08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (3290)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Flm. (Jónas Jónsson):

Í máli þessu hafa komið fram þrjár skoðanir, frá þrem aðiljum.

Fyrst eru þeir, sem ekkert vilja gera, aðrir vilja láta fara fram rannsókn á málinu, og þeir þriðju vilja kaupa eða byggja skip strax. Vil jeg taka þetta fram til þess að sjáist, að það er erfitt fyrir stjórnina til athafna, þegar stuðningurinn við málið er svona blandaður.

Við flm. till. á þskj. 304 viljum ekki taka till. okkar aftur, því að við viljum, að þingið verði að láta álit sitt í ljós um málið, svo að stjórninni verði hægra um vik. Flytjendum till. á þskj. 318 er það líka í hag, að atkvæðagreiðslan skeri úr og sýni, hvor till. hefir mest fylgi.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Borgf. (PO) vil jeg taka fram, að jeg held, að hann hafi ekki athugað það nógu gaumgæfilega, að tilgangur okkar er ekki sá að fresta málinu, heldur setja það á hreyfingu, sem að gagni mætti verða. Hefir þessu máli verið hreyft þing eftir þing, og þó hefir ekkert verið gert í því. Sýnist það benda til, að þingið hafi viljað fara hægt í þetta mál, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ).

Furðar mig, að flytjendur brtt. á þskj. 318 skuli ekki sjá, að við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) erum hjer að hjálpa þeim og stöndum þeim mjög nærri.

En það hefir ekkert verið gert, sökum þess, að þjóðin trúir ekki á þessa nauðsyn, sem blasir svo vel við hv. þm. Borgf. (PO). Þótti mjer ræða hans góð, en held aðeins, að erfitt sje að framkvæma verkið eins og nú stendur. Þætti mjer ekki ólíklegt, ef svo færi, að samþykt yrði að byggja skip í ár, að samt mundi ekkert verða gert. Fátæktin hindraði. Og ef svo liðu 4 ár án þess nokkuð væri aðhafst, væri það þá goðgá, að hafa bent á leið, sem leyst gat úr kostnaðarspursmálinu? Sjóðurinn til að byggja skipið fyrir er til; aðalatriðið er, að Alþingi geti treyst á það, að kostnaðurinn við rekstur skipsins verði ekki landinu ofviða. Má að vísu vera, að landið geti risið undir 200–300 þúsund króna kostnaði, en benda vil jeg þó á það, að Vestmannaeyingum hefir veitt það nokkuð þungt að halda úti sínu skipi og ekki treyst sjer til þess, nema með styrk frá ríkinu. En auðvitað verður þetta erfiðara einu hjeraði en landinu öllu.

Jeg skýrði ekki líkinguna um landsspítalann, en jeg skal gera það nú. Jeg álít landsspítalann gott fyrirtæki og nauðsynlegt, en læknarnir hafa sagt, að hann yrði ekki bygður fyrir minna en 3 milj. kr. og árlegur rekstrarhalli yrði um 100000 kr. Rekstrarhallinn á hvern sjúkling þar mundi því verða mörg hundruð krónur. Við þurfum að fá þennan spítala, en við getum ekki haft hann svona stóran, heldur verðum að fá hann minni. Held jeg, að málinu sje enginn greiði gerður að halda því á þessum stórveldisgrundvelli. Og sama gildir hjer. Við eigum að þoka okkur áfram, því þótt við kynnum að vera svo efnaðir að geta tekið stökkið í einu, þá dugir það ekki meðan þjóðin og þingið trúir því ekki, að efnin sjeu nóg til þess.

Jeg held, að eitt strandvarnarskip, sem væri 10–11 mánuði ársins á ferðinni og hefði íslenskan skipstjóra og skipshöfn, mundi gera mikið gagn. Og ef þetta skip væri jafnframt björgunarskip, þá mundi það langdrægt bera sig, svo framarlega sem gróði er á Geir.

Seinna væri svo hægt að bæta við öðru skipi, ef þörf krefði og efni væru til.

Það er ekki rjett hjá þeim hv. þm., er hafa haldið því fram, að örðugleikar mundu vera á því að koma öllum stýrimannaefnunum að.

Mjer finst þessir tveir liðir ekki óverulegir, 200000 kr. í útgerðarkostnað og 21000 kr. í mannahald, eftir útreikningi hv. þm. Borgf. (PO). Reynsla vor með Þór hefir sýnt, að svona löguð skip eru dýr í útgerð, og 21 þús. kr. í mannahald er ekki smáupphæð árlega.

Mjer hefir í dag verið bent á einn kost við svona skip, nefnilega að hægt sje að láta kunnáttumann landsins í fiskimálum, Bjarna Sæmundsson, sem nú hefir helgað líf sitt vísindalegum rannsóknum, ferðast með skipi þessu eftir þörf og vild, til þess að gera rannsóknir sínar á fiskigöngunum hjer við land. Þetta tel jeg geta verið sameiginlegan stuðning fyrir okkur hv. þm. Borgf. (PO).

Hv. þm. (PO) fanst jeg tala kuldalega um, að kastað yrði fje til þessa eftirlits, en að hv. þm. finst það, tel jeg einvörðungu stafa af skoðanamun. Orð mín miðast við muninn, sem nú yrði á útgerðarkostnaðinum, en ef hægt yrði að spara 200–220 þús. kr., þá virðist mjer ekki rjett að ganga fram hjá þeim möguleika.

Það var ekki rjett álitið af hv. þm., að ekki fylgdi hugur máli. En þótt svo fari, að ekki verði miklu náð með leið þeirri, er við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) bendum á, þá komumst vjer þó lengra með henni en með hinni, sem vill alt, en kemst ekkert.

Viðvíkjandi orðum hv. þm. Dala. (BJ) um að heimta meira af Dönum til landhelgisgæslunnar, þá vil jeg geta þess, að jeg hefi altaf talið það ótæka leið til aukningar strandgæslunnar, því að jeg álít langt frá því að vera heppilegt að eiga slík mál undir erlendum þjóðum, og er jeg þakklátur hæstv. forsrh. (SE) fyrir að hafa ekki slegið inn á þá braut.

Þá er mjer kunnugt um, að þessi ódýru skip, sem hæstv. landsstjórn hefir fengið tilboð um, þ. e. ensk og þýsk smáherskip frá stríðsárunum, eru talin mjög óhentug, og jafnvel álitin vera algerlega ófær í hina þungu sjóa við strendur lands vors, jafnvel stundum að sumarlagi, og getur því ekki komið til mála, að keypt verði slík skip; heldur mun nauðsynlegt að byggja nýtt skip, að jeg ætla í líkingu við togara, eins og hv. þm. Borgf. (PO) gat um. Óska jeg að síðustu, að atkvgr. skeri úr því, hvaða leið þingið vill að stjórnin fari: hvort ekkert eigi að gera eða hvort frekari rannsókn eigi að fara fram, eða í síðasta lagi, hvort byrja eigi straks á að byggja skipið.