08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Pjetur Ottesen:

Jeg hefi oft áður bent á það hjer á þingi, hver nauðsyn væri á því að koma upp íslensku strandvarnarskipi og hvaða gildi það hefði fyrir efnalega afkomu þjóðarinnar í nútíð og í framtíð, að strandvarnir hennar eða landhelgisgæsla væri í sem bestu lagi. Og reynslan hefir fyrir löngu sýnt okkur það og sannað, að það verður ekki gert, að koma málum þessum í sæmilegt horf, nema við gerum það sjálfir.

Það má t. d. benda á, að danska varðskipið Fylla, sem hingað kom snemma í aprílmánuði, hefir meginið af þeim tíma, sem liðinn er síðan, legið hjer inni á höfn, og geta allir sjeð, hvers virði sú landhelgisgæsla er. Og einmitt á öndverðu þessu þingi var landhelgisgæslumálið rætt hjer í neðri deild, en það hefir nú komið fyrir á hverju þingi síðan 1919, er hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn frá mjer og tveimur öðrum þingmönnum um, hvað stjórnin hefði aðhafst í málinu. Og mjer var það ljóst af svörum ráðherrans, að hann hefði fullan skilning á nauðsyn þessa máls, og skildi jeg hann svo, að hann hefði afráðið að láta til skarar skríða með þetta mál hið allra bráðasta og láta byggja eða kaupa skip til landhelgisgæslu. Hið sama hefir og komið fram í ræðu hans hjer í dag. Og það sýnir og, að hugur hefir fylgt máli hjá hæstv. ráðherra, að hann hefir þegar látið gera bráðabirgðauppdrátt af slíku skipi og aflað upplýsinga um kostnað við byggingu á því. Um þennan uppdrátt er það að segja, að eftir því sem sjómenn alment hafa hugsað sjer þetta landhelgisgæsluskip, þá er uppdrátturinn af óþarflega stóru skipi til þessara hluta. Þetta skip er áætlað 170 feta langt, en stærstu togararnir, sem hjer eru, munu vera um 140–150 fet, og ætti sú stærð að vera alveg fullnægjandi, en skipið þarf vitanlega að hafa heldur meiri ganghraða en togarar hafa.

Þess mátti því vænta, að nú væri að renna upp sú stund, sem þjóðin hefir lengi þráð, að eigi yrði lengur látið síga úr hömlu með að ráða nokkra bót á landhelgisgæslunni.

Nú hafa tveir þingmenn, sinn úr hvorri deild, hv. 5. landsk. þm. (JJ) og 1. þm. S.-M. (SvÓ), borið fram till. um að slá máli þessu á frest um eitt ár að minsta kosti. Hv. þm. Snæf. (HSt), meðflutningsmaður minn að brtt. á þskj. 318, hefir nú minst á þessa tillögu, og þarf jeg þar í rauninni litlu við að bæta. Hann hefir rækilega minst á þá annmarka, sem á því eru, meðan ekki er um nema eitt strandvarnarskip að ræða, að sameina þannig lagað björgunarstarf landhelgisgæslunni. Ef skipið ætti að starfa sem björgunarskip, þannig, að það ætti að reka þá starfsemi sem atvinnugrein, þá gæti eðlilega svo við borið, og hlyti oft og löngum að verða svo, að skipið þyrfti að sinna slíku starfi einmitt þegar mest á riði með landhelgisgæsluna, og hefir hv. 4. þm. Reykv. (MJ) þegar vikið nokkuð að þessu atriði og alveg rjettilega. Það er líka vitanlegt, að þó eitt varðskip fengist, er ekki þar með ráðin full bót á landhelgisgæslunni, þó skipinu væri stjórnað með þeim dugnaði og þrautseigju, sem eiginlegur er íslenskum sjómönnum og ekki þarf að efa. En þó væri stórmikið unnið með einu skipi. En fyrst svo er, að eitt skip, sem gæfi sig þó eingöngu að landhelgisvörn, væri ekki fullnægjandi, er það bersýnilegt, að það yrði svo enn þá síður, ef það ætti að skifta sjer milli strandvarnanna og annara starfa, og því verra er að sameina þessi störf, hvað sem annars gæti mælt með því. En hins vegar mundu fullkomin björgunartæki og allur útbúnaður, sem til þess útheimtist, vera svo dýr og auka svo á byggingarkostnað skipsins, að ekki væri ráðlegt að ráðast í það, nema því aðeins, að skipið ætti að gera sjer björgunarstarfið að aðalstarfi og vaka yfir hverju tækifæri, sem gæfist í því efni, en þá mun flestum ljóst, að landhelgisgæslan yrði harla slitrótt.

En hitt væri gott, að skipið hefði t. d. öflug dráttartæki, svo það gæti kipt skipi út af grunni, ef svo bæri undir, enda yki það ekki sem neinu næmi á byggingarkostnaðinn. Og samkvæmt yfirlýsingu þeirri, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) gaf áðan, er það alveg í samræmi við skoðun framkvæmdarstjóra E. Nielsens, að frekari eða meiri björgunarstarfsemi sje ekki samrýmanleg landhelgisgæslunni.

Um c-liðinn í till., um að skylda nemendur stýrimannaskólans til að vera eitt ár á skipinu endurgjaldslaust, inna þar af hendi nokkurskonar þegnskylduvinnu, get jeg verið fremur fáorður, enda hefir hv. þm. Snæf. (HSt) minst nokkuð á þetta. Það er talað um það í ástæðunum fyrir till., að skipstjóraefnin mundu geta lært svo mikið á því að vera á þessu skipi. Jeg er nú ekki svo mjög trúaður á það. Þeir, sem á sjómannaskólann ganga, eru allir vanir sjómenn áður, og auk þess eru þeir flestir eða allir hásetar lengi áður en þeir verða stýrimenn eða skipstjórar, og læra þar hina verklegu sjómensku áður en þeir fara að stjórna öðrum. Mundu þeir því að þessu leyti ekki læra á slíku skipi mikið framar því, sem þeir yfirleitt mundu læra undir stjórn og handleiðslu góðs skipstjóra, hvar sem væri. Auk þess má benda á það, að menn mundu ekki á þessu skipi læra neitt að því, sem að fiskveiðum lýtur, og hefir það þó ekki minsta þýðingu fyrir íslenska sjómenn.

Jeg hefi leitað mjer upplýsinga hjá útgerðarmönnum hjer um kostnað við útgerð slíks strandvarnarskips, og hljóðar sú áætlun upp á það, að árlegur útgerðarkostnaður slíks strandvarðarskips, skips af þeirri stærð, sem jeg hefi hugsað mjer, mundi nema um 200 þús. kr., og er fullur helmingur þess kostnaðar innifalinn í kolaeyðslu.

En af þessari upphæð nemur hásetakaupið, það sem spara mætti með því að leggja þegnskylduvinnu á, 21600 kr.

Þá er þess getið í greinargerðinni fyrir þessari tillögu, að með því að haga svo til, eins og tillagan fer fram á, sje bent á nýja leið til þess að gera það kleift að halda slíku skipi úti. þetta er þó ekki rjett nema að sumu leyti. En hitt er rjett, að það hefir að vísu heyrst oft fyr, þetta, að ekki væri gerlegt að ráðast í þetta sökum þess gífurlega kostnaðar, sem það hefði í för með sjer. En það hefir nú verið sýnt fram á það, að þær leiðir, sem bent er á í tillögunni, ef sameina ætti björgun og landhelgisvörn, þær leiða ekki til þess að uppfylla þá bráðu og knýjandi þörf, sem á því er að ráða nauðsynlegar endurbætur á landhelgisgæslunni.

En þeim, sem halda þessu fram, að okkur sje það ekki kleift að halda úti slíku skipi og láta það vera óskift við landhelgisgæsluna, vil jeg benda á það, að þetta byggist ekki á neinu öðru en því, að þeir sömu menn gera sjer ekki nógu ljósa grein fyrir því, hvað í húfi er, hvað það kostar okkur í raun og veru að láta landhelgina vera fótaskinn ófyrirleitinna yfirgangsseggja, hvað hún kostar okkur sú spilling á afla og veiðarfærum árlega, sem af þessu hlýst, og loks hvaða þýðingu það hefir fyrir fiskveiðarnar í framtíðinni, fyrir sjávarútveginn sem atvinnugrein, að ungviði fiskjarins, sem mikið heldur sig á grunnsævi innan landhelginnar, er rótað upp og eyðilagt, í stað þess að fá að þroskast og dafna. það er þetta, sem þeim, sem vex svo í augum kostnaðurinn við að koma upp strandvarnarskipi og gera það út, að þeir vilja slá því á frest, sem þeir ekki gera sjer grein fyrir sem skyldi, hvaða óskapa þjóðarauð er teflt út úr höndunum á sjer með sífeldu tómlæti um þessa hluti.

Ef benda á á sem dæmi, hverjar afleiðingar þetta hefir, þá er hægt að taka það, sem næst liggur, og það er Faxaflói. Hjer var útgerð á opnum bátum að mestu lögð niður fyrir stríðið, af völdum botnvörpuveiða, en á stríðsárunum reis hún úr rústum aftur og blómgaðist vel; nú sækir alveg í sama horfið. Nú er svo komið í Garðsjónum til dæmis, að þar bregst nú að mestu leyti afli ár eftir ár. þar hefir verið að undanförnu mótorbátur við landhelgisvörn tíma úr árinu. Það er álitið, að hann hafi unnið nokkurt gagn, en togararnir eru svo áleitnir, að þeir breiða fyrir númerin og „trolla“ innan landhelginnar í kringum varðbátinn. Það mun auk þess vera eitt dæmi þess, að þeir hafi verið svo nærgöngulir — því það er aðdjúpt þar, og ef fiskur er á annað borð, þá er hann oft nærri landi — að einn trollari hafi siglt í strand með vörpuna í eftirdragi. Garðsjórinn var áður fiskisælasti staðurinn við Faxaflóa og brást þar örsjaldan afli, og það var algengt, þegar orðið var fiskilaust hjer við innanverðan flóann, að þá var sótt suður í Garðsjó, legið þar við í nokkra daga eftir atvikum. En nú er þetta svona, og þó að fiskihlaup komi t. d. í Garðsjóinn, þá stendur fiskurinn þar lítið við, heldur hverfur fljótt aftur, þótt svo hittist nú á, sem sjaldan er, að trollarar sjeu þar ekki. þetta stafar af því, að botnvörpurnar umróta botninum, þessum fína sægróðri, sem fiskurinn hænist að og legst við. En nálega öll þessi ágætu fiskimið í Garðsjónum, sem þannig er búið að eyðileggja, eru innan landhelginnar. En eyðileggingunni á þessum stað þarf jeg ekki að lýsa nánar, því hv. þm. hafa sjálfir orðið varir við þetta í skrifum þeim og málaleitunum um þessi efni, sem borist hafa úr Garðinum, og þeir hafa sannfærst um sanngildi þessara frásagna og viðurkent nauðsyn þess að reyna að greiða úr því óskapa örbirgðarástandi, sem þessi eyðilegging hefir leitt yfir Gerðahrepp; því þaðan eru nú flúnir flestir þeir, sem burtu hafa komist, en þeir fáu verkfæru menn, sem eftir eru í þessu stóra hreppsfjelagi, verða nú að ala önn fyrir fullum 70 þurfalingum, börnum og gamalmennum, auk annara útgjalda, sem eru svo gersamlega vaxin þeim yfir höfuð; þeir hafa viðurkent þessa nauðsyn með því að samþykkja 40 þúsund króna lánsheimild til þessa hreppsfjelags, sem þó er ekki nema helmingur þess, er farið var fram á.

En sömu sögurnar um skemdir og eyðileggingu er að segja úr öðrum stöðum við innanverðan flóann. Menn munu líka minnast þess, að þinginu hafa iðulega á þessum árum borist ófagrar lýsingar af aðförum botnvörpunga í landhelginni hjer við land og afleiðingar þeirra. 1921 lá hjer fyrir þinginu fjöldi af áskorunarskjölum um framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu, bæði í þingmálafundagerðum og sjerstökum áskorunum, og er ástandinu átakanlega lýst og hvert stefni um efnahag manna og afkomu, þar sem botnvörpungarnir gera mestan uslann. Jeg minnist lýsingar frá Arnarfirði. Eftir að búið er að lýsa aðförum botnvörpunganna, að þeir dragi upp veiðarfæri manna jafnóðum og þeir leggja þau og að þeir „trolli“ svo nærri landi, að brimið brjóti til grunns við þá, stendur svo í einu skjalinu: „Verði ekki bætt úr yfirgangi togara, eins og hann hefir verið undanfarið, með auknum strandvörnum að miklum mun, þá verður lítt mögulegt fyrir fólk hjer að draga fram lífið, því að mestar tekjur manna, eða það, sem þeir hafa sjer til lífsframfæris, byggist á afla þeim, sem þeir fá úr firðinum“.

Svona er þetta hvaðanæfa, sem fiskveiðar eru stundaðar á smærri báta.

Jeg minnist þess og, að hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) tók það fram sem ástæðu hjer á dögunum fyrir því að koma upp loftskeytastöð í öræfum, að þá mætti gera viðvart, er trollarar væru þar uppi undir landi við veiðar dögum saman, jafnvel svo hundruðum skifti. Nei, menn þurfa ekki að óttast, að því fje, sem lagt yrði í aukna landhelgisgæslu, sje teflt í neina óvissu; það mundi tvímælalaust svara góðum vöxtum, og væri með jafnmikilli vissu hægt að segja slíkt hið sama um t. d. allar fjárgreiðslur og útgjöld í fjárlögum, þá væri vel farið.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) benti á í seinni ræðu sinni áðan — þar sem hann lagði út af sögunni um drotninguna — að fjárhagurinn væri örðugur, og skal jeg síst mótmæla því, að svo sje, en ráðið til að bæta hinn erfiða fjárhag er vitanlega fyrst og fremst að tryggja og vernda atvinnuvegina, svo sem kostur er á, og það er ekkert betra, tryggara og raunhæfara ráð til þess að tryggja þennan annan aðalatvinnuveg landsins en að bæta landhelgisgæsluna.

Þess mundi ekki langt að bíða, að það sæust góðir ávextir af því í bættri afkomu og auknu gjaldþoli þjóðarinnar.

Þá bar þessi sami þm. (JJ) þessa brtt. okkar saman við tillögu í efri deild um byggingu landsspítala, en hjer er, eins og nú er ástatt, tvennu ólíku saman að jafna. Ekki af því, að jeg viðurkenni ekki fyllilega nauðsyn á því að koma upp landsspítala, heldur verður að sjálfsögðu að láta slíkar framkvæmdir, sem hjer um ræðir, sitja þar í fyrirrúmi, því það leggur upp í höndurnar á okkur með aukinni framleiðslu möguleikann til þess fyr en ella að koma í framkvæmd ýmsum þjóðnytjafyrirtækjum, sem þörf er á að framkvæma, svo sem eins og landsspítala og fjölmörgu fleiru. Og það er áreiðanlegt, að það hefði mátt vinna margt, sem til framfara horfir í þessu landi, fyrir þann ávinning, sem af því hefði orðið, að landhelgisgæslan hefði verið betri síðan stríðinu lauk, þótt ekki sje nú lengra farið.

Þá sagði hv. þm. (JJ) það í sambandi við brtt., að við vildum haga okkur eins og ríku þjóðirnar. Hvað snertir fjárframlög eða fjárveitingar til eflingar atvinnuveganna og verklegra framkvæmda yfir höfuð, þá á þessi samlíking nú ekki allskostar vel við. En þar með er ekki sagt, að þetta geti ekki vel átt við um ýmsar aðrar fjárveitingar, sem nema stórfje og mjer finst mjög orka tvímælis um, að hverju gagni komi. Þar getur þetta átt vel við, að við hreykjum okkur nokkuð hátt og viljum stæla stórþjóðirnar. En það stendur öðrum nær en mjer eða okkur tillögumönnum að svara fyrir það.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) lagði líka fram sinn skerf. Var nú sá uppi hjá þessum hv. þm. að vilja láta slá málinu á frest og rannsaka það, eins og hann komst að orði. Þessi hv. þm. leit öðruvísi á þetta mál á þinginu 1919. Vorum við þá báðir í sjávarútvegsnefnd, eins og svo oft bæði fyr og síðan, en þá fluttu sjávarútvegsnefndir beggja deilda frv. það, sem þá varð að lögum og inniheldur heimildina fyrir stjórnina til að kaupa eða byggja skip til landhelgisgæslu. Er mjer enn minnisstætt, hvað einingin var mikil í málinu og áhuginn heitur og trúin á málefnið mikil. Er sagt í greinargerð frv. þessa, eftir að búið var að lýsa áskorunum, er fram höfðu komið: „Samvinnunefnd sjávarútvegsmálanna hefir í einu hljóði orðið sammála um, að þessum röddum verði að sinna og megi ekki bregða sjer við, þótt hjer sje um mikinn kostnað að ræða, því að hitt getur þó kostað enn meira, að hafast lítið eða ekkert að“.

Þetta álít jeg undirstöðu frv. og það leiddi það til sigurs í þinginu 1919. Ætti sú eyðilegging og tjón, sem af vanrækslu í þessu mál hefir hlotist síðan, að vera næg bending um það, að eitthvað þurfi að aðhafast. Sjest ljóslega, að nauðsyn þess eykst árlega. Er það beinlínis bjargráðaráðstöfun að gera eitthvað til þess að ráða bót á bölinu.

Það hefir komið fram till. um að vísa þessu máli til stjórnarinnar, en með þeim forsendum, að helst yrði ekkert gert í málinu, ekki einu sinni unnið að undirbúningi málsins. Er þetta vitanlega alveg fráleitt, og undrar mig, að hv. þm. N.-Þ. (BSv) skyldi verða til þess að vísa málinu frá með slíkum ummælum. En eftir fyrri framkomu hæstv. forsrh. (SE) í þessu máli veit jeg, að hann mun eiga bágt með að taka á móti till., bygðri á slíkum forsendum. En jeg get fallist á, að málinu sje vísað til hæstv. stjórnar, ef það er bygt á þeim fyrirætlunum, er hún hefir látið uppi um framkvæmdir í málinu, þótt jeg vildi helst fá atkvæði um tillögumar, svo afstaða manna til málsins kæmi skýrt í ljós.

Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) gat þess, að nú væri hjá liðinn hinn hentugi tími, er hefði verið til skipabygginga, þar eð járn og stál hefir hækkað nokkuð nú upp á síðkastið. Fer svo um ýmislegt, þegar áhuginn er ekki nægur, að tækifærum er slept. En þrátt fyrir þetta álít jeg, að nauðsyn þessa máls sje svo mikil, að ekki megi það verða til fyrirstöðu, þótt efni hafi eitthvað hækkað. Háskinn og eyðileggingin, sem vofir yfir þjóðinni og vex árlega, ef eigi er bót á ráðin, nemur áreiðanlega miklu meiru en þessi verðhækkun. Hjer er sannarlega um eitthvert þýðingarmesta mál þjóðarinnar að ræða.