11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

129. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Flm. (Jónas Jónsson):

Sú von mín hefir því miður ekki ræst, að allir mundu vera sammála um mál þetta hjer í þessari deild. En það þótti mjer undarlegt, að mótmæli skyldu koma frá þingmanni, sem er fulltrúi fyrir kjördæmi, sem einna mest not mundi hafa af skólanum, ef hann kæmist á stofn. Þessi hv. þm. (HSt) kom með skýringu á því, að jörðin Staðarfell hafi verið keypt, en ekki gefin. Jeg þykist nú vita, að honum sje það jafnljóst og mjer, að það kemur ekkert þessu máli við.

En af því hv. þm. Snæf. (HSt) áleit, að Staðarfell hafi verið fremur selt en gefið, þá má hann saka þá stjórn og það þing, er tók við jörðinni, fyrir að hafa gert svo óhagfeldan samning, sem hann áleit að gerður hafi verið, og veit jeg ekki betur en að hv. þm. (HSt) væri fylgismaður þeirrar stjórnar, er með málið fór. En þetta er nú bara orðin saga. (HSt: Jeg beindi því ekki að neinum). En ef þetta er tekið sem ádeiluatriði, þá verður það þáverandi stjórn og þing, sem verður fyrir sökinni.

Annars ber okkur nú ekki svo mikið á milli um skólasetrið. Hann nefndi engan annan stað en Staðarfell. Ef hann hefði t. d. nefnt Helgafell, þá hefði jeg verið veikur fyrir, því jeg álít, að þeim fræga stað ætti að sýna einhvern sóma, með því að hafa þar skólasetur eða aðra opinbera stofnun. Er þá ekki annað eftir en það, að hv. þm. Snæf. (HSt) virðist vilja tefja fyrir því, að mál þetta komist til framkvæmdar. En jeg álít það vafasamt, hvort á að láta skólastofnunina bíða lengur, þegar flest skilyrði eru fyrir hendi, sem gerir skólanum fært að taka til starfa, þótt í smáum stíl sje í fyrstu.

Þá getur hv. þm. (HSt) ekki skilið í því ákvæði till., að stjórnin skuli ráðfæra sig við forseta Búnaðarfjelagsins. En þess ber að gæta, að stjórnin þarf ekki að fara að ráðum hans frekar en henni gott þykir. Annars er það alls ekki meining mín að gera neitt lítið úr stjórninni, þótt jeg telji, að hún geti haft gott af því að ráðfæra sig við jafnmætan mann og núverandi forseti Búnaðarfjelagsins er. Jeg álit, að hann gæti leiðbeint mikið í því, er að kenslu í búskap og að garðyrkju lýtur, einkum væri skólinn rekinn sem húsmæðraskóli og máske látinn standa alt árið, og þá í sambandi við búskap. Get jeg trúað, að stúlkur úr kjördæmi hv. þm. Snæf. (HSt) hefðu eigi ilt af því að læra nokkuð í garðrækt við þennan skóla.

Þá tel jeg undarlegt og óvanalegt að vísa svona máli til nefndar. (HSt: Það hefir þó stundum komið fyrir og einmitt nýlega verið gert). Jeg álít, að þetta mál liggi svo ljóst fyrir, að það sje hreinn og beinn óþarfi að tefja það með því. En vilji deildin það, þá má það auðvitað, enda mun það koma undir atkvæði deildarinnar fyrir því.

Ræða hv. þm. Snæf. (HSt) kom ekki málinu við, að því leyti sem hún var söguleg, nema þá sem ásökun á fyrv. stjórn. Alla rökfærslu vantaði fyrir því, að ekki mætti nota þekkingu Búnaðarfjelagsforseta við undirbúning málsins.

Af ræðu hv. þm. Snæf. (HSt) má sjá, hversu vanþekkingin er mikil hjá sjálfum þm. í þessu máli, og er einmitt þess vegna full þörf að tryggja sjer aðstoð annara, er betur vita.