11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í D-deild Alþingistíðinda. (3234)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal vera skammorður. Það eru aðeins örfá orð í ræðu hv. flm. till. (EE), sem jeg þarf að svara. Hann sagði, að ummæli mín væru sprottin af því, að hann hefði stutt að því að koma mjer úr stjórninni. Þetta er misskilningur hjá hv. þm., því að honum var vel kunnugt um, að jeg átti kost á því að vera áfram í stjórn, hefði jeg viljað. Þetta eru því sömu sparðaköstin og áður hjá hv. þm.

Hv. 1. þm. Rang. (GunnS) vil jeg segja það, að jeg get látíð mjer vel lynda, ef það versta, sem hann getur sagt um mig, er það, að jeg hafi svo mikið traust, að jeg hafi verið kosinn yfirskoðunarmaður landsreikninganna og málfærslumaður landsverslunarinnar. Svo mikið er víst, að ekki buðust honum þessi störf, og hefði hann þó máske getað bætt þeim við sig.

Viðvíkjandi fiskkaupunum get jeg sagt það, að hann mun ekki hafa keypt hann á uppboðinu, heldur fengið hann síðar í braski, en það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að hann gat ekki borgað hann. Hefði hann ekki fengið uppgjöf hjá stjórninni, þá var ekkert annað en gjaldþrot fyrir höndum; og hvernig fór þá um þingsætið ?

Svigurmælum þessa þm. (GunnS) skifti jeg mjer ekkert af. Sjálfshóli hans hlægja allir að, nema hann. Allir vita, að hann getur ekki snúið sjer við sökum fjárhagslegs ósjálfstæðis. Og hefðu ekki orðið stjórnarskifti í fyrra, væri hann ekki þingmaður nú.