14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í D-deild Alþingistíðinda. (3396)

32. mál, landsspítali

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvinsson):

Það er eitt, sem mjer láðist að spyrja hæstv. stjórn um áðan, og ætla jeg að gera það nú. Það eru til lög frá þinginu 1919 um húsagerðir ríkisins. Þar eru taldar upp nokkrar opinberar byggingar, sem reisa skuli á næstunni, og er landsspítalinn þar efstur á blaði. Var þar ætlast til, að stjórnin tæki lán til að koma honum upp. Nú vil jeg spyrja hæstv. stjórn, hvort hún telur nokkra möguleika aðra til að koma upp spítalanum en þann að taka lán; og í öðru lagi, hvort hún hefir gert sjer nokkurt far um að taka lán í þessu skyni. Jeg lít nefnilega svo á, að vilji hún ekki nota þessa lánsheimild, þá muni seint verða bygt. Því jeg býst við, því miður, að það kunni að verða langt þangað til 2 miljónir króna verða fyrirliggjandi og á lausum kjala í ríkissjóðnum. Það, sem mig langar því til að fá svör við, er þetta: hvort stjórnin hefir leitað fyrir sjer um lán eða ætlar að gera það. Á því veltur að minni skoðun meir en á tómum góðum vilja hæstv. stjórnar.