28.02.1923
Neðri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3339)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg hafði satt að segja búist við því, að stjórnin hefði fyrir löngu leitað til þingsins um þetta mál, ef hún hefði haft eitthvað á hjarta, er henni væri áhugamál í þessu efni; en það hefir ekki orðið, og því er þessi tillaga fram komin af minni hendi til þess að fá skýrslu stjórnarinnar um málið.

Á síðastliðnu ári hækkaði verðgildi íslenskrar krónu að nokkru, og álitu menn það vera gleðilegan vott þess, að þjóðarbúskapurinn væri farinn að bera sig, og væntu þess, að svo mundi áframhaldið verða. Þessi von var og ekki með öllu ástæðulaus, að því leyti, sem horfumar voru fremur góðar; menn vissu að verkalýður landsins hafði dregið mikil auðæfi úr skauti náttúrunnar að þjóðarbúinu, og því ástæða til að vænta hins besta, þrátt fyrir það, þótt misjafnar sögur gengju um þá, er gert höfðu sjálfa sig að ráðsmönnum yfir afurðasölunni, og meðferð þeirra á henni. En er leið á haustið, fór heldur að draga úr öllu og útlitið að breytast til hins lakara; þá lækkaði og nokkuð verðgildi íslenskra peninga. þó keyrði eigi algerlega um þverbak fyr en Íslandsbanki fekk 4 miljóna króna lánið, því þá stöðvuðust algerlega allar yfirfærslur.

Að vísu hafði þessi banki átt örðugt uppdráttar þá undanfarið með yfirfærslur á öllum greiðslum til útlanda, en menn skyldu hafa ætlað, að þetta myndi alt lagast og færast í betra horf, er útlent lán væri fengið handa bankanum; en raunin varð öll önnur. Óðar en bankinn hefir fengið þetta útlenda lán, fer gengi íslenskrar krónu fyrst að lækka fyrir alvöru, og var stjórn Íslandsbanka um það kent og að hún hefði beinlínis beitt sjer fyrir þessari gengislækkun. Menn vita það líka jafnframt, að ýmsir útgerðarmenn hafa stutt þessar kröfur Íslandsbanka. Og hitt vita menn líka, að stjórn Landsbankans stóð lengi vel gegn þessari gengislækkun, þótt hún að síðustu fjellist á hana, hvað sem valdið hefir. En ef þessi ráðstöfun er til þess, annaðhvort að bankarnir sjálfir geti grætt fje á útlendum gjaldeyri, eða þá að einstakir, fáir útflytjendur, og þeir flestir útlendir, geti auðgast á þennan hátt á kostnað allrar alþýðu manna í landinu, þá er þetta ótækt og óhæft í alla staði. Það er vitanlegt, að allar útlendar vörur hækka í verði með hækkandi gengi erlendrar myntar, og hækkunin er meiri að jafnaði en lækkuninni á genginu nemur, því þar við bætist álag kaupmannanna. En af þessari vöruverðhækkun leiðir það, að verkalýður allur á með fullri sanngirni heimtingu á tilsvarandi kauphækkun, svo að hann geti dregið fram lífið. Því það væri himinhrópandi ranglæti við verkalýð landsins, ef einstökum fáum útflytjendum leyfðist að plokka í sinn vasa hagnað af lækkun íslenskrar krónu, á kostnað alls meginhluta þjóðarinnar. Almenningur er sannarlega nógu píndur undir, þó ekki bætist við, að vöruverð hækki enn þá meira en orðið er, þó að kaup hækki sem því svarar.

En þetta á auðvitað við fleiri en verkamenn eina. Það eru líka starfsmenn ríkisins, sem þurfa að fá hækkað kaup sitt með hækkuðu vöruverði. Og þar kemst ríkissjóður ekki hjá beinum útgjöldum. Einnig má benda á það, að með lækkandi gengi íslensku krónunnar þarf ríkissjóður að borga fleiri krónur í vexti og afborganir af lánum sínum. Alt bendir því í þá átt eina, að bæði einstaklingum og þjóðfjelaginu í heild sje stórtjón að gengislækkuninni; hvernig sem litið er á, er hún til stórskaða.

Og þessvegna er eðlilegt að spyrja: Var þetta óhjákvæmilegt, að fella íslensku krónuna svona? Er efnahagurinn svona bágborinn? Eitt af því, sem sagt er að eigi að vera til þess að halda jafnvægi á genginu, er það, að innflutningur og útflutningur standist á. En nú segir hagstofan svo, að síðastliðið ár hafi útflutningurinn numið um 60 milj. kr., en innflutningurinn um 50 milj. Og þó þessar tölur sjeu ef til vill ekki nákvæmar, þá benda þær þó ótvírætt í þá átt, að útflutningurinn hafi verið meiri en innflutningurinn, og eftir því ætti gengið að hafa hækkað, en ekki lækkað. það er líka sagt, og mun rjett vera, að Landsbankinn hafi verið mjög tregur til að ganga inn á þessa lækkun og alveg neitað henni fyrst, og væntanlega hefir stjórnin heldur ekki látið málið afskiftalaust. En ótrúlega og undarlega voldugur má Íslandsbanki vera, fyrst hann hefir getað knúð fram lækkunina samt sem áður, gagnstætt vilja stjórnar og þjóðbankans. Ein orsökin, sem nefnd er manna á milli fyrir gengislækkuninni, er sú, að danskir fjesýslumenn eigi mikið hjer inni, og þegar danska krónan fór að falla á síðastliðnu hausti, hafi þeir stuðlað að gengislækkun á íslenskri krónu, aðeins til þess að halda áfram hinum sama gengismun á peningum landanna og áður hafði verið. Það virðist að vísu dálítið undarlegt, að mennimir vilji þannig skaða sjálfa sig, nema þeir hugsi sjer að vinna þetta upp á annan hátt, t. d. á verðfalli íslenskra afurða.

En þungamiðjan í þessu gengismáli er það, að tryggja landsmönnum sjálfum yfirráð yfir öllum þeim erlenda gjaldeyri, sem til fellur fyrir íslenskar afurðir. Þess vegna hefi jeg aðeins komið fram með þessa tillögu hjer og álít, að hún sje nægileg, ef rjett er með hana farið, og að með henni sje náð því, sem menn annars eru að keppa að og m. a. kemur fram í frumvarpinu, sem hjer er næst á dagskrá, um lánsheimildina, sem jeg tel ekki nauðsynlega eins og nú standa sakir, þó skoðanir okkar hv. flutningsmanns sjeu annars líkar að ýmsu leyti.

Að endingu vil jeg aðeins undirstrika gildi þessa máls enn þá einu sinni og að hjer fáist heillavænleg úrslit þess. Þetta er áreiðanlega eitt mikilverðasta málið, sem nú liggur fyrir þinginu, miklu meira þjóðþrifa- og sparnaðarmál fyrir landið í heild sinni en afnám nokkurra embætta, því hjer er um miljónir króna að ræða. Og þar sem stjórnin hafði það efst á „prógrammi“ sínu í fyrra að laga gengið, er þess fastlega að vænta, að hún vilji halda fast um það atriði, fastara en hún hefir gert nú upp á síðkastið, eða virðist hafa gert. Því það er lífsspursmál allrar þjóðarheildarinnar að láta gengið ekki lækka meira, heldur miklu fremur hækka.