20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

21. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg hefi fremur lítið að segja um þetta mál. Frv. ber það ljóslega með sjer, hvert það stefnir. Eins og kunnugt er hefir stjórnin jafnan heimild til að taka lán til ýmsra framkvæmda. Frv. lýtur að því, hvernig slíkum lántökum ríkisins skuli haga. Það er aðaltilgangurinn að greiða fyrir slíkum lántökum innanlands með því að hafa skuldabrjefin jafnan á boðstólum, án sjerstaks útboðs, og með því að gefa þeim sem ákveðnast form. Þessi skuldabrjef eiga að vera gefin út á innlendan gjaldeyri, og er þá í raun og veru bann lagt við því, að lán verði tekin í útlendum gjaldeyri. Þess vegna verður að fá sjerstök heimildarlög fyrir þess konar lántöku í hvert skifti.

Þetta getur að vísu komið stjórninni í vanda, því að erfitt verður vafalaust að fá innlend lán fyrst um sinn, og þau ófullnægjandi og ilt að koma innlendum skuldabrjefum í verð. Hins vegar sýnilega tryggara og áhættuminna fyrir ríkið að eiga skuldabrjef sín í innlendum gjaldeyri, meðan gengið er svo reikult sem það er nú. Nefndin hefir orðið sammála um að samþykkja frv. og telur aðalstefnu þess rjetta og miða til góðs, þrátt fyrir þær hömlur, sem lagðar eru á stjórnina til lántöku. En það er ekki útilokað, að brjefin megi selja gegn erlendum gjaldeyri eða fá markað fyrir þau erlendis, ef gangskör væri að því gerð, og mætti með því móti greiða úr gjaldeyrisvandræðunum.