08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (3302)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Halldór Steinsson:

Jeg ætla aðeins að koma með örstutta fyrirspurn til hæstv. stjórnar. Eins og mönnum er kunnugt, var á síðasta þingi samþykt tillaga til þingsályktunar þess efnis, að samið væri um að fá skip í viðbót til landhelgisgæslunnar, og var stjórninni heimilað að veita fje til þess, ef á þyrfti að halda. Að því er jeg veit best hefir þinginu aldrei verið gefinn kostur á að heyra, hvers vegna framkvæmdir í því máli hafa strandað. Að öðru leyti vil jeg ekki fara út í umræður þær, sem orðið hafa um þetta mál, en óhætt er að segja, að þær hafi yfirleitt lýst skilningsleysi og ljettúð. Allar ræður mótstöðumanna till. hafa snúist um kostnaðinn, sem af þessu hlyti að leiða, og sýnir það, að hv. þm. er ekki enn orðið ljóst, hversu brýn þörfin er á aukinni landhelgisgæslu. Enda gaus það upp úr hv. 5. landsk. þm. (JJ), að þjóðin myndi ekki telja þetta mál tímabært. þrátt fyrir þetta munum við flutningsmenn brtt. á þskj. 318 alls ekki taka hana aftur og vísa málinu til stjórnarinnar. Við erum orðnir þreyttir á loforðum ár frá ári, sem engar efndir verða á, enda er það best, að það komi skýrt fram í þinginu, hverjir vilja hrinda þessu nauðsynjamáli áleiðis og hverjir tefja fyrir því. En, eins og jeg tók fram í byrjun, vildi jeg fá fram, hvers vegna ekkert hefir orðið af framkvæmdum í því máli, sem þál. frá síðasta þingi gerði ráð fyrir. Og jeg vænti þess, að hæstv. stjórn gefi góð og gild svör.