01.03.1923
Neðri deild: 9. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í D-deild Alþingistíðinda. (3356)

27. mál, verðgildi íslenskrar krónu

Jakob Möller:

Það var aðeins lítil athugasemd til að svara hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Hann spurði, hvort jeg hefði sagt, að bankaráð Íslandsbanka hefði beitt áhrifum sínum til þess að koma í veg fyrir, að gengið á sterlingspundinu hækkaði í september síðastl. Já, þetta var rjett skilið, og fæ jeg þá ástæðu til að gera nánari grein fyrir, hvernig á því stóð, og verður það þá um leið skýring á gengissveiflum á árinu 1922. Eftir tillögu frá viðskiftamálanefnd síðasta þings, að gerðar væru tilraunir til að koma á jafngengi, semja um lausaskuldir og afla bankanum lánstrausts, þá var einn bankastjóri Íslandsbanka einmitt farinn til útlanda í þeim erindum. Á meðan hann var í ferðalagi sínu erlendis, þótti bankaráðinu viðurhlutamikið að gera breytingar á genginu. Vildi heldur bíða og sjá, hvað ynnist, samkvæmt vilja þingsins. Árangurinn af ferð bankastjórans varð sá, að að vísu fekst nokkurt viðskiftalán, sem telja má nægilegt til árlegra þarfa, en ekki til þess að festa lausaskuldirnar.

Jeg get fyrir hönd bankaráðsins forsvarað gerðir þess í septembermánuði, enda var það þá alt sammála. En jeg vil ekki forsvara gerðir þess síðan, enda hefir verið ágreiningur um þær. En út af kenningunni um sveiflur á genginu, þá segir hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að erlendi gjaldeyririnn hafi hækkað í verði um aðalsölutímann, þegar mest var framboðið af honum. Jeg hugsa, að hann sje svo skýr og rökfastur fylgismaður frjálsrar samkepni, að hann viti, að þegar framboðið eykst, þá fellur varan í verði. (JÞ: Ekki ef eftirspurnin er meiri). Nei, vissulega, en það var ekki mín kenning, sem hann var að andæfa, því að andmæli hans bygðust á því, að aðalsölutími afurðanna hafi síðastliðið ár verið haustmánuðina, en þá hafi framboðið verið minna á erlendum gjaldeyri en eftirspurnin. En við þetta er það að athuga, að undirstaðan er röng. Aðalsölutími afurðanna var fyrri hluta sumarsins, fram í júlí og ágúst. Þá var framboð erlenda gjaldeyrisins mest, og því fjell gjaldeyririnn þá. í september og október brást fisksalan og þá hækkaði gengi erlendra peninga. Þetta dauða tímabil kom fyr 1922 en áður. Sala landbúnaðarafurðanna fer að vísu fram á haustin, en dregst fram eftir vetri, og mun t. d. jafnvel eitthvað óselt enn af kjötinu.

Þessi kenning mín um framboð og eftirspurn er alviðurkend sem grundvöllur frjálsrar samkepni og stendur óhrakin af ummælum hv. samþm. míns (JP).

Þá kem jeg að því, sem hv. þm. (JÞ) mintist á, að lággengi krónunnar verkaði ekki lækkandi á verð afurðanna hjer á landi, af því að afurðirnar væru seldar við erlendum gjaldeyri. Þetta er rjett um ísfiskinn, sem hann og tók sjerstaklega til dæmis, en það er svo lítill hluti af heildinni, að það hefir svo að segja enga þýðingu. Og saltfiskurinn, sem er yfirgnæfandi hluti íslenskrar vöru á heimsmarkaðinum, er að mestu leyti seldur við íslenskum krónum. Ályktun hv. þm. (JÞ) er því ekki rjett, að því er snertir meiri hluta innlendu varanna. Þetta vita allir, og hefir því og áður verið haldið fram hjer af þm. V.-Ísf. (ÓP), samkv. Alþingistíðindum.

Hv. sami þm. (JÞ) kom og inn á það í gær með dæmi, sem hann tók til meðmæla lággenginu, er hann áleit, að það gæti borgað sig að fella gjaldeyrisvöruna í verði til þess að vinna markaðinn. Þetta er hættuleg svikamylna; ef til vill yrði augnablikshagur að því, en síðar vinnur það á móti sjálfu sjer. Ljett verk er að fella vöruverðið, en ekki auðvelt að koma því upp aftur.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að lengja umræðurnar meira. Við erum sammála um hlutfallið milli vinnulauna og gengisins. Það er eitt af því nauðsynlegasta, að koma vinnulaununum í samræmi við verðlagið. En í sambandi við það vil jeg að lokum biðja hv. þm. (JÞ) og aðra, sem verja lággengi, að athuga, hve óvissan um gengið er varhugaverð vegna kaupsamninga. Togstreita um kauphækkun og lækkun vofir yfir meðan gengið er ekki fest.