10.03.1923
Efri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

21. mál, ríkisskuldabréf

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Háttv. 2. þm. G.-K. (BK) taldi meðal annars óþarft að setja almenn lög um þetta efni, vegna þess, að stjórnirnar mundu sjálfar skapa sjer reglu um það, sem þær svo fylgdu hver eftir aðra, svo brjefin yrðu í sama móti. En einmitt slík lög sem þessi, er setja fasta reglu um framkvæmdir, sem fram eiga að fara smátt og smátt, hafa einatt verið gefin. Svo er t. d. um símalögin, vegalögin o. fl. Þessi lög, ef samþykt verða, miða því í sömu átt og hin, að setja fasta reglu.

Þingið veitir einatt fje og lánsheimildir til ýmsra framkvæmda án þess að setja nokkur ákvæði um það, hvernig fjeð skuli fengið og með hvaða kjörum og eftir hvaða reglu. Og slík lög og heimildir verða eflaust gefin framvegis.

Eins og jeg gat um við 1. umr., þá er einmitt gott að hafa fast form fyrir þessum smálánsheimildum, sem einatt eru gefnar til vega, brúa o. s. frv. Það er rjett í aðalatriðunum, að sem stendur yrði ekki um mikla sölu að ræða, enda ekki tilgangurinn að taka nú stór lán, heldur halda því opnu, að verja mætti föstum peningum, svo sem sjóðum og ónotuðum innieignum, til kaupa á þessum brjefum.

Eins og jeg gat um við 1. umr., þá álít jeg rjettara að hafa brjefin útdráttarlaus, meðal annars til þess að ekki verði samkepni milli veðdeildar- og ríkisskuldabrjefanna, heldur sje ákveðin aðgreining á þeim.