14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

32. mál, landsspítali

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal hjer með leyfa mjer að svara þessari landsspítalafyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. (JB) eins og unt er.

9. nóv. 1921 var skipuð nefnd til þess að gera tillögur og áætlanir um byggingu landsspítalans. Í þessari nefnd sátu fyrst Guðmundur prófessor Hannesson, Guðmundur læknir Thoroddsen og Jón Hjaltalín Sigurðsson hjeraðslæknir; en síðar voru skipuð í hana Halldór Steinsson hjeraðslæknir og Ingibjörg H. Bjarnason skólastjóri. Þessi nefnd hefir nú lokið störfum sínum, og hafa teikningar allar og áætlanir verið lagðar hjer fram, og geri jeg ráð fyrir því, að hv. þingmenn hafi þegar kynt sjer þau mál. Eins og auðsjeð er á þeim plöggum öllum, er það mjög mikil vinna, sem liggur í störfum nefndarinnar, og vil jeg hjer með nota tækifærið til þess að þakka henni fyrir það, þar sem það er mjög vandað og vel af hendi leyst, og auk þess hefir nefndin unnið kauplaust. Það er áætlað, að allur byggingarkostnaður verði 3400 þús. kr., miðað við núverandi verðlag. En miðbyggingin og vesturhliðin, sem álitið er, að megi byggja sjerstaklega, á að kosta 2 milj. og 600 þús. kr. Mætti þó kanske láta sjer nægja að byrja með enn þá minna, sleppa t. d. fyrst um sinn þeirri deild, sem Röntgenstöðin á að vera í, og mundi þá kostnaðurinn sennilega fara ofan í 2 milj. Hefir mjer líka heyrst á sumum læknum, að jafnvel mætti byrja á enn þá minna. En auk þess sem nefndin hefir þannig gert áætlanir um byggingarkostnaðinn sjálfan, hefir hún gert það, sem ekki er síður mikilsvert, sem sje áætlun um rekstrarkostnaðinn, og vil jeg leyfa mjer að minna þar á nokkrar niðurstöður hennar.

Öll árleg gjöld, starfslaun, hiti, ljós, fæði, eru áætluð 281 þús. og 500 kr., en tekjurnar eru áætlaðar 180 þús. kr., og eru það fæðispeningar sjúklinga eingöngu, en fyrir ýms læknisstörf er ekki áætlað að taka neitt gjald. Árlegur rekstrarhalli er því áætlaður 101 þús. kr. Þar við bætist þó, að þarna eru ekki taldar rentur og afborganir af verði hússins.

Jeg er sammála hv. fyrirspyrjanda (JB) um þörfina á spítalanum; af henni verður ekki ofsögum sagt. Ástandið er nú svo, að á ýmsum sjúklingum þarf að gera stóra skurði, en þeir verða að bíða, oft alllengi, aðeins af því, að ekki er spítalapláss til. Gildi þessa spítala er heldur ekki aðeins fyrir Reykjavík eina, heldur fyrir alt landið. Annars þarf jeg ekki að fjölyrða um þetta, því um það munu allir sammála. Jeg tel einnig víst, að þegar ráðist verður í bygginguna, verði farið eftir till. og áætlunum nefndarinnar. Það er aðeins eitt, sem örðugleikum veldur nú — og það að vísu mjög stórt atriði — og það er fjárhagsatriði málsins.

Hv. fyrirspyrjanda (JB) er það samt eins kunnugt og mjer, að ómögulegt er að sjá nú, að unt sje að gera neitt á þessu ári. Ein bygging á þó, samkvæmt loforði stjórnarinnar, undir öllum kringumstæðum að ganga á undan landsspítalanum, og það er viðbótin við Klepp. En kostnaðurinn við þessa viðbót er áætlaður 400 þús. kr. En um landsspítalann sje jeg ekki að unt sje nú að gefa ákveðið svar; það fer mikið eftir tímunum og fjárhagshorfunum að sjálfsögðu. Á þessu ári er ekki sjáanlegt, að unt sje að byrja, en stjórninni er það mikið áhugamál að byrja undir eins og nokkur tök eru á því, eins og jeg hafði tekið fram þegar á síðasta þingi.