08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (3280)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg skal reyna að tala sem styst og ná tilganginum, að fá upplýsingar hjá hæstv. stjórn, án mikillar tímaeyðslu.

Hjer liggja í raun og veru fyrir tvær till. um sama mál. Að annari stöndum við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), og er hún á þskj. 304. Hina flytja þeir hv. þm. Snæf. (HSt), hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 1. þm. G.-K. (EÞ). Munurinn á þessum tveim till. er sá, að okkar till. fer fram á, að málið sje rannsakað fyrir næsta þing. Hin gerir ráð fyrir, að ályktað verði að fela stjórninni að byggja strandvarnarskip nú þegar. Þetta er býsna mikill munur, og þar að auki mun tillögumennina greina á um nokkur fyrirkomulagsatriði.

Jeg býst við, að allir sjeu ásáttir um það, að okkur vantar strandvarnarskip. Hafa Vestmannaeyingar riðið á vaðið og keypt sjer skip, sem hefir unnið þeim mikið gagn með því að vernda fiskimið þeirra og veiðarfæri.

Hins vegar er öllum ljóst, að enda þótt hjer sje skip um nokkum tíma á hverju ári frá Danmörku, þá eru þær strandvarnir fjarri því að vera nægilegar, og það því fremur, sem þessi erlenda þjóð hefir eðlilega ekki sömu ástæður til að gegna þeim með sömu árvekni og ætla mætti, að við gerðum sjálfir. Það getur enginn ætlast til, að þetta danska skip sje sífelt á sveimi umhverfis landið, og þess vegna kastar óánægjan, sem ríkir hjer á landi með strandvarnirnar, engum skugga á Dani, sem annast þær. Við getum ekki vænst betri strandvarna fyr en við tökum þær sjálfir í okkar hendur.

Nú hefir verið greidd gata að þessu marki, með því að leggja sektir, sem greiddar hafa verið fyrir ólöglega botnvörpuveiði, í sjerstakan sjóð, landhelgissjóð, sem verja á til bættra strandvarna. Þessi sjóður nemur nú ca. 620 þús. kr. og á að liggja í Landsbankanum. En reyndar mun því ekki svo varið, heldur hefir stjórnin smátt og smátt, að því er jeg best veit, tekið hann til sinna þarfa. En mjer hefir skilist það á hæstv. stjórn, að hún geti með litlum fyrirvara skilað aftur sjóðnum, og má því telja, að rúmar 600 þús. kr. sje handbærar hve nær sem er til þess að byggja fyrir strandvarnarskip. Er það góð hjálp, enda þótt gera megi ráð fyrir, að skipið verði allmiklu dýrara. En það er minstur vandinn að afla skipsins. Erfiðast verður að gera út skipið. Er þar nærri viss stórfeldur tekjuhalli. Sífeld sigling með ströndum landsins hefir í för með sjer gífurlega kolaeyðslu. Þá kostar mannahald, viðhald skipsins o. s. frv. mjög mikið. Enda er aðalhindrunin fyrir því, að skipið er ekki þegar fengið, sú, að þjóðin óttast, að útgerðarkostnaðurinn verði þungbær baggi.

Við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) viljum ekki skora á stjórnina að láta nú þegar byggja skip, nema hægt sje að tryggja verulega lækkun á útgerðarkostnaði þess. Er ólíklegt, að hægt verði að rísa undir honum nú sem stendur, ef tekjur skipsins verða ekki aðrar en sektir.

Það eru því tvö atriði, sem við flm. þáltill. á þskj. 304 viljum sjerstaklega láta rannsaka. Annað er, hvort hægt sje að minka kostnað við mannahald, hitt að auka tekjur skipsins, og það jafnvel að mun.

Jeg hefi átt tal um það við Nielsen forstjóra Eimskipafjelagsins, hvort ekki mætti láta fyrirhugað strandvarnarskip annast björgun meðfram, og taldi hann það ekki ósennilegt og vel þess vert, að rannsakað væri. Síðan hefir hann verið í Danmörku og meðfram spurst fyrir um það, á hvem hátt best mundi auðið að samræma þetta tvent.

Í morgun átti jeg enn tal við forstjórann, og gat hann þess, að vel mætti sameina þetta, en sín tillaga væri þó, að ekki verði gert ráð fyrir, að skipið verði eiginlegt björgunarskip, því að þá yrði það fyrst og fremst talsvert dýrara, vegna þess að vjelarnar þyrftu að vera mun kraftmeiri, ekki síst ef því yrði ætlað að annast öll björgunarstörf, þau er Geir nú annast. Þá bæri og að athuga, að skipið yrði oft upptekið dögum saman við sama strandið og gæti ekki sint strandvörnum á meðan. Aftur á móti mætti vel láta það annast hinar minni háttar bjarganir, t. d. svipaðar þeirri er Geir dró Þór á flot síðastl. vetur og tók að sögn 30 þús. kr. fyrir. Geta allir sjeð, að það væri ekki lítil hjálp, ef vonast mætti eftir mörgum slíkum „höppum“ fyrir væntanlegt strandvarnarskip. Álít jeg það vel þess vert, að rannsakað sje, hvort skipið eigi ekki einnig að fást við björgun, bæði á þann hátt, er Nielsen telur vel framkvæmanlegt, og jafnvel líka í stærri stíl.

það er hverjum manni sýnilegt, að fjelagið, sem á björgunarskipið Geir, ljeti það ekki liggja hjer aðgerðarlaust mestalt árið og borga öllum mönnum fult kaup, ef ekki væri gróði að björgunarstarfseminni, þá sjaldan skipið fær eitthvað að gera. Er því ekki nokkur vafi á því, að ef hægt væri að sameina strandvarnar- og björgunarskip og fá tekjur þær, sem Geir fær nú, í viðbót við sektir, mundi skipið bera sig að langmestu leyti.

Þá gerir till. okkar ráð fyrir, að rannsakað verði, hvort ekki mætti spara útgerðarkostnað væntanlegs strandvarnarskips með því að nota það jafnframt fyrir skólaskip, þannig, að stýrimannaefni landsins ynnu þar nokkra mánuði kauplítið. Ætti það að vera gott fyrir báða aðilja. Sem stendur er ekkert slíkt æfingaskip til, og þó að við eigum duglega og hrausta sjómannastjett, þá ber ekki að neita því, að skipstjóraefni okkar fá ekki eins góða mentun og víða annarsstaðar. En það er ekki þeirra sök, að þjóðfjelagið hefir ekki sjeð þeim fyrir nægri bóklegri og verklegri mentun, sem þeim er nauðsynleg.

Munurinn á þeim 2 till., sem hjer liggja fyrir, er í stuttu máli sá, að við teljum ekki rjett að skipa stjórninni að semja nú þegar um byggingu á skipi þessu, heldur viljum láta hana rannsaka í ár, á hvern hátt við getum best risið undir útgerð skipsins. Þá er önnur ástæða, en engu óverulegri, fyrir því, að ekki mun ráðlegt að knýja fram byggingu skipsins nú þegar. Segja fróðir menn um slíka hluti, að búast megi við, að skip verði ca. 200 þús. kr. ódýrari heldur en nú, þegar álfan hefir jafnað sig eftir hertöku Ruhrhjeraðsins, en eins og kunnugt er, er þar járnvinsla mikil.

það er ómögulegt að segja, hvort uppástungurnar á þskj. 304 reynast lífvænlegar, þegar til rannsóknar kemur, en með þeim er málinu ýtt talsvert áfram — og það sparnaðarleiðina.