13.03.1923
Neðri deild: 19. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (3367)

53. mál, sjómælingar

Gunnar Sigurðsson:

Það kom fram í upplýsingum þeim, sem hæstv. atvrh. gaf um rannsókn þeirra sævarsviða, er hann gat um, að þeir, sem upplýsingarnar gáfu, þektu nauðalítið eða helst ekki Hallgeirsey við Landeyjasand. Þetta sýnir það, hvað nauðsynlegt er að rannsaka þetta svæði, einkum þegar tillit er tekið til þess, að hjer er um þá einu alhafnlausu sýslu landsins að ræða. Nú er þó svo komið, að auk mótorbáta og smábáta koma þarna öðruhvoru stórskip. Allir hljóta að skilja, hve erfitt muni ganga að fá skip til að koma þarna við, þar sem svæði þetta er ómælt og ókunnugt um dýpi og grynningar við sandinn. Jeg verð nú, eins og aðrir, sem hlut eiga hjer að máli, að sætta mig við það, með tilliti til kostnaðarins, að frestun verði á rannsókn, en hins vænti jeg, að rannsóknar á sævarsviðinu hjá Hallgeirsey verði ekki langt að bíða og sitji fyrir öðru. Einkum lægi þetta vel við, ef „Þór“ framkvæmdi verkið, eins og hæstv. atvrh. taldi, að ráðlegt þætti, þar sem svæði þetta er alveg undir handarjaðrinum á Vestmannaeyjum og „Þór“ er þar skrásettur og hefir aðalstrandvarnirnar þar. Jeg vildi því óska, að stjórnin sæi sjer fært að láta framkvæma þessa rannsókn við Hallgeirsey sem allra fyrst.