11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal strax taka það fram, að jeg greiði ekki atkv. um þessa rökstuddu dagskrá, sem nú er fram komin. Vantraustsyfirlýsinguna frá einum af stuðningsmönnum stjórnarinnar skoða jeg sem merki um, að kominn sje einhver tvískinnungur í stjórnarliðið, en hin rökstudda dagskrá ætlar að reyna að bæta úr því. Þennan tvískinnung ber því sjálfsagt að skoða sem fjölskyldumisklíð innan vebanda hv. stjórnarliðs. það, sem hefir viljað til, er aðeins það, að eitt góða barnið hefir tekið að æpa og hrína, og getur það vitaskuld verið óþægilegt fyrir fjölskylduna, en hins vegar er ekki ástæða til fyrir þá, sem eru utan fjölskyldunnar, að blanda sjer í þetta. Fjölskyldan sjálf verður að reyna að jafna þetta með sjer. Geti hún það með dagskránni, þá er það sjálfsagt ágætt fyrir hana, en fyrir hina, sem ekki áttu þátt í myndun hæstv. stjórnar, sje jeg enga ástæðu til, að þeir fari að greiða atkv. um dagskrána. Hefði hv. 1. þm. Árn. (EE) verið alvara með þetta vantraust sitt, þá hefði hann átt að bera það fram fyr en á 11. stundu, en sú afsökun fyrir drættinum, að hann hefði búist við vantraustsyfirlýsingu frá andstæðingum stjórnarinnar, er vitleysa, því að hann vissi mætavel, að slíkt hafði aldrei komið til mála og að andstöðuflokkurinn kærði sig ekki um stjórnarskifti, fyr en að afloknum kosningum. Þessi vantraustsyfirlýsing á síðustu stundu kemur því flestum á óvart. Ýmsir halda, að hv. 1. þm. Ám. (EE) hafi fengið nokkurskonar flog, og sýnist það ekki ólíkleg tilgáta fyrir oss, sem vorum með honum á þinginu 1921, því að þá fekk hann samskonar tilfelli eða flog svo að segja reglulega einu sinni í viku. Jeg sagði honum þá, að hann væri kolamokari á kafbátnum, og átti jeg þá við það, að honum væri otað fram af öðrum. Nú sje jeg, að hann er enn kolamokari og hefir því ekkert hækkað í tigninni síðan 1921. Jeg er sem sje ekki í efa um, að í raun og veru er hjer á ferðinni sami kafbáturinn og 1921. En jeg sakna þess, að hv. 1. þm. Rang. (GunnS) skuli ekki vera með nú sem fyr, en jeg skil, að það muni vera af því, að hæstv. landsstjórn hefir stungið upp í hann 9–10 þús. kr. bita. En hefði hún verið svo hyggin að gera hið sama við hv. 1. þm. Árn. (EE), þá hefði henni nú vegnað betur, og jafnvel verið alveg borgið, því að þá hefði hv. þm. ekki flutt vantraustsyfirlýsingu.

Hvað hæstv. stjórn snertir, þá tel jeg, að hún verði að viðurkenna, að það hafi á þessu þingi verið að öllu leyti „loyal opposition“ af hálfu mótstöðuflokksins. Við höfum fylgt þeim málum, sem við álitum að verðskulduðu stuðning, alveg án tillits til þess, hver bar þau fram. Svo hefir mótstöðuflokkurinn verið, og þannig á hann ætíð að vera. Hugur vor er engu að síður óbreyttur, en sá hluti þingsins, sem ekki stóð að stjórnarmynduninni í fyrra, er ekki nógu fjölmennur til þess að mynda stjórn, og kærir sig enda heldur ekki um það fyrir næstu kosningar. Ef því til stjórnarbreytingar kemur, þá verður það fyrir tilstilli stuðningsmanna núverandi hæstv. stjórnar. Ekki fýsir mig heldur að taka höndum saman við hv. 1. þm. Árn. (EE) um myndun nýrrar stjórnar. Jeg tek undir það með hæstv. forsætisráðherra (SE), að þessi vantraustsyfirlýsing sje mjög aumlega flutt og aðeins einskonar fimbulfamb. það er reynt að sýna fram á það, að hæstv. stjórn sje ekki sammála sínum eigin flokki, en það verður að jafnast innan fjölskyldunnar sjálfrar, en ómögulegt að ætlast til þess, að við skerumst í leik, þó að einn krakkinn orgi eða hríni. Óþæga krakkann verða aðrir meðlimir fjölskyldunnar sjálfir að hugga eða sefa, eftir því, hver ástæðan er til óhljóðanna.

Að því er snertir orð hv. flm. (EE) um það, að stjórnin sje mjög óheppilega samsett, þá vil jeg benda á það, að það var ilt, að hann skyldi ekki taka eftir þessum smíðagalla í fyrra, er hann, ásamt öðrum, timbraði henni saman. Annars er rjett að benda á, að einn liðurinn er nú farinn úr henni, og það sá, sem öllum mun koma saman um, að hafi verið ónýtasti liðurinn. — Jeg skal ekki fara neitt út í þessi atriði, sem hv. flm. (EE) nefndi, bæði steinolíuna og bankamálin, því þar var aðeins um frásagnir að ræða, sem ekki koma málinu við. Þarf jeg svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en tek það fram aftur, að jeg greiði ekki atkvæði um dagskrána, sem fyrir liggur.