11.05.1923
Sameinað þing: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í D-deild Alþingistíðinda. (3237)

160. mál, vantraust á núverandi stjórn

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hefi ekki fundið ástæðu til þess að taka til máls við þessar umræður, því embættisbróðir minn, hæstv. forsrh. (SE), hefir svarað svo fullkomlega því, sem hjer hefir komið fram, að jeg hefi eiginlega engu orði þar við að bæta, enda eru ástæðurnar fyrir vantraustinu, þegar loksins þær hafa verið togaðar út, svo almenns eðlis, að ekki þarf að fjölyrða mikið um þær sjerstaklega. Það eru því aðeins tvö eða þrjú atriði, sem jeg þarf að víkja lítillega að út af ummælum hv. 1. þm. Árn. (EE). Hann talaði um það, að stjórnin hefði ekki gert skyldu sína um eftirlit með sparisjóðnum á Eyrarbakka. Þetta mál heyrði ekki undir mig, og jeg hafði enga þekkingu til þess máls, nema af tilviljun, að jeg kom einu sinni inn til fyrv. fjrh. (MagnJ), meðan hann var að tala við forstöðumann sparisjóðsins; var það um mánaðamótin janúar og febrúar. Málið heyrði eingöngu undir fjármálaráðherrann, og hv. þm. (EE) verður því að snúa sjer til hans og beina árásum sínum út af þessu að honum, þótt það sje einmitt sá sami, sem hann segist hafa borið mest traust til í stjórninni.

Þá er það hv. 1. þm. Reykv. (JakM), sem sagðist hafa sett það sem skilyrði fyrir fylgi við stjórnina, að hún væri með frjálsri verslun. Mjer er alveg ókunnugt um þetta skilyrði, en hann hlaut þó að vita það, að jeg var og hafði lengi áður verið með einkasölu á sumum vörutegundum. Annars skal jeg ekki fara að vekja upp aftur nýafstaðnar umr. um það mál, en vísa aðeins til ummæla minna þar.

Hv. 1. þm. Rang. (GunnS) skoraði á mig að segja, hvað satt væri um fisksöluna í Viðey 1921. Mjer er forsaga þess máls ókunn, nema jeg heyrði ávæning af því, eins og margir aðrir, að þessi fiskur hefði gengið kaupum og sölum, en reynst ónýtur. Hitt er mjer kunnugt, að sýslumaðurinn í Hafnarfirði skrifaði stjórnarráðinu og sagðist eiga útistandandi frá þessu uppboði 9–10 þús. kr., sem hann byggist ekki við að fá inn, og bað því um eftirgjöf á því. Og þar sem viðkomandi skrifstofustjóri, sem málinu var nákunnugur, hafði sjálfur verið í útflutningsnefnd og hafði látið selja þennan umrædda fisk, sagði eitthvað á þá leið, í umsögn sinni um málið, að þessi eftirgjöf væri fullforsvaranleg, var hún veitt. Þetta eru heldur engin einsdæmi, hvorki fyr nje síðar, og treysti jeg mjer til að benda á ýms lík tilfelli, ef jeg færi í leit eftir þeim. Annars kemur þetta vantraustinu í sjálfu sjer lítið við, og get jeg því lokið máli mínu.