08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (3298)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Hákon Kristófersson:

*) Jeg býst við, að allir sjeu sammála um, að hjer sje til umræðu nauðsynjamál, sem tekur til allrar þjóðarinnar og varðar þjóðfjelagið í heild sinni. Á síðastliðnum þingum hafa verið bornar fram till. um þetta mál, og nú koma enn fram till. Mjer kom það á óvart að heyra hv. 5. landsk. þm. (JJ) halda því fram, að sumir vildu ekkert gera, því að það er mjög eðlilegt, að deilt sje um leiðir, og þarf það alls ekki að bera vott um viljaleysi, en með því að vísa málinu hreinlega til hæstv. stjórnar, þá verður hún að velja aðrahvora leiðina.

Til eru gildandi lög, sem heimila hæstv. stjórn að taka til framkvæmda í þessu máli, en hæstv. stjórn hefir ekki sjeð sjer það fært enn þá.

Till. þær, er hjer liggja fyrir, fara í svipaða átt, en þó er önnur ákveðnari og hraðvirkari en hin, en nú hygg jeg, að muni vera komin fram till. um að vísa málinu til hæstv. stjórnar, með þeim skilningi, sem í það hefir hingað til verið lagður, og hefir hæstv. stjórn þá allar framkvæmdir á höndum, en verður þó að taka tillit til till., sem hjer hafa fram komið, en hv. þm. verða þá að sætta sig við þá leiðina, sem hæstv. stjórn kann að velja. Jeg hefi mikla samúð með till. á þskj. 304. Tel jeg miklum vafa bundið, hvort hægt sje að vonast eftir fullum framkvæmdum á þessu ári. Þó má ekki skilja mál mitt svo, að jeg vilji ekki, að undinn verði sem bráðastur bugur að þessu máli, og jeg ber fult traust til þessarar stjórnar til þess að gangast fyrir framkvæmdum þess, ef hún gefur ákveðið loforð í þá átt, því að nú er sá hluti stjórnarinnar farinn, sem hv. 1. þm. Árn. (EE) barðist best fyrir, en jeg treysti lakast. Sjái hæstv. stjórn sjer fært að kaupa skip á þessu ári, þá mun hún gera það, ef fjárhagurinn leyfir, og væri mjer hugþekkast, að hún gerði það aðallega með tilliti til þáltill. á þskj. 304, og þó ekkert verði gert á þessu ári, þá tel jeg samt heppilegt að láta hvorttveggja fara saman. Einkanlega vil jeg ekki, að því sje slegið föstu, að ósamrýmanlegt sje, að skipið sje bæði björgunarskip og strandvarnarskip. Samt geri jeg ekki ráð fyrir, að tekjur skipsins mundu nægja til útgerðarkostnaðar, því að útgerð á þessu skipi mundi verða miklu dýrari en á því skipi, sem nú er hjer til björgunar.

Eitt er það enn, sem þyrfti rannsóknar við, en jeg heimta það þó ekki af hæstv. stjórn, nefnilega að kunnugt er orðið, að hjeðan frá Reykjavík eru send loftskeyti til togaranna, og að þeir þannig fá bendingu um það, hvar eftirlitsskipið sje.

Jeg vil nú víkja þeirri spurningu til hæstv. stjórnar, hvort hún sjái sjer ekki fært að banna svona löguð skeyti. Það má raunar segja sem svo, að hjer sje ekki stríð, en landhelgisgæslan er þó stríð að sínu leyti. Jeg skýt þessu aðeins fram til athugunar.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) benti á það, að fyrir hendi væri langhelgissjóður, sem myndi að miklu leyti nægja til kaupa á skipi til landhelgisgæslunnar. En þetta er nú ekki allskostar rjett, þar sem það er vitanlegt, að megnið af þeim sjóði er etið upp til ríkisins þarfa, og fje hans því alt annað en laust fyrir. En þeim ummælum hv. sama þm. (JJ), að nokkur sje hjer, sem ekki trúi því, að brýn þörf sje á aukinni landhelgisgæslu, leyfi jeg mjer fastlega að mótmæla. En hitt sjá líka allir, að af henni hlýtur að leiða ekki óverulegan kostnaðarauka fyrir landsmenn, en það er kostnaðarauki, sem flestir munu telja sjer ljúft að leggja á sig. C-lið brtt. á þskj. 304 get jeg fyrir mitt leyti verið samþykkur. Kostnaðurinn við starfrækslu skipsins er með því færður niður, en vert væri að athuga, hvort ekki sje fulllangt gengið með því að ætlast til, að stýrimannaefnin vinni heilt ár kauplaust á skipinu.

Hvað það snertir, sem hv. 1. þm. Árn. (EE) hjelt fram, að það væri aðalatriðið, hvort menn tryðu stjórninni fyrir framkvæmdum í þessu máli eða ekki, þá get jeg verið fáorður. Það má vel vera, að þetta sje verulegt atriði, en mjer finst, að þeir menn, sem ekki trúa stjórninni fyrir þessu, eigi að koma með ákveðnar tillögur lútandi að því. (LH: Dagskráin sker úr!). Að vísu, en jeg býst ekki við, að dagskráin sje hjer til umræðu; heyrðist mjer hæstv. forseti úrskurða, að hún kæmi ekki til atkvæða. Jeg verð því að styðja þá tillögu, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, með þeim skilningi, að henni finnist sjer vera skylt að gera sem fyrst, helst á þessu ári, þær ráðstafanir í þessu máli, sem hún telur heillavænlegastar fyrir land og lýð. Og það vil jeg enn taka fram, að þótt jeg telji rjett, að farið verði með málið á þennan hátt, þá er það ekki af neinni andstöðu við tillögurnar, sem fyrir liggja, heldur af því, að jeg veit, að hæstv. stjórn muni ekki genga á snið við gefin loforð og muni vilja gera sitt ítrasta í þessu þarfamáli og vandamáli.

*) Ræðu þessa hefir þm. (HK) ekki yfirlesið.