01.03.1923
Neðri deild: 9. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg get tekið undir það með þeim hv. þm., sem síðast talaði, að jeg efast um gagnsemi þeirra miklu umr., sem fram hafa farið um þetta mál. Jeg skal því gera mitt til að lengja þær ekki að óþörfu, en verð þó að svara nokkrum orðum þeim ákúrum, sem nokkrir hv. þm. hafa beint að mjer.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) hefir aftur og aftur álasað stjórn og bankaráði fyrir að hafa ekki ákveðið gengi íslensku krónunnar. Jeg hefi tekið svo rækilega fram skoðun mína í því efni, að jeg nenni ekki að fara að endurtaka það alt enn á ný. Jeg hefi tekið það skýrt fram, að jeg telji það hvorki rjett nje ráðlegt, að bankaráðið fari að blanda sjer í daglega ákvörðun gengisins. Svo er það heldur ekki í Landsbankanum, að landsstjórnin ákveði gengið þar. Það eru bankastjórarnir, en ekki hún, sem eiga að ákveða gengið. Svo er það alstaðar annarsstaðar. Auðvitað er það, að ef einhverjar sjerstakar óvenjulegar ráðstafanir þarf að gera til þess að halda genginu við, þá heyrir það undir bankaráðið.

Þá sagði hv. þm. (JB), að stjórnin hefði enn þá ekki gert neina grein fyrir afskiftum sínum af samningstilraunum milli bankanna í því skyni að halda genginu uppi. Jeg gerði grein fyrir öllu þessu í gærdag. Þar sagði jeg einmitt frá samningsuppkastinu, sem fjármálaráðherra stakk upp á. Gerði grein fyrir, að aðalkjarninn í því hefði verið sá, að sameiginleg nefnd, með einum bankastjóra frá hvorum banka og oddamanni frá stjórninni, skyldi sjá um gjaldeyrisverslunina, en hvor bankinn átti að skjóta inn um 60 þúsund pundum og þeim gjaldeyri, sem hann seinna fengi, en tapi af versluninni átti að skifta á milli landssjóðs og bankanna að einum þriðja hluta. Á seinasta augnabliki hvarf Landsbankinn frá þessu ráði, og fullyrðir einn af bankastjórum Íslandsbanka, að samningurinn hafi strandað á Landsbankanum, en Íslandsbanki hafi verið fús á að ganga að honum, og um það er mjer kunnugt.

Þá ámælti hv. þm. (JB) stjórninni fyrir að hafa ekki gert þær ráðstafanir, sem Landsbankinn hafi heimtað til að hækka gengi íslensku krónunnar. Þessu hefi jeg nú svarað áður, og þýðir ekki að endurtaka það.

Þá ásakaði hv. 2. þm. Reykv. (JB) stjórnina fyrir að hafa ekki hvatt útflytjendur á fund til að ræða um sölu afurðanna. Jeg get í því tilliti fullvissað hv. þm. um tvent: Fyrst það, að aldrei hefði komið til mála, að útflytjendur hefðu viljað láta stjórnina fá öll tögl og hagldir í því efni, og auk þess myndi stjórninni, þótt svo hefði farið, aldrei hafa dottið í hug að taka sölu afurðanna nú í sínar hendur.

Jeg veit, að það er þægilegt að hafa landsstjórn til að geta lagt allar syndir á hennar bak. En það verður þó að minsta kosti að færa einhver málamyndarök fyrir þeim tilraunum.

Hvað gat nú stjórnin gert meira í þessu máli en hún gerði ? Hún reyndi að koma á samkomulagi með bönkunum, reyndi það á allan hátt og ætlaði að takast á hendur fjárhagslega ábyrgð í því skyni. Bankarnir gátu ekki bent á nein ráð, nema höftin, sem stjórnin gat ekki gengið að. Og setjum nú svo, að stjórnin hefði samþykt höftin og reynst svo sterk, að þingið hefði fallist á þær gerðir hennar. þrátt fyrir það hefðu höftin ekki getað verkað strax og náð því markmiði, sem til var ætlast. Nei, sje litið á málið með nokkurri sanngirni, er ekki hægt að komast að annari niðurstöðu en að stjórnin hafi gert alt, sem hægt var, í þessu tilliti, en það var að reyna að fá bankana til að vinna saman. Það er þetta, sem er aðalatriðið í slíkum málum, að hafa bankastjórnir, sem reyna að finna saman þær leiðir, sem færar eru út úr slíkum torfærum, bankastjórnir, sem ekki vinna hver á móti annari, heldur styðja hver aðra.

Í fyrri svörum mínum til hv. 2. þm. Reykv. (JB) hefi jeg farið svo rækilega inn á gengisspursmálið, að jeg þarf í raun rjettri engu þar við að bæta.

Hv. þm. (JB) sagði, að skoðanir mínar þar væru gripnar úr lausu lofti. Sjerstaklega hneykslaðist hann á kenningu minni um það, að þegar krónan hækkaði, þá minkaði eftirspurnin eftir erlendum gjaldeyri, og öfugt. Jeg skal í tilefni af þessu enn taka fram, að í vor leit út fyrir, að aflast myndi mikið hjer af fiski og hann verða í háu verði. Af þessu bjuggust menn við, að íslenska krónan myndi hækka með haustinu, og biðu því margir, sem skulduðu erlendis, með að yfirfæra fje sitt og borga skuldirnar, til þess að geta þar notið hagnaðar af gengishækkuninni. Þegar svo allar horfur urðu verri, þá flýttu allir sjer að yfirfæra og borga skuldirnar, af því að þeir hjeldu, að krónan mundi lækka enn þá meira, og vildu sem mest fara á mis við aukna lækkun. Þetta er algilt lögmál, sem viðskiftalífið hreyfir sig eftir, og mun það halda áfram að hreyfa sig eftir því, þótt hv. þm. (JB) hristi höfuðið. Og jeg fæ ekki skilið annað en öllum, sem nokkuð hafa fengist við verslun eða slík viðskifti, eigi að vera þetta auðskilið.

Annars skal jeg endurtaka það, að jeg er sammála hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um, að frekari umr. í þessu máli muni ekki bera neinn árangur að sinni.