08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (3333)

111. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi tekið tillögu þessa upp til þess að fá tækifæri til að tala um Ríkisveðbankalögin. Jeg verð þó að endurnýja þá athugasemd mína, að jeg tel Ríkisveðbankalögin þurfa mikilla umbóta við áður en bankinn tekur til starfa, því ekki er hægt að breyta þeim eftir að farið er að gefa út verðbrjef hans, eins og alkunnugt er.

Mjer finst tillagan hefði því fyrst og fremst átt að fara fram á að ryðja þessum agnúa úr vegi. Þar næst vildi jeg benda á, eins og jeg hefi líka bent á í hv. efri deild, að Ríkisveðbankinn ætti aðeins að gefa sig við lánum út á jarðir, að vera landbúnaðarbanki.

Ef þetta yrði gert, þá þyrfti ekki að taka 1 miljón kr. af viðlagasjóði ríkisins fyrir tryggingarfje. Ræktunarsjóðurinn einn mundi nægja til þess um langan tíma. Og lán úr Ríkisveðbankanum ætti að veita til miklu styttri tíma en þar er gert ráð fyrir, til þess að gera Ríkisveðbankabrjefin seljanlegri. Þau ætti að veita til 25 ára, því það fyrirtæki, sem ekki getur borgað lán sín á 25 árum, er ekki hæft til að njóta lánshjálpar. Og allir stefna að því nú í heiminum að stytta lánstímann í slíkum lánsstofnunum, til þess að ljetta fyrir sölu verðbrjefanna. Og engin leið er að láta Ríkisveðbankann taka til starfa, nema honum sje lagt til tiltölulega ódýrt rekstrarfje, en það er eins og menn hafi ekki enn komið auga á það síðan 1921.

Bankinn svífur því í lausu lofti, án allrar nothæfrar undirstöðu, eins og flest, er að fjármálum lýtur nú í þessu landi.

Og nýi tíminn heimtar það, að svo sje farið að.

Á þinginu 1921 og á þessu þingi benti jeg á þá lánsleiðina fyrir landbúnaðinn, sem Dönum og fleiri löndum hefir gefist best. Það er lánsfjelagaleiðin (Kreditforeninger). Sú leið ætti að vera fremur áhættulítil, þar sem vjer höfum nú opinbert mat á jörðum. Þessi lánsfjelög stofnast með þeim hætti, að allir jarðeigendur, sem vilja, á stærra eða minna svæði, ganga í einn allsherjarfjelagsskap, samábyrgð fyrir verðbrjefum þeim, sem stofnunin gefur út og eru að öðru leyti trygð með veðum þeim, sem hver einstakur lántakandi setur fyrir láni sínu. Slík brjef eru talin trygg, jafnvel þótt lánað sje heldur hærra út á jarðimar en út á hálft virðingarverð þeirra. En slík brjef hafa auk þess þann kost, að allir jarðeigendur, sem í lánsfjelaginu eru, hafa hag af því, að brjefin seljist. Og styður það því mjög söluna innanlands.

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) hafði mjög á móti þessu fyrirkomulagi í hv. efri deild. Hann sagði, að slík lánsfjelög í Danmörku væru altaf smá eða næðu ávalt yfir lítið svæði, þar sem hver þekti annars hag. Menn væru hræddir við að ganga í slíka samábyrgð fyrir jarðeigendur, sem þeir þektu ekki persónulega og þeirra efnahag. Hann óttaðist því, að hjer mundu menn því aðeins vilja ganga í samábyrgð í smáhópum, eins og erlendis; verðbrjefin yrðu því margskonar og salan óvissari.

Alt er það rjett, sem hv. 5. landsk. þm, (JJ) sagði um lánsfjelögin erlendis. Jarðeigendur þar ganga ekki blindandi út í hverja samábyrgð, sem vera skal; til þess hafa þeir fengið of mikinn fjármálaþroska. En hjer er alt öðru máli að gegna. Hjer ganga bændur í samábyrgð, ekki einungis með jarðir sínar, heldur öll sín efni, og það án þess að vita um eða þekkja hag þeirra manna, sem þeir ganga í ábyrgð fyrir. Það ætti því að vera auðgert að stofna aðeins eitt slíkt lánsfjelag fyrir alt landið. Auðvitað yrði það altaf maður og maður, sem ekki vildi ganga í slíka samábyrgð, en fjöldinn mundi gera það, og jeg tel það áhættulítið, ef fyrirtækinu væri sæmilega stjórnað og án flokkspólitískra áhrifa.

Þegar 4. flokkur veðdeildarinnar var stofnaður, samdi jeg frumvarpið til laga fyrir þann flokk. Landsbankinn hafði fram að því sjálfur orðið að setja alt tryggingarfjeð fyrir 1. og 2. flokk og helminginn af því fyrir 3. flokk. Til þess nú að komast hjá því, að bankinn yrði að verða fyrir þessari blóðtöku, var tryggingin fyrir 4. flokk ákveðin þannig, að fyrst skyldi varasjóðurinn standa sem trygging, þar næst allar fasteignirnar, sem að veði stóðu fyrir lánunum, og nam sú samábyrgð 10% af öllum lánunum, og loksins kom ríkissjóðurinn með sína ábyrgð. það má því segja, að lánsfjelagafyrirkomulagið sje að nokkru leyti innleitt með 4. flokki veðdeildarinnar. Það eitt vantar á, að stofnanirnar sjeu tvær, önnur fyrir landbúnaðinn og hin fyrir kaupstaði og verslunarstaði með sjávarþorpum. Og þetta er auðvelt að laga í hendi sjer, ef menn aðeins vilja þýðast ráð þeirra manna, sem þó eitthvert skyn bera á slík mál.

Veðdeildin gæti haldið áfram fyrir kaupstaði og verslunarstaði með nýjum 5. flokki hennar, sem tæki aðeins húsveð, en ný stofnun myndaðist fyrir landbúnaðinn, hvort sem hún heitir Ríkisveðbanki, lánsfjelag eða eitthvað annað.