11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Þorleifur Jónsson:

Þingið er nú búið að standa, eftir því sem mjer telst til, í 86 daga. Það er orðið eitt af hinum lengri þingum. Fjárlögin eru samþykt, og maður hefði vænst þess að alt væri svo að segja búið nema að slíta þingi. En nú hefir komið það babb í bátinn, að þingið er nú knúð til að fara að ræða vantrauststillöguna á þskj. 607, sem kom í fyrradag eins og þruma úr heiðríkju.

Áður en þessi tillaga kom fram, var svo að segja búið að ákveða þingslit. Jeg og aðrir þingmenn að austan og þingmenn að norðan ætluðum með Esju í kvöld kl. 11, og eftir okkur var skipið látið bíða.

Jeg ætla mjer nú ekki að fara að átelja flm. þessarar tillögu (EE) svo mjög. En mjer sýnist aðeins að 12 vikur sje óþarflega langur umhugsunartími til að koma með svona tillögu, og jeg ætla að benda á það, að ef nú á að fara að bramla í stjórnarskiftum, förum við ekki með Esju í kvöld, og óvíst, eins og flokkum hagar nú í þinginu, að greiðlega gangi að mynda stjórn, ef þessi fjelli. Og þar sem kosningar eiga að fara fram á næsta hausti, finst mjer rjettara að bíða með þolinmæði eftir því, hvernig þær fara.

Jeg verð að halda því fram, að engum sje þjent með því, að þessi tillaga vefjist lengi fyrir hjer í þinginu: Ekki þjóðinni; það lengir þingið og gerir kostnað. Ekki fylgismönnum stjórnarinnar, og naumast stjórnarandstæðingum heldur, þótt hún næði samþykki, því óvíst er, hvernig gengur að mynda stjórn. Jeg held, að það sje því besta lausnin á þessu, að þingið vísi tillögunni frá. Leyfi jeg mjer því að bera fram svo felda rökstudda dagskrá:

Með því að Alþingi hefir nú staðið nærfelt 3 mánuði, þinglausnir ákveðnar og kosningar fyrir dyrum, finnur þingið ekki ástæðu til þess að afgreiða þessa tillögu, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.

Um leið og jeg svo lýk máli mínu, leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta dagskrána.