08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Benedikt Sveinsson:

Jeg ætla aðeins að geta þess, að till. sú til þál., sem hjer liggur fyrir á þskj. 304, er alls ekki nauðsynleg, því að í lögum nr. 78, 28. nóv. 1919, er landsstjórninni heimilað að kaupa eða láta byggja „svo fljótt, sem verða má“, eitt eða fleiri skip til landhelgisvarna, og er henni heimilað að taka lán til þess.

Í þessum lagastaf virðist mjer fólgin sú fylsta heimild, sem hægt er að gera kröfu til, og ef ríkisstjórnin notar þá heimild ekki, þegar heppilegir tímar eru til þess, þá er það vanræksla af hennar hendi. En eins og nú horfir, tel jeg rjett af hæstv. stjórn að doka við í þessu máli. Færi til slíkra framkvæmda er nú mjög óhagkvæmt. Stál fer síhækkandi í útlöndum, svo að smíði skipsins yrði mjög dýr. Nauðsyn þess að fá nýtt skip er ekki svo bráðabrýn, að ekki megi bíða betra færis, enda má hafa viðhlítandi landhelgisgæslu með öðrum úrræðum fyrst um sinn.

Að efni til er jeg ekki mótfallinn till á þskj. 304, en brtt. á þskj. 318 er jeg gersamlega mótfallinn. Það er frumhlaup og fljótræði að ætlast til þess, að farið verði að byggja skip nú á allra verstu tímum. Íslendingar hafa sannarlega brent sig svo á skipakaupum og skipasmíð hin síðustu árin, að þeir ættu að láta sjer að kenningu verða. Þarf ekki að nefna nöfn því til sönnunar, þótt auðvelt væri. Mættu þeir minnast hins fornkveðna: „Vestigia terrent“, eða: „hafa skal víti til varnaðar“.

Mín till. er því sú, að þessu máli verði nú vísað til hæstv. stjórnar.