt hvorugan okkar kvarta yfir samvinnunni.

Þá vjek hann nokkrum orðum að bankamálinu, rannsókninni á Íslandsbanka, en ekki ætla jeg, að hann geti komið fram vantrausti fyrir mál, sem stjórnin naut stuðnings í af meiri hluta þingsins.

Því næst vjek hann að steinolíueinkasölunni. Jeg er og hefi altaf verið með frjálsri verslun; jeg hefi haft þá sjerstöðu, eins og svo margir aðrir, sem eru með frjálsri verslun, að jeg hefi getað fallist á, að einkasala væri á steinolíu, af þeirri ástæðu, að jeg hefi litið svo á, að in re vera væri steinolíuverslunin einokunarverslun. Og þetta er í fullu samræmi við það, að lögin, sem heimila einkasölu á steinolíu, eru borin fram af manni, sem fylgir frjálsri verslun fastlega.

Þá vjek hv. þm. (EE) að því, að stjórnin hefði átt að biðjast lausnar, þegar frv. hennar um embættaskipunina fengu ekki fram að ganga. (EE: Ekki sagði jeg nú það). Nú, já! En þá er heldur ekki vert að deila lengi um það. Jeg tók það fram, þegar frv. um embættaskipunina var til umræðu í hv. Nd., að þar væri á ferðinni framtíðarmál, og að í raun og veru skifti það mjög litlu máli, hvort frv. yrði samþ. á þessu þingi eða næsta þingi, því að lögin myndu hvort sem er ekki koma til framkvæmda á þessu ári, heldur yrði beðið eftir því, að embætti þessi losnuðu. Enn fremur er svo langt frá því, að það sje fordæmalaust, að stjórn sitji áfram, þótt frumvörp hafi verið feld fyrir henni. Stjórnir hafa setið hjer á landi, þó frumvörp hafi verið strádrepin fyrir þeim. Jeg geri ráð fyrir því, að hv. þm. (EE) hafi athugað, hvaða afleiðingar það mundi hafa, ef vantraust þetta yrði samþ., og að hann bæði vilji og hafi fyrirfram trygt sjer, að hann gæti myndað eða gengist fyrir því, að mynduð yrði ný stjórn. Hv. þm. sagði ekkert, sem í minsta máta gat sært mig, og á jeg því mjög erfitt með að taka rjettilega á móti þessu mjúka vantrausti. Jeg bjóst við harðúðlegri árás, en í stað þess er mjer ánægja að hlusta á flutningsmann vantraustsins, og ef hann, eins og jeg hafði ástæðu til að ætla, er sá harðasti á móti stjórninni, þá verður ekki annað sjeð en að stjórn þessi sitji með óvenjulega mikið og gott þingfylgi að baki. (EE: Óskar hæstv. forsrh. eftir meiru?). Já! Ef jeg á að bera fram varnir, þá bið jeg hv. þm.(EE) í annað sinn að flytja fram sakir og koma nú fram með alt það versta, sem hann veit um stjórn þá, er enn fer með völdin, og umfram alt draga ekkert undan. Jeg er fullviss um, að öllum hv. þm. þykir það mjög óviðkunnanlegt, að flutningsmaður vantraustsins skuli hafa gleymt að rökstyðja það, og víst er um það, að þegar þjóðin heyrir, að borið hefir verið fram vantraust á stjórnina, þá mun hún skilyrðislaust spyrja um, fyrir hvaða sakir það hafi veriðog maður hefði vænst þess að alt væri svo að segja búið nema að slíta þingi. En nú hefir komið það babb í bátinn, að þingið er nú knúð til að fara að ræða vantrauststillöguna á þskj. 607, sem kom í fyrradag eins og þruma úr heiðríkju.

Áður en þessi tillaga kom fram, var svo að segja búið að ákveða þingslit. Jeg og aðrir þingmenn að austan og þingmenn að norðan ætluðum með Esju í kvöld kl. 11, og eftir okkur var skipið látið bíða.

Jeg ætla mjer nú ekki að fara að átelja flm. þessarar tillögu (EE) svo mjög. En mjer sýnist aðeins að 12 vikur sje óþarflega langur umhugsunartími til að koma með svona tillögu, og jeg ætla að benda á það, að ef nú á að fara að bramla í stjórnarskiftum, förum við ekki með Esju í kvöld, og óvíst, eins og flokkum hagar nú í þinginu, að greiðlega gangi að mynda stjórn, ef þessi fjelli. Og þar sem kosningar eiga að fara fram á næsta hausti, finst mjer rjettara að bíða með þolinmæði eftir því, hvernig þær fara.

Jeg verð að halda því fram, að engum sje þjent með því, að þessi tillaga vefjist lengi fyrir hjer í þinginu: Ekki þjóðinni; það lengir þingið og gerir kostnað. Ekki fylgismönnum stjórnarinnar, og naumast stjórnarandstæðingum heldur, þótt hún næði samþykki, því óvíst er, hvernig gengur að mynda stjórn. Jeg held, að það sje því besta lausnin á þessu, að þingið vísi tillögunni frá. Leyfi jeg mjer því að bera fram svo felda rökstudda dagskrá:

Með því að Alþingi hefir nú staðið nærfelt 3 mánuði, þinglausnir ákveðnar og kosningar fyrir dyrum, finnur þingið ekki ástæðu til þess að afgreiða þessa tillögu, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.

Um leið og jeg svo lýk máli mínu, leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta dagskrána. Og enn spyr jeg, hvar sakirnar sjeu.