14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (3392)

32. mál, landsspítali

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvinsson):

Á Alþingi í fyrra bar jeg fram þingsályktun um landsspítalann, sem fór í þá átt að skora á ríkisstjórnina að láta sem fyrst byrja á byggingu hans, og var sú tillaga samþykt.

Svör þau og undirtektir, sem tillagan fekk hjá hæstv. stjórn og forsætisráðherra, máttu ef til vill teljast sæmileg, þar sem hæstv. ráðherra lýsti yfir því, að sjer væri það mikið áhugamál, að bygging landsspítala kæmist sem fyrst í framkvæmd. En hæstv. ráðherra taldi samt ekki líklegt, að hægt mundi vera að byrja bygginguna á því ári og því aðallega borið við, að uppdrættir og áætlanir um byggingu spítalans lægju enn ekki fyrir, þar sem nefndin, sem þessi undirbúningur hefði verið falinn, væri eigi búin að skila áliti sínu.

En nú ætti þetta ekki lengur að vera til fyrirstöðu verkinu, því spítalanefndin hefir nú fyrir tveim mánuðum skilað áliti sínu og allir uppdrættir að spítalabyggingunni liggja fyrir. Og einmitt þegar jeg vissi, að nefndin hafði lokið störfum sínum, þá bar jeg fram fyrirspurn þá, sem nú loksins er hjer komin til umræðu. Og það er líklega gott, að þessi fyrirspurn hefir dregist svo lengi, því með því hefir stjórninni gefist færi á að íhuga enn nánar, hvað gera skuli í þessu þjóðnytjamáli.

Og jeg vil ekki fyrirfram afsaka hæstv. stjórn með því, að þingannirnar hafi tekið allan tímann frá henni, þótt jeg játi, að mikill tími fari í það að sinna þinginu, því bæði er það, að stjórnin hefir marga trúnaðarráðunauta til að ráðfæra sig við, t. d. yfirmann læknastjettarinnar, landlækninn, sem jeg veit, að hefir mjög mikinn áhuga á þessu máli og skjótri framkvæmd þess.

En þar að auki veit jeg, að á síðastliðnu hausti fekk stjórnin alveg sjerstakt tilefni til þess að snúa sjer að byggingu landsspítalans og að hugsa um ráð til fjárútvegunar, svo hægt væri að ráðast í bygginguna í náinni framtíð. Á jeg þar við þá hreyfingu, sem komst á málið fyrir tilstilli verkalýðsfjelaganna hjer í bænum, sem ljetu nefnd manna leita á fund landsstjórnarinnar til þess að herða á framkvæmdum í því máli. Og jeg þykist vita, að það muni líka nokkuð vera þeirri hreyfingu að þakka, að spítalanefnd hefir nú lokið störfum sínum og þar með væntanlega þeim undirbúningi, sem vantaði í fyrra, er málið lá fyrir þinginu, og sem nauðsynlegur er til þess, að hægt sje að snúa sjer að verklegum framkvæmdum í byggingu hins margþráða landsspítala.

Og það eru fleiri en jeg, sem líta svo á, að nú þurfi alvarlega að hefjast handa. Nú síðustu dagana hafa komið áskoranir frá allmörgum kvenfjelögum hjer í bænum, og frá Læknafjelaginu hefir þinginu borist mjög svo ákveðin ósk um þetta sama. Og auðvitað ættu læknarnir að vera öllum öðrum kunnari um þörfina á spítalanum, og af því þessi áskorun skýrir málið svo vel, vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp fundarsamþykt fjelagsins:

„Læknafjelag Reykjavíkur telur svo brýna nauðsyn bera til þess, að landsspítali sje bygður, að undan því verði ekki flúið. Húsnæði vantar fyrir sjúklinga; kensla læknanema verður erfiðari með ári hverju, kensla ljósmæðra og hjúkrunarnema getur ekki orðið viðunandi fyr en fram úr þessu er ráðið“.

Hjer er í mjög svo ákveðnum orðum vikið að nauðsyn málsins, ekki einungis þörfinni að koma upp spítalanum, vegna hinna mörgu sjúklinga, sem ekki komast að í þeim spítölum, sem fyrir eru — og sem hin illu og ónógu húsakynni hjer í í Reykjavík gera enn brýnni —, heldur einnig vegna læknakenslunnar við háskólann.

Og mjer finst þessi ástæða enn merkilegri fyrir þá sök, að það er einmitt sama ástæðan, sem borin var fram, þegar þessu máli var hreyft fyrst opinberlega, svo jeg viti, en það var á Alþingi í 1845, að Jón Sigurðsson bar þetta mál fram; tillaga hans og nefndar þeirrar, sem um það fjallaði þá, var í þá átt, að settur yrði á stofn í Reykjavík spítali og við hann settir 2 kennarar auk landlæknis.

Átti sá spítali að kosta um 12 þús. ríkisdala, og hefir það sjálfsagt verið „stór peningur“ þá. En ekki sjest, að þeim hafi vaxið það neitt í augum, og þóttust sjá ráð til að kljúfa þann kostnað. Þá voru aðeins 8 læknar á öllu landinu, en þá er talað um, að þeim þurfi að fjölga svo, að læknir verði í hverri sýslu að minsta kosti.

Þetta er nú kanske útúrdúr, en það sýnir, að bestu menn þjóðarinnar hafa ekki verið hræddir við að leggja mikið fje til þess, sem þeir álitu vera til þjóðþrifa.

Í áliti spítalanefndarinnar er gert ráð fyrir, að spítalinn fullbygður, eftir uppdráttum þeim, sem fyrir liggja, muni kosta 3 milj. og 400 þús. kr. Það er nú von, að mönnum vaxi þessi mikla fjárhæð í augum. Og það kann að vera, að hæstv. stjórn telji sig ekki máttuga til þess að útvega svo mikið fje, sem þarf. En það er bót í máli, að nefndin telur, að ekki þurfi að byggja alt í einu.

Hún stingur að vísu upp á því, að vesturálma spítalans og miðhúsið, ásamt fleiri nauðsynlegum byggingum, verði bygt í einu. Og kostar það með áhöldum eftir áætluninni nálægt 3 milj. kr.

En jeg hefi mikla ástæðu til að halda, eftir viðtali mínu við einn nefndarmann, að ekki þurfi að taka svo mikið fyrir í einu. En jeg skal ekki fara út í það að svo stöddu.

Jeg þykist líka vita, að hæstv. stjórn hafi hugsað sjer ákveðnar framkvæmdir í þessu máli, bæði að því er fjárhagshliðina og tilhögun verksins snertir.

Og með þessari fyrirspurn minni hefi jeg gefið hæstv. stjórn tækifæri til þess að skýra fyrir hv. þingdeild fyrirætlanir stjórnarinnar í þessu mikilvæga máli, sem þar að auki er áhugamál allra landsmanna.