08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3330)

111. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það er alveg rjett hjá hv. flm. þessarar till. (JB), að það var látið í ljós við umræður jarðræktarlaganna, og jafnvel fjárlaganna líka, að Ríkisveðbankinn myndi vonandi taka til starfa eigi síðar en um næstu áramót. En það fer þó vitanlega eftir því, hvort hægt verður að fá nægilegt veltufje. Jeg hafði hugsað mjer, að banki þessi byrjaði í mjög smáum stíl, t. d. með hálfa milj. kr. En nú hefi jeg talað við tilvonandi bankastjóra um þetta, og telur hann ógerning að byrja með minna en 1 milj. króna. En jeg tel mikið vafamál, að hægt sje að byrja með starfrækslu banka þessa um næstu áramót með 1 milj. króna, nema þá því aðeins, að Landsbankinn leggi fram fje, eins og hann t. d. hefir nú gert til Íslandsbanka, feli Ríkisveðbankanum að ávaxta það fje, sem hann kann að liggja með og eigi vill nota sjálfur.

Þá vil jeg geta þess, að með hinum nýju lögum um laun bankastjóra Landsbankans hefir komið inn dálítið ósamræmi á milli launa bankastjóra hins fyrirhugaða banka og bankastjóra Landsbankans. Það er tekið fram í 41. gr. veðbankalaganna, að hann skuli hafa sömu laun og dýrtíðaruppbót eins og bankastjórar Landsbankans, en þar að auki er ákveðið, að hann skuli einnig hafa 1/20% af samanlagðri upphæð allra bankavaxtabrjefa, er í gildi verða við lok hvers reikningsárs. En eftir þessum nýju lögum eiga Landsbankastjórarnir engan ágóðahluta að hafa. Þetta má vitanlega laga á næsta þingi, því að ólíklegt er, að veðbankinn verði tekinn til starfa fyrir fult og alt, er það kemur saman, enda bankastjórinn vafalaust ráðinn upp á þau kjör, sem bankastjórar Landsbankans höfðu, er lögin voru staðfest.