10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

21. mál, ríkisskuldabréf

Björn Kristjánsson:

Fyrirvari minn á þskj. 72 á að þýða það, að jeg er í mjög miklum vafa um það, að frv. sje til nokkurra bóta eða nauðsynlegt. Að því er fyrirkomulag skuldabrjefa ríkissjóðs snertir, virðist það eigi nauðsynlegt að setja nein lög um það. Komi stjórn sjer saman um eitt ákveðið fyrirkomulag, þá mundu eftirfarandi stjórnir fylgja því.

Jeg tel mjög vafasamt, hvort nokkur not sjeu að því að ákveða vexti af lánum landssjóðs ef til vill löngu fyrirfram. Tel rjettara að ákveða þá í hvert skifti, er Alþingi ákveður að taka lán, sem miðast þá við ástand peningamarkaðsins eins og hann þá verður. Og enginn getur fyrirfram vitað um, hvað skeður næstu ár á fjármálasviðinu.

Þá er jeg í mesta vafa um, hvort bera mundi nokkurn árangur að bjóða fram ríkisskuldabrjef, sem greiðast fyrst eftir 25 ár. eins og fjárhagur manna er yfirleitt í landinu. þegar líka allir geta ávaxtað fje sitt í bönkunum á innlánsskírteinum með 41/2–5% og sex mánaða uppsagnarfresti.

Af því efnahagur manna yfirleitt er svo þröngur, forðast menn að setja fje sitt fast. Menn t. d. horfa í að binda fje fast á innlánsskírteinum í bönkum í 6 mánuði, þó þeir fái 1/2% hærri vexti. Þannig hafði t. d. Landsbankinn 31. des. 1921 í sparisjóði 181/2 milj. króna, en ekki nema kr. 3330000 í innlánsskírteinum.

Þetta liggur í því, að þó sparisjóðsupphæðin sje há, þá eru eigendurnir svo margir, að lítið kemur á hvern.

Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því, að jeg er í miklum efa um, að frv. þetta sje nokkur rjettarbót. Og jeg held mjer sje óhætt að segja, að hv. 2. þm. S.-M. (SHK) sje á líkri skoðun og jeg um þetta.