13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (3366)

53. mál, sjómælingar

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg vil þakka hæstv. atvrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið í þessu máli, og vil taka undir það með hv. flm. brtt. (ÞórJ), að mig óar við þeim kostnaði, sem mælingar þessara skipaleiða hafa í för með sjer. Jeg vil þó taka það fram, að það missist árlega mikill afli vegna þess, að siglingaleiðir eru þarna ómældar og skip geta eigi stundað veiðar um þessar slóðir. Það kom fyrir árin 1901 og 1908, að skip gátu ekki komist inn á Þaralátursfjörð, og hlektist á báðum, þó að eigi hlytist manntjón af.

Jeg endurtek það, að hjer er árlega um mikið aflatap að ræða; en vegna fram kominna upplýsinga tel jeg, að framkvæmdum megi fresta.