14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

32. mál, landsspítali

Forsætisráðherra (SE):

Jeg fer nú að verða heldur undrandi yfir hv. fyrirspyrjanda (JB). Hann kvartar yfir því, að stjórnin vilji ómögulega taka lán til þessa fyrirtækis, en þó var jeg að lýsa því yfir rjett áðan, að spítalinn myndi aldrei verða reistur án þess, að lán væri tekið, og kvað jafnframt stjórnina mundu stuðla að því, að þetta gæti orðið sem fyrst. Hitt tók jeg jafnframt fram, að fyrst yrðu að sitja fyrir fyrirtæki eins og Flóaáveitan og Kleppsspítalinn, sem ríkið væri þegar byrjað á. Sje jeg ekki, að með nokkru móti sje hægt að lá stjórninni þá ákvörðun hennar. En væri nú svo, að hv. Alþingi vildi endilega láta stjórnina taka lán nú og reisa spítalann á þessu ári, þá liggur beinast við að koma fram með till. til þingsályktunar, þess efnis, að Alþingi skori á stjórnina að hraða sjer að nota lánsheimildina og láta í skyndi reisa húsið.