08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (3283)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Forsætisráðherra (SE):

Jeg hefi áður lýst afstöðu minni til þessa máls. Jeg hefi látið það í ljós, að eins og nú er ástatt, þá mundi best vera, að látið væri sitja við lögin frá 1919.

Jeg skil vel afstöðu þeirra, sem vilja koma þessu máli sem fyrst í framkvæmd. það vil jeg líka.

Jeg hefi fengið bráðabirgðateikningu af slíku skipi hjá hr. Nielsen, framkvæmdarstjóra, og er gert ráð fyrir, að það hafi 14 mílna hraða. Kostar það 800 þús. kr. Nú má vera, að spurning sje um, hver stærð skipsins skuli vera. En eigi það að hafa sterka vjel, þarf það einnig að vera nokkuð stórt, til að þola hana. Íslands Falk mun hafa verið ætlað að fara 121/2 mílu á vöku. Þá verður skipið einnig því dýrara í rekstri, því hraðskreiðara sem það er. Þetta skip myndi eyða um 14 tonnum af kolum, og er það að vísu ekki mjög mikið.

Eins og stendur mun vera mjög dýrt að byggja skip. það er rjett, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði, að það mun vera hertaka Ruhrhjeraðsins, sem valdið hefir hækkuninni, því áður keptu þjóðverjar við Englendinga, en nú eru Englendingar einir um það, og því ekki samkepni. Ef bygt væri nú, myndi það vera 200 þús. kr. dýrara en áður. Hjer væri því um aukakostnað að ræða, ef bygt væri strax.

þá álít jeg, að ekki megi tefja varnarskipið frá starfi sínu með því að ætla því að vera líka björgunarskip. En hitt ætti ekki að valda miklum kostnaði, að útbúa skipið svo að björgunartækjum, að það gæti hjálpað í ítrustu nauðsyn.

Það er rjett, að útgerðarkostnaðurinn verður aðalatriðið. Það er því álit margra, að heppilegt væri að finna leið til að fá kauplausa menn á það. Það er nú heimtað í lögum, að stýrimannaefni skuli hafa verið vissan tíma í siglingum erlendis. Mætti máske breyta þeim lögum svo, að siglingar á þessu skipi jafngiltu siglingum erlendis. Jeg vil því hafa heimildina í lögunum enn, og verður stjórnin svo að ráða fram úr þessu máli.

En að öðru jöfnu tel jeg sjálfsagt að láta byggja skip, heldur en kaupa gamalt, því það mundi margborga sig í kolasparnaði.

Jeg er ekki viss um, að heppilegt sje að sameina landvarnar- og björgunarskip. Verðmunurinn mundi nú vera um 200 þúsund krónur og hætt við, að landvarnarskipið hefði nóg að gera við landvarnir einar. Aftur á móti mætti hafa nokkur einföld björgunartæki á skipinu. Jeg ræð því frá að binda stjórnina með því að samþykkja tillöguna á þskj. 304. En vitanlega má athuga möguleikana fyrir því að hafa strandvarnarskipið jafnframt björgunarskip, en verði till. samþykt, þá verður hún til hindrunar því, að nokkuð verði gert á þessu ári. Helst vildi jeg, að báðar till., á þskj. 304 og 318, yrðu teknar aftur og að þessu máli verði hraðað sem mest, helst að ráðist verði í byggingu skips á þessu ári, nema einhverjar óvenjulegar ástæður komi til, t. d. að efni hækkaði svo mjög, að bersýnileg óhagsýni væri að því að ráðast strax í framkvæmdir.