11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

129. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg geri ekki ráð fyrir því, að skoðanir deildarmanna muni verða skiftar um þessa þáltill. Það er ekki til nema einn vísir að húsmæðraskóla hjer á landi, en það er deild við kvennaskólann hjer í Reykjavík. En hins vegar eru hjer 2 bændaskólar. Hjer hallast því á, kvenfólkinu í óhag. Jeg býst við, að deildarmenn muni vita, hvernig máli þessu er varið. Merkiskona í Flatey gaf eigur sínar til kvennaskóla á Vesturlandi, og er sá sjóður nú um 100 þús. krónur. Við þetta bætist, að Magnús Friðriksson á Staðarfelli gaf landinu jörð sína með húsum, til þess að hún yrði notuð sem skólasetur. Þar við bætist, að þegar þingið hafði fyrir 3 árum til meðferðar stofnun húsmæðraskóla á Norðurlandi, þá var ungri konu veittur styrkur til náms erlendis. Skóli þessi kom aldrei til framkvæmda, sökum fjárhagsörðugleika, en konan gekk í skóla bæði í Danmörku og Svíþjóð og er til staðar og hefir fengist við kenslu og fengið ágætt orð. Skortir því hvorki stað, peninga nje kenslukrafta.

Það er gert ráð fyrir því, að stjórnin rannsaki og undirbúi mál þetta í samráði við forseta Búnaðarfjelagsins. Hann er maður mjög áhugasamur um slíka hluti og þaulkunnugur þesskonar skólum erlendis, og því heppilegur ráðunautur.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á kostnaðarhliðina. Jeg gæti hugsað, að sumum kynni að finnast það mæla á móti þessu máli, ef framkvæmd þess bindur landssjóði einhverja bagga. En jeg held, að svo þurfi ekki að vera. Það má haga framkvæmd þessa máls á tvennan hátt. Það má byrja í smáum stíl, hafa svo sem 12 nemendur. Þá þarf lítið að byggja í viðbót og þá má reka skólann með rentunum af Herdísarsjóðnum. Þannig er hugsanlegt, að skólinn starfi án nokkurs framlags af hálfu ríkissjóðs. Hin leiðin er sú, að byrja í stærri stíl og hafa fleiri nemendur. En jeg álít þá leið ekki rjetta. Jeg hygg, að betra sje að byrja smátt meðan verið er að þreifa fyrir sjer, hvernig slíkt fyrirtæki getur best þrifist. Þeim til fróðleiks, sem ekki hafa komið að Staðarfelli, skal jeg geta þess, að þar er með stærstu steinhúsum, sem jeg hefi sjeð til sveita. Það er enginn vandi að hafa þar skóla fyrir 12 nemendur og auk þess reka bú. En ef þarf að byggja, þá er þessi sjóður til. Ef byrjað verður í smáum stíl, þá þarf ekki að breyta ábúðinni, sem nú er þar. Þar situr nú sýslumaður Dalamanna og hefir stórt bú. Það er ekki hægt að setja upp skólabú, nema með ærnum kostnaði. Þá þyrfti að kaupa búsmala, en vafasamt er, hvort á að gera það að svo vöxnu máli.

Jeg held, að það sje óhætt fyrir hv. deild að samþykkja þessa þáltill. það er enginn byrðarauki fyrir ríkissjóð fyrst í stað, en verður það máske, er fram líða stundir; en við því er ekki hægt að gera, því að óhugsandi er að komast hjá því til lengdar, að ríkissjóður verji fje til sjermentunar kvenna.