08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Jón Þorláksson:

Jeg get í raun og veru fallið frá orðinu, því það, sem jeg ætlaði að segja, hefir nú hv. þm. N.-Þ. (BSv) tekið fram og komið fram með samskonar till. og jeg ætlaði mjer að gera.

Það er engin meining í því að fara að byggja skip nú á þessu ári. Fjenu úr landhelgissjóði hefir nú verið eytt í þarfir landsins, sem kunnugt er. Auk þess fer verð á skipasmíðaefni sífelt hækkandi. Síðan um áramót hefir járn og stál hækkað um 60%, svo að ekki er völ á verri tíma til þess að byggja skip en einmitt nú.

Það hefir með rjettu verið bent á margt athugavert við till. á þskj. 304, og mætti benda á fleira. Það er alls ekki rjett að binda sig svo, sem þar er gert ráð fyrir. Það er alveg nægilegt, eins og nú stendur á, að vísa málinu til hæstv. stjórnar, og getur hún þá tekið það til athugunar. Á síðastliðnu þingi var samþykt í báðum deildum þingsályktun, þar sem skorað var á stjórnina að fá því framgengt, að Danir hefðu tvö skip hjer til strandgæslu. Gæti þetta orðið bót fyrst um sinn, og tel jeg rjett, að við það sje látið standa um sinn.