11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Hákon Kristófersson:

*) Eftir að þing hefir nú staðið í 3 mánuði og þinglausnir verið ákveðnar, hefir hjer skeð sú nýlunda, að einn hv. þm. kemur fram með vantraust á hæstv. stjórn. Þori jeg að fullyrða, að það muni vera álit þorra hv. þm., að eins og á stendur, þurfi meira en lítið áræði til að gera slíkt. Hv. flm. (EE) bar það fram sem ástæðu í framsöguræðu sinni, að hann hafi sífelt verið að vænta þess, að einhver yrði til að bera fram vantraust á stjórnina. En þær vonir hafi svo brugðist og hann hugsað, er komið var fram á lokadag þingsins, að betra væri seint en aldrei. Nú er ekki því að heilsa, að margir menn í þinginu standi að baki þessum hv. þm., því það er nú upplýst, að enginn úr hans flokki er þar með honum. Hjer við bætist svo, að hv. flm. (EE) hefir ekki enn þá komið fram með neitt atriði, sem stjórnarandstaða verði bygð á, og má vantraustsræða hans að því leyti teljast einhver hin ámátlegasta, sem flutt hefir verið. Jeg get því ekki betur sjeð en að hjer sje á ferðinni skrípaleikur hálfvaxinna barna, en ekki alvarlegar framkvæmdir fullveðja þm. fullveðja ríkis. Og jeg tel þennan skrípaleik misbjóða svo virðingu þingsins, að jeg tel mjer ekki sæma að eiga neinn þátt í honum, og geng því af fundi. En hins vegar get jeg vel unnað þeim hv. þm., sem sitja vilja lengur, þeirrar ánægju að hlýða á þær viturlegu ræður, sem þessi sæmdarmaður hefir að bjóða.

*) HK hefir ekki yfirlesið ræðuna.